14.03.1956
Sameinað þing: 46. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 123 í D-deild Alþingistíðinda. (2357)

181. mál, umbætur í sjávarútveginum

Flm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Um hver áramót undanfarin mörg ár hafa Alþingi og ríkisstj. verið sett í þann vanda að leysa efnahagsörðugleika sjávarútvegsins, sem vegna sívaxandi útgjalda af völdum dýrtíðarinnar hefur ekki getað staðið á eigin fótum.

Fyrsta aðstoðin, sem veitt var bátaútveginum, var hinir svonefndu hrognapeningar. Þegar þetta reyndist ekki nægilegt, var tekið upp bátagjaldeyriskerfið og því beitt í vaxandi mæli, eftir því sem nauðsyn þótti til bera á hverjum tíma. Alllengi var þessi aðstoð aðeins veitt bátaútveginum. En að því dró síðar, að sjá varð togaraflotanum einnig fyrir fjárhagslegri aðstoð, þar sem sýnilegt var, að sá útvegur gat ekki heldur staðið á eigin fótum. Fyrst fengu gömlu togararnir gjaldeyrisfríðindi, og síðan var tekin upp sú regla að ákveða nýju togurunum styrk á hvern veiðidag, og fór það vaxandi, eins og kunnugt er.

Sýnt var fram á og það með allsterkum rökum, að gjaldeyrir sá, sem útvegurinn aflaði, væri af honum tekinn og afhentur öðrum aðilum fyrir of lágt verð og að neytendur þeirra vara, sem fyrir hann voru keyptar, fengju raunverulega hagnaðinn, sem útgerðinni bæri að fá, og því væri rétt og sjálfsagt að breyta sölu gjaldmiðilsins til samræmis við aukinn kostnað við framleiðsluna. Var og hnigið að þessu ráði og gengið fellt, eins og kunnugt er.

Með því að í kjölfar þess fylgdi á öllum sviðum sókn um hækkun á launum og öllu verðlagi í landinu, án þess þó að jafnframt væri unnt að knýja fram hærra verð fyrir framleiðsluna á erlendum markaði eða gera hana verðmeiri né heldur að skipuleggja verulegan sparnað í rekstri útgerðarinnar á öðrum sviðum, bar allt að sama brunni um afkomu útvegsins, og nú er svo komið, að greiða verður mjög háar fjárfúlgur til sjávarútvegsins af opinberu fé í einu eða öðru formi til þess að` tryggja, að þessi atvinnuvegur landsins stöðvist ekki. Þegar svo er komið, rísa upp óteljandi spurningar hjá þeim, sem taka verða á sínar herðar þungann af aðstoð þeirri, sem hér er veitt. Og einkum nú, eftir að ákveðið var, á hvern hátt og að hve miklu leyti skyldi styrkja útveginn á þessu ári, hefur komið fram margvísleg gagnrýni á þing og stjórn í sambandi við þær ákvarðanir og háværar kröfur settar fram um að láta endurskoða öll þessi mál, svo að raunverulega liggi fyrir skýr heildarmynd af ástandinu og á grundvelli þeirra upplýsinga verði síðar teknar ákvarðanir, sem nauðsynlegar séu til þess að tryggja vöxt og viðgang útflutningsframleiðslunnar í landinu.

Ríkisstj. og Alþingi hafa jafnan í samráði við ýmsa sérfræðinga í útvegsmálum ákveðið, hvaða aðstoð skuli það og það árið veitt útveginum svo og eftir hvaða leiðum það skuli gert. Um þá fjárhagsupphæð, sem endanlega hefur verið ákveðin þannig, hefur ekki verið neinn ágreiningur, enda hafa allir stjórnmálaflokkarnir verið með í því að samþykkja þann þátt aðstoðarinnar, eftir að þeir hafa kynnt sér þær upplýsingar, sem fyrir hafa legið um afkomu útvegsins. En um hitt hefur verið deilt, á hvern hátt og að hvaða leiðum aðstoðin skuli veitt. Í þeim umr. hafa verið settar fram fullyrðingar um óhæfilegan milliliðagróða hjá þeim aðilum, sem annast margvíslega þjónustu í sambandi við útveginn, gróða, sem eðlilegt væri, að útvegurinn yrði aðnjótandi, án þess þó að jafnframt væri bent á nokkra frambærilega leið til þess að tryggja útveginum slíkan gróða. Hins vegar er augljóst, að eftir að búið er árum saman að fara þá leið að tryggja afkomu útvegsins með opinberu framlagi, er sköpuð vís hætta á því, að upp rísi óeðlileg verkaskipting í rekstrinum, þar sem hinum betra hluta er haldið að þeim greinum, er engrar aðstoðar njóta frá því opinbera, en hinum lakari að þeim greinum, sem vitað er að muni verða styrktur, svo að þær geti haldið áfram starfrækslu, og við slíku verður að sjálfsögðu að gæta fullrar varúðar.

