27.03.1956
Sameinað þing: 50. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í D-deild Alþingistíðinda. (2352)

156. mál, bátagjaldeyrishlunnindi til sjómanna í Vestmannaeyjum

Frsm. (Pétur Ottesen):

Í þáltill., sem hér liggur fyrir á þskj. 380 og flutt er af hv. þm. Vestm., er farið fram á, að Alþ. skori á ríkisstj. að vinna að því á þann hátt, er hún telur hagkvæmast, að gera útvegsmönnum í Vestmannaeyjum fært að inna af hendi greiðslur til sjómanna vegna vangoldinna bátagjaldeyrishlunninda fyrir árin 1952 og 1953.

Eins og nál. á þskj. 566 ber með sér, varð um það samkomulag í fjvn. að mæla með samþykkt þessarar till., og felur það að sjálfsögðu í sér von um, að lausn geti fengizt á þessu máli.

Eins og alþm. er kunnugt, flutti hv. þm. Vestm. till. um þetta mál í sambandi við afgreiðslu fjárlaga fyrir yfirstandandi ár. Í þeirri till., sem hann bar fram um þetta sem brtt. við heimildagrein fjárl., fór hann fram á, að ríkisstj. væri heimilað annaðhvort að veita lán í þessu skyni eða þá ábyrgjast lán, sem útvegsmenn í Vestmannaeyjum tækju til þess að inna þessa greiðslu af hendi. Var þá talið, að sú upphæð, sem hér væri um að ræða, mundi nema allt að 3 millj. og 600 þús. kr. En úr afgreiðslu á þessa lund varð ekki, eins og kunnugt er. Nú er orðalag till. annað, þótt að sjálfsögðu sé með flutningi hennar stefnt að því, að lausn fáist á þessu máli, en fyrirgreiðsla ríkisstj. mundi sennilega verða fyrst og fremst fólgin í því, að hún hefði um það milligöngu við bankana, að þeir veittu útvegsmönnum lán til þess að inna þessar greiðslur af hendi.

Ég veit af samtölum við ríkisstj. um þetta mál, að hún hefur allan vilja á því, að lausn á málinu gæti fengizt með þessum hætti, og vissulega væri vel farið, að sú gæti orðið raunin á.

Ég hef svo ekki frekar fram að taka af hálfu n. um þessa till., en hún leggur til, að hún verði samþykkt.