21.03.1956
Sameinað þing: 48. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í D-deild Alþingistíðinda. (2324)

39. mál, eyðing refa og minka

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Eins og menn minnast, var þessi þáltill. í fyrstu eingöngu um að fela ríkisstj. að láta í samráði við Búnaðarfélag Íslands fram fara athugun á möguleikum til eyðingar refa og minka og þá sérstaklega, hvort ekki væri tiltækilegt að taka upp nýjar aðferðir til útrýmingar þeim.

Við fyrri hl. þessarar umr. gerði ég grein fyrir því, að allshn. þingsins hefði fengið þær upplýsingar, að það væri einmitt verið að framkvæma þá athugun, sem till. fer fram á að gerð sé, og þess vegna lagði n. til, að till. yrði afgreidd með rökstuddri dagskrá. En nú hafa hv. flm. þessarar upprunalegu till. borið fram brtt. á þskj. 449 um umorðun á tillögunni. Þar er um svo mikla efnisbreytingu að ræða, að þetta má heita allt önnur till. en upprunalega var borin fram, því að hún er um það, að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að skipa í samráði við búnaðar- og bændasamtökin í landinu þriggja manna nefnd til að gera tillögur um skipulagðar og samræmdar aðgerðir um land allt í því skyni að vinna að útrýmingu refa og minka með þeim aðferðum og á þann hátt, sem n. telur vænlegast til árangurs á sem skemmstum tíma, og svo frekari ummæli um að hafa samband við sýslunefndir og að nefndin kynni sér álit þeirra manna, sem mesta reynslu hafa í þessu.

Allshn. tók þessa brtt. til athugunar, eftir að fyrri hluti þessarar umr. fór fram, og getur hún fallizt á, að brtt. verði samþykkt, og er þar með dagskrártillagan tekin aftur.