Þótt einkennilegt megi virðast, hafa þeir aðilar, sem mest hafa fjallað um þessi mál, aldrei krufið til mergjar, hvort unnt væri að gera þær tæknilegar og viðskiptalegar umbætur í rekstri framleiðslu sjávarafurða, sem jafnað gætu að verulegu leyti eða að öllu leyti þann halla, sem árlega er á rekstrinum, án þess að rýra hlut þeirra manna, sem við hann starfa. Er þetta þó hin mesta nauðsyn, og því er till. sú, sem hér er til umr., fram borin. Það verður ekki um það deilt, að eigi að vera unnt að viðhalda þeim lífskjörum, sem þjóðin hefur skapað hér á undanförnum árum, og enginn, hvar í flokki sem hann vill standa, vill, að þau verði rýrð, þá verða allir að leggjast á eitt með að auka útflutningsverðmætin, en draga ekki úr þeim.

Það heyrast að vísu háværar raddir um það nú, einkum frá þeim, sem fara með bankamál og fjárhagsmál þjóðarinnar utan sala Alþingis, að hefja beri stórfelldan niðurskurð á innflutningi og að stöðva beri þá þróun, sem orðið hefur hér í uppbyggingu á flestum sviðum hin síðari ár, til þess þannig að ná hagkvæmum verzlunarjöfnuði og safna gjaldeyrisforða erlendis. Vissulega gæti þetta sjónarmið út af fyrir sig vel fært að settu marki, en það er á engan hátt þrautalaust fyrir framsækna athafnaþjóð og færir ekki þegnunum aukin lífsþægindi eða bætt kjör, nema síður sé. Hin önnur leið og heppilegri að sama marki er að auka útflutninginn bæði að magni og verðmæti.

Nú er það vitað, að aðalframleiðslan til útflutnings er framleiðsla sjávarafurða. Það er því beint og órjúfanlegt samband á milli þess að auka útflutninginn og gera hann verðmætari og hins, að bæta afkomu útvegsins og auka afköst hans. Ætli þjóðin sér því að halda uppi baráttu fyrir sem beztum lífskjörum til handa þegnunum, verður hún jafnframt að halda uppi baráttu fyrir sæmilegri efnahagsafkomu sjávarútvegsins. Þetta tvennt verður ekki aðskilið, svo lengi sem sá atvinnuvegur annast meginhluta útflutningsframleiðslunnar, eins og nú er. Þessa staðreynd verður þjóðin að gera sér ljósa. Og þegar ekki er unnt lengur að komast fram hjá þessum sannindum, verður þjóðin að velja sér þá leið, sem er öruggust, sársaukaminnst og skerðir minnst hluta þeirra, sem að framleiðslunni vinna.

Þegar horfið var að því árið 1945 að endurnýja togaraflotann, voru teknar upp þrauthugsaðar endurbætur á vélum togaranna, sem höfðu það í för með sér, að hvert skip sparaði um þrjár smálestir í eldsneyti á degi hverjum, miðað við sams konar stærð skipa annarra þjóða. Vakti þetta svo mikla athygli, að ýmsar aðrar þjóðir hafa tekið upp þessar sömu endurbætur. Síðan var horfið að enn víðtækari umbótum á vélum skipanna, sem enn gáfu jafngóðan árangur. Þessar tæknilegu umbætur á aðeins einum þætti í rekstri togaranna hafa sparað útgerðinni milljónir, og raunverulega er enginn vafi á því, að ef þær hefðu ekki verið gerðar, væri rekstur togaranna dæmdur algerlega úr leik hér á landi, með þeim erfiðleikum, sem að honum steðja á öðrum sviðum.

Í dag er svo komið málum hjá togaraútgerðinni, að hvert skip verður að hafa a. m. k. 30% fleira fólk til þess að stunda sams konar veiðar á sams konar skipum og á sömu veiðisvæðum og samkeppnisþjóðir vorar sækja á. Hér skal ekkert rætt um það, hvort þær reglur, sem um þetta hafa verið settar, séu viturlegar eða ekki. En hitt er ljóst, að hvorki verður þeim breytt né að harma eigi það, að þeim hafi verið komið á, ef unnt er að finna leið, sem getur bætt upp það tap, sem talið er að hér hafi á orðið við að taka þá reglu upp, en það verður ekki gert nema með bættri tækni.

