18.11.1955
Sameinað þing: 15. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í D-deild Alþingistíðinda. (2389)

79. mál, milliliðagróði

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Það er öllum Íslendingum kunnugt, að höfuðframleiðsluatvinnuvegir þjóðarinnar eiga nú við mikla erfiðleika að etja. Framleiðslukostnaður hefur undanfarið hækkað svo mjög, að jafnvel stórvirkustu framleiðslutæki landsmanna eru nú rekin með halla. Togaraútgerðin hefur af þessum sökum þurft að fá ríkisstyrk, en ríkið síðan orðið að afla sér tekna til þess að standa undir slíkum styrk með háum tollum á samgöngutæki landsmanna. Enn fremur hefur vélbátaútvegurinn orðið að fá gjaldeyrisfríðindi, sem síðan hafa komið fram í hækkuðu verðlagi á allmörgum vörum.

Þrátt fyrir það að útflutningsframleiðsla þjóðarinnar hafi þannig þurft á sérstakri aðstoð að halda, ríkisstyrkjum og gjaldeyrisfríðindum, þá verður þó engan veginn þannig á litið, að þær séu orðnar ómagar á þjóðinni.

Það er öllum landslýð ljóst, að öll afkoma þjóðarinnar byggist fyrst og fremst á þessum atvinnugreinum. Þjóðin lifir á þeim arði, sem útflutningsframleiðslan skapar. Allar nauðsynjar þjóðarinnar, sem inn eru fluttar, eru keyptar fyrir þann gjaldeyri, sem þessir atvinnuvegir afla.

Menn greinir nokkuð á um það, hver sé meginástæða þess, að svo er komið, að aðalbjargræðisvegir þjóðarinnar bera sig ekki, en eru þvert á móti reknir með miklum og vaxandi halla. Um það verður þó naumast deilt, að ástæðan er í stórum dráttum fyrst og fremst sú, að þjóðin hefur gert of miklar kröfur á hendur framleiðslu sinni. Hún hefur miðað eyðslu sína við meiri arð en þessir bjargræðisvegir í raun og veru gefa.

Því er einnig mjög haldið fram, að ein meginástæðan fyrir hinni lélegu afkomu útflutningsframleiðslunnar sé óhóflegur gróði ýmiss konar milliliða, þarfra og óþarfra. Þessir svokölluðu milliliðir mergsjúgi framleiðsluna á ýmsa lund og raki saman stórkostlegum gróða á hennar kostnað og þar með almennings í landinu.

Um það ætti naumast að ríkja ágreiningur, að mjög brýna nauðsyn ber til þess að fá úr því skorið, hvernig þessu sé varið, hvort þetta sé í raun og veru þannig, að landsmenn þurfi að leggja á háa tolla og skatta til þess að styrkja atvinnuvegi, sem þannig séu leiknir af óþörfum eða þörfum milliliðum. Meginástæða þess, að menn ættu að geta verið sammála um þetta, er sú, að ef það sannast, að óþarfir milliliðir leiki framleiðsluna þannig, þá hlýtur hiklaust að verða að koma í veg fyrir slíka fjárplógsstarfsemi, sem væri þá vottur þess, að þjóðfélagið væri sjúkt og að landsmenn sýndu linkind gagnvart þeim sjúkdómi, færu ekki með hann til læknis, heldur létu hann halda áfram að grafa um sig.

Með till. þeirri, sem hér liggur fyrir og flutt er af okkur sex þm. Sjálfstfl. um rannsókn á milliliðagróða, er lagt til, að sérfróðum mönnum verði falið að rannsaka þátt milliliða í framleiðslukostnaði þjóðarinnar til lands og sjávar, þannig að úr því fáist skorið, hvort hann sé óhóflega mikill eða hlutfallslega hærri en í nálægum löndum. Er ætlazt til þess af tillögumönnum, að nákvæmra upplýsinga verði aflað um hliðstæðan milliliðakostnað í nálægum löndum, svo sem á Norðurlöndum, í Þýzkalandi, Bretlandi, Frakklandi og fleiri löndum, sem ástæða þætti til að leita til um upplýsingar um þessi efni. Jafnframt yrði þá birt skýrsla um þær upplýsingar, sem fengjust frá þessum löndum um, hvernig þessu væri þar varið, og nákvæmur samanburður fenginn þar með á ástandinu í þessum efnum hjá okkur og þeim þjóðum, sem okkur eru nálægastar og skyldastar.

Það er til þess ætlazt af hálfu okkar tillögumanna, að þessi rannsókn verði eins víðtæk og frekast er kostur, framleiðslukostnaðurinn verði krufinn til mergjar, ekki aðeins hjá útflutningsframleiðslunni, sjávarútveginum, heldur og hjá landbúnaðinum, og rannsakaður t. d. dreifingarkostnaður á landbúnaðarvörum, þannig að það komi í ljós, hve ríkur þáttur milliliðanna er í verðlagi þeirra nauðsynja, sem þjóðin framleiðir sjálf. Einnig kemur fyllilega til greina, að hliðstæðar athuganir verði gerðar á framleiðslukostnaði og verðlagi hjá innlendum iðnaði.

