27.03.1956
Sameinað þing: 51. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í D-deild Alþingistíðinda. (2368)

174. mál, lágmarksaldur barna við sjómennsku

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Það eru hér þrjár till. til þál. á dagskrá í röð, og ég vildi leyfa mér að spyrja hæstv. forseta, hvort ég mætti minnast á þær allar í einu til þess að flýta fyrir. Það er till. til þál. um fullgildingu á alþjóðasamþykkt um lágmarksaldur barna við sjómennsku, það er till. til þál. um fullgildingu á alþjóðasamþykkt um félagafrelsi landbúnaðarverkafólks og loks till. til þál. um fullgildingu á alþjóðasamþykkt um lágmarksaldur kyndara og kolamokara.

Eins og hv. alþingismönnum er kunnugt, erum við í alþjóðasamtökum um þessi mál, og það er talið svo af þeirri n., sem starfandi hefur verið á vegum félmrn. nú að undanförnu til þess að athuga, hvaða þættir það væru, sem við gætum fullgilt á þessu sviði, að þessar þrjár till. til þál. séu algerlega í samræmi við þau lög, sem hér gilda. Það var dálítill vafi á því á tímabili, hvort till. um fullgildingu á alþjóðasamþykkt um lágmarksaldur barna við sjómennsku, eins og hún liggur hér fyrir, væri í samræmi við íslenzk lög, en það er búið nú að athuga það, og það er svo, að lágmarksaldur barna er þar ákveðinn í íslenzkum lögum 15 ár. Og án þess að fara að ræða hér um þessar einstöku þáltill., þætti mér vænt um, ef hið háa Alþingi sæi sér fært að afgreiða þær nú, eins og þetta liggur fyrir. Það hafa ekki komið fram aðrar aths. en þessi, og varð það til þess, að það var frestað að taka þær fyrir hér á fundi fyrir nokkrum dögum. En ég held, að það sé alveg öruggt, að þetta er algerlega í samræmi við lög, sem hér gilda. Ég vildi því leyfa mér að leggja til, að þessar þrjár þáltill. fengju að ganga nefndalaust í gegnum hið háa Alþingi.