Með þeim aðferðum, sem nú eru þekktar og viðhafðar í sambandi við togveiðar, verður ekki komizt hjá því að hafa ákveðinn lágmarksfjölda manna til þess að inna þau störf af hendi. Þoli atvinnugreinin ekki þau útgjöld, sem því eru samfara að greiða þeim fjölda manna laun, sem skapa þeim viðunandi lífskjör, ber fyrst af öllu að rannsaka, hvaða tæknilegar umbætur er mögulegt að gera til þess að geta látið vélar afkasta einhverjum hluta starfsins í stað handa og fækka þannig tölu þeirra, sem við það verk verða að vinna nú.

Þessi aðferð hefur alls staðar verið ráðandi, þar sem vinnuaflið er meginútgjaldaliður í framleiðslu, og með þessari aðferð hefur verið unnt að bæta kjör þeirra, sem við framleiðslu vinna, meira en áður var. Er þar skýrasta dæmi um tækniþróun í bifreiðaiðnaði, en án hennar mundi sá iðnaður verða að fullu dæmdur úr leik, og með því að einn langstærsti útgjaldaliður útgerðarinnar er launagreiðslur, ber fyrst og fremst að athuga, hvaða tæknilegum umbótum verði komið á á þessum sviðum, sem verulega gætu dregið úr þeim kostnaði án þess að þrengja kjör þeirra, sem við útveginn starfa. Tæknilegar umbætur koma að sjálfsögðu engu að síður til greina í sambandi við alla vinnu, sem framkvæmd er í landi við aflann eða við skipin sjálf, svo sem í sambandi við allt það, er snertir störf og skipulag í fiskiðjuverum, losun afla, flutning á honum á milli stöðva, viðhald skipa og margt annað, sem hefur bein áhrif á afkomu útvegsins. Í þessu sambandi má benda á, að verið er að taka upp nýjar aðferðir í hraðfrystihúsunum á flökun með vélum, sem talið er að muni hafa í för með sér mikinn sparnað á vinnuafli, og verður útvegurinn að sjálfsögðu að hagnýta allar slíkar umbætur til hins ýtrasta og skipuleggja málið þannig, að þær komi útgerðinni fyrst og fremst til góða.

Samfara því að geta notfært sér tækniþróunina til þess að draga úr kostnaðarliðum útgerðarinnar, svo sem ég hef hér minnzt á, þarf engu siður að notfæra sér hana til þess að nýta aflann sem bezt og gera hann sem allra verðmætastan. Gleypiveiði, svo sem hún hefur verið stunduð hér um langt árabil og sýnist ekki fara minnkandi, ef tækifærin bjóðast, er engan veginn framtíðaraðferðin í útvegsmálunum og hefur raunverulega staðið allt of langan tíma. Það verður að leggja höfuðáherzlu á, að það magn, sem veiðist á hverjum tíma, hvort sem það er mikið eða lítið, verði gert að sem verðmætastri vöru, en á þessu hefur verið og er mikill misbrestur.

Sú tíð er löngu liðin og heyrir til gamla tímanum, að hægt sé sér að skaðlausu að hirða aðeins kjarnann úr veiðinni eða láta sér í léttu rúmi liggja, hvernig farið er með aflann. Fiskur þarf engu síður hárnákvæma og góða meðferð en kjöt, og það er frumskilyrði fyrir því, að unnt sé að ná hæsta verði og öruggustum markaði, að vanda sem allra bezt meðferð hans, frá því að hann kemur úr sjó og þar til hann kemst á borð neytendanna, hvar sem er í veröldinni. Og hér eins og víðast annars staðar er það sú meðferð, sem varan fær í byrjun, sem mest veltur á. Allar tæknilegar umbætur á þessu sviði, og þeirra er á flestum sviðum mikil þörf, mundu gera framleiðsluna verðmeiri, ryðja henni braut til betri og öruggari markaða og bæta hag útvegsins, og hér er um svo stórt atriði að ræða, að það eitt gæti verið þungt lóð á vogarskálunum. Sama má segja um hagnýtingu þess hluta aflans, sem enn í dag er of lítill sómi sýndur, þar sem þúsundum smálesta er fleygt af verðmætum, beinlínis vegna þess að ekki hefur verið sýnd nægileg þolinmæði í því að glíma við erfiðleikana og yfirvinna þá, svo að einnig þessi hluti aflans gæfi útgerðinni verulega auknar tekjur.

Eftir þeim upplýsingum, sem fyrir hendi eru, er veiðarfæraeyðsla útvegsins ekki einasta orðin svo uggvænleg, að nauðsynlegt er að rannsaka, hvaða umbætur séu mögulegar á því sviði, heldur hefur og notkun einstakra tegunda veiðarfæra haft það í för með sér, að verðmæti þess afla, sem með þeim er aflað, er stórum minna vegna þess, hve aflinn skemmist og illgerlegt er að framleiða úr honum frambærilega vöru til manneldis. Er sýnilegt, að hér verður að leita einhverra bragða til þess að koma þessu atriði í betra horf.

Þegar litið er yfir rekstrarútgjöld bátaútvegsins, sést, að langstærsti útgjaldaliðurinn að undanskildum laununum er beitan. Nemur sá liður hvorki meira né minna en sjöunda hluta af öllum tekjum bátsins, eða nærri 100 þús. kr. á 60 smálesta bát. Hér er um svo stóra upphæð að ræða, að það sýnist furða, að ekki skuli hafa verið gerð sameiginleg átök til þess að finna einhverja leið, sem lækkað geti verulega þennan útgjaldakostnað, og það sama má segja raunverulega um annan stærsta útgjaldalið, viðhald véla og skipa. Hann gefur fullt tilefni til þess, að hafizt sé handa um tæknilegar umbætur á því sviði. Hinar tíðu endurnýjanir vélanna í fiskibátum og enn tíðari bilanir þeirra á hafi úti gefa fullt tilefni til þessarar rannsóknar, því að annaðhvort er hér um að ræða of litla tæknilega þekkingu þeirra manna, sem með þær fara, og þá er að gera tilraun til þess að bæta úr því, eða hér er ekki valinn sá vélakostur, sem hentar því verki, sem hann á að inna af hendi.

Ég hef hér stiklað á nokkrum hinna veigameiri atriða í sambandi við nauðsynlegar athuganir á tæknilegum umbótum í rekstri útvegsins og skal því nú snúa mér nokkuð að þeim hluta þáltill., sem snertir viðskiptalegar umbætur í rekstri útgerðarinnar og þá rannsókn, sem nauðsynlegt er að gera á þeim þætti hennar.

Meðan sjávarútvegurinn naut engrar aðstoðar frá því opinbera, þótti sá útgerðaraðili bezt settur, sem minnst þurfti að sækja til annarra. Það þótti þá raunverulega höfuðnauðsyn, að saman gæti farið öflun hráefna og verkun þess öll og helzt, ef mögulegt var, að tengja við útgerðina viðgerðir og verzlun, eftir því sem frekast væru tök á. Sú útgerð, sem sjálf átti fiskverkunarstöð, veiðarfæragerð og önnur iðnaðarfyrirtæki, flutningstæki, verzlun og annað, sem beinlínis var nauðsynlegt fyrir reksturinn, þótti miklu betur sett en hin, sem varð að vera upp á aðra komin með öll þessi viðskipti. Síðar varð á þessu allmikil breyting, þannig að verkaskiptingin verður miklu meiri en áður var. Nú eru þeir útgerðarmenn í miklum minni hluta, sem sjálfir eru einráðir um aflann, frá því að hann kemur úr sjó og þar til hann er kominn á borð neytendanna, og enn færri, sem samtímis hafa yfir að ráða iðnaðarfyrirtækjum eða verzlunarfyrirtækjum, sem útgerðin verður að eiga viðskipti sín við.

Hvað bátaútveginn snertir, er fjárhagsafkoma hans komin undir því, hvað hann fær fyrir aflann kominn að landi og hvað hann verður að greiða fyrir útgerðarvörur og almenna þjónustu á viðskiptamarkaðnum, og sama má segja að gildi um togaraútgerðina. Verðið á bátafiskinum hefur síðan verið ákveðið með hliðsjón af þessu, og fiskiðjuverin, hvort sem um hefur verið að ræða hraðfrystihús, skreiðargerð, saltfisksverkun, lýsisgerð, mjölverksmiðjur eða aðrar greinar fiskiðnaðarins, hafa síðan fengið uppbætur eftir ákveðnum reglum til þess að geta keypt fiskinn á því verði, sem talið var á hverjum tíma að nægja mundi bátum með meðalafla án rekstrarhalla.

Meðan slíku kerfi er við haldið og það í vaxandi mæli kallar á aðstoð hins opinbera, er óhjákvæmilegt, að krufinn verði til mergjar allur rekstur þeirra, sem slíkrar aðstoðar njóta, svo að ræða megi opið fyrir eyrum alls almennings, hvaða umbótum helzt verði við komið bæði á tæknilegum og viðskiptalegum sviðum. Hér er ekki um að ræða neina hnýsni í verk óviðkomandi aðila, ekki að ræða um neina tortryggni, heldur er hér um að ræða beina afleiðingu af því, að viðkomandi aðilar hafa ekki getað skipulagt rekstur sinn án aðstoðar þess opinbera. Það á því ekki einasta kröfu á því að fá upplýst allt það, sem rekstrinum viðkemur, heldur ber því beinlínis skylda til þess, ef mögulegt er að koma þar við einhverjum umbótum.

Þótt flest eða öll þessara fyrirtækja séu sjálfstæðir viðskiptaaðilar, þá eru þó mjög margir útgerðarmenn meðeigendur í þeim, og hver er þá arður þeirra af þeim eignarhluta? Í þeim tveimur áætlunum, sem fyrir liggja um útgerðarkostnað 60 smálesta báta á yfirstandandi vertíð við Faxaflóa, er ekki gert ráð fyrir tekjum af slíkri eign. En ef slík fyrirtæki, hvort sem um er að ræða, að þau eru rekin í samlagsformi eða undir öðru félagsformi, safna gróða, ber að sjálfsögðu að reikna hann útgerðinni til tekna, og það eins fyrir það þótt honum sé varið til fjárfestingar í viðkomandi fyrirtæki, því að þá kemur hann þar fram sem eignaaukning. Einnig þessa hlið viðskiptamála útgerðarinnar ber að athuga, meðan hún þarf á opinberri aðstoð að halda. Þegar litið er yfir rekstrarreikninga þeirra útgerðaraðila, sem enn starfrækja ýmiss konar iðju, sést mjög glöggt, að arður af þeim rekstri ber að verulegu leyti uppi tapið á veiðunum, en það bendir aftur til þess, að leggja verði höfuðáherzlu á að tengja svo saman sem frekast er unnt veiðarnar og vinnslu aflans, og þarf þá að athuga jafnframt, hvaða leiðir eru færastar að því marki.

Eitt af því, sem sætt hefur einna mestri gagnrýni í rekstri útgerðarinnar, er olíuverðið. Hefur því hvað eftir annað verið haldið fram, að hér sé um að ræða mjög óeðlilegan milliliðagróða. Nú vill svo til, að margir útgerðarmenn hafa komið sér upp olíusamlögum. Er því nauðsynlegt að fá upplýst, hvort olíuverð þeirra útgerðarmanna, sem í þeim eru, er hagstæðara en hinna, sem viðskipti hafa á hinum almenna markaði, og ef svo er, hver sá verðmunur er og hvort með honum er reiknað, þegar ákveðin er aðstoð til útvegsins. Sé hér eða á öðrum viðskiptasviðum um verulegar upphæðir að ræða, sem ekki er reiknað með, þegar styrkurinn er ákveðinn hverju sinni, ber ekki einasta að taka það til greina, heldur að vinna að því, að útgerðarmenn geti almennt notið slíkra fríðinda.

Eins og ég hef hér bent á, er mál þetta allt mjög margþætt. Það er því ærið verkefni að vinna úr og engin ástæða til að ætla, ef gengið er að því að vinna vel og samvizkusamlega úr þeim gögnum öllum, að þá verði ekki mikill og góður árangur af þeirri rannsókn, sem hér er ætlazt til að fram sé látin fara. Það er að sjálfsögðu höfuðatriði, að n. leiti samvinnu við samtök allra þeirra aðila, sem hér eiga hlut að máli. Hér eiga allir hagsmuna að gæta, launþegar, atvinnurekendur og ríkissjóður. Nefndin þarf og aðstoðar margvíslegra sérfræðinga, bæði til þess að athuga málin og til þess að gera tillögur til umbóta á hinum mismunandi sviðum. Við flm. viljum vænta þess, að hv. Alþ. fallist á, hve nauðsynlegt það er, að slík athugun fari fram sem þáltill. kveður á um, og að þáltill. verði samþ. hér á þessu þingi og hæstv. ríkisstj. láti eftir þá samþykkt fara fram rannsókn á málinu, svo sem fyrirskipað er í till. Enn fremur væntum við, að sú n., sem falið verður þetta verkefni, neyti allra afla til þess að fá það rannsakað svo sem mögulegt er og að verkinu verði flýtt eftir því, sem ástæður leyfa.

Að lokinni þessari umr. leyfi ég mér að leggja til við hæstv. forseta, að málinu sé vísað til síðari umr. og til hv. fjvn.