Í þessu sambandi vil ég aðeins minnast á það, að hjá flm. till. kom það til tals, hvort skynsamlegra væri ef til vill að flytja till. um skipun sérstakrar rannsóknarnefndar samkv. 39. gr. stjórnarskrárinnar, þ. e. a. s. nefndar svipaðrar þeirri, sem kosin var á s. l. hv. Alþingi af hv. neðri deild til þess að rannsaka okurstarfsemi í landinu. Það, að við hurfum frá því að flytja tillögu um slíka rannsóknarnefnd, spratt fyrst og fremst af því, að við töldum mjög hæpið, að þingmenn hefðu tíma til þess að vinna það mjög svo yfirgripsmikla starf, sem þessari n. er ætlað. Enn fremur töldum við vafasamt, að nægilega sérfróðir menn fyndust í hópi þingmanna til þess að vinna þetta verk. Hér á hv. Alþ. á að vísu sæti, að ég hygg, einn hagfræðimenntaður maður, og í einum flokki, en aðrir flokkar hafa ekki á að skipa mönnum með slíka menntun. Við töldum sem sagt, að meiri líkur væru til þess, að í nefndina fengjust sérfróðir menn á sviði efnahagsmála, með því að n. væri ekki sett niður sem rannsóknarnefnd samkv. 39. gr. stjórnarskrárinnar, en í slíkum nefndum geta þingmenn einir átt sæti. Annars vil ég taka það fram, að flutningsmenn till. eru fyllilega til viðræðu við aðra hv. þm. um það, hvernig n. skuli skipuð. Ef menn koma með skynsamlegar ábendingar um það, að hún verði betur skipuð, þannig að hún geti unnið starf sitt við betri aðstöðu með öðrum hætti, þá mun ekki standa á okkur flm. að ræða það mál við þá, sem slíkar ábendingar setja fram. En ég taldi rétt að benda á þetta atriði, hvers vegna við hefðum ekki flutt till. sem tillögu um sérstaka rannsóknarnefnd samkv. 39. gr. stjórnarskrárinnar.

Það virðist mjög eðlilegt, að þeir, sem þessa rannsókn framkvæma samkv. þeirri till., sem hér liggur fyrir, leiti samvinnu við samtök framleiðenda í starfi sínu. Framleiðslan og atvinnureksturinn í landinu á ekki hvað sízt mikið undir því komið, að sannleikurinn fáist lagður á borðið í þessum efnum. Útflutningsframleiðslan stynur undan hallarekstri, eins og ég sagði áðan. Það er ótrúlegt, að hún vilji láta nokkurs ófreistað í því að láta rannsaka það, af hverju hennar bága afkoma spretti. Mér hafði komið til hugar, að Landssamband íslenzkra útvegsmanna, Sölusamband íslenzkra fiskframleiðenda, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og Samband íslenzkra samvinnufélaga, sem einnig stendur að útflutningi hraðfrysts fisks í stórum mæli, hefðu samband og samvinnu við þá nefnd, sem skipuð yrði til þess að vinna þetta verk. Enn fremur væri mjög æskilegt, að n. hefði samvinnu við heildarsamtök launþeganna í landinu, en þau samtök eru, eins og kunnugt er, tvenn, Alþýðusamband Íslands og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja.

Það væri æskilegt, ef því yrði við komið, að einhver fulltrúi, sem tengdur væri þessum samtökum sem traustustum böndum, ætti sæti í þessari nefnd, og það er til athugunar fyrir þá flokka, sem telja sig mest í forsvari og tengdasta þeim samtökum, sem hér um ræðir, að kjósa slíkan mann eða menn í nefndina sem sína fulltrúa.

Loks er það ætlun okkar flutningsmanna þessarar till., að að lokinni rannsókn verði gerðar tillögur um það, hvernig unnt sé að lækka milliliðakostnaðinn og létta framleiðslunni þannig róðurinn. Ef það kemur í ljós, að hér sé um óhóflegan gróða milliliða að ræða, þá hlýtur afleiðingin af þeirri vitneskju að verða sú, að tillögur verði gerðar til úrbóta. Slíkar tillögur á og verður að gera.

Við væntum þess, að þessari rannsókn verði hraðað eftir föngum. Þess vegna leggjum við til, að henni skuli lokið og álitsgerð skuli liggja fyrir, er næsta reglulegt Alþ. kemur saman, þ. e. a. s. væntanlega í október n. k. Hér er vissulega um það mikið verk að ræða, að þess er varla að vænta, að þeir menn, sem það verður fengið, hafi lokið því miklu fyrr. Þessi rannsókn er gagnslaus, ef hún verður ekki ýtarleg, eins ýtarleg og frekast er kostur.

Það er skoðun okkar flm. þessarar till., að hér sé um mjög þýðingarmikið mál að ræða, sem varði þjóðina alla. Því hefur verið haldið þráfaldlega fram undanfarin ár, að milliliðakostnaðurinn væri eitt mesta böl íslenzks efnahagslífs. Engu að síður hefur verið látið við svo búið standa. Það hafa ekki verið fluttar till. hér á hv. Alþ. um að láta hliðstæða rannsókn þeirri, sem hér er lagt til að gerð verði, fara fram. Það hefur verið látið við það eitt sitja að fjölyrða um það, hvílíkur bölvaldur milliliðirnir væru, en engar raunhæfar ráðstafanir gerðar til þess að fá spilin lögð á borðið og málið krufið til mergjar.

Það, sem fyrir okkur flm. þessarar till. vakir, er fyrst og fremst það, að þjóðin fái að vita sannleikann í þessum efnum. Það er áreiðanlega mjög þýðingarmikið fyrir íslenzkt efnahagslíf og fyrir afkomu þjóðarinnar í heild, að hún gangi einskis dulin um efnahagsmál sín. Það er frumskilyrði þess, að hún viti, hvar skórinn kreppir að, hvar umbóta er þörf, hvar er þörf á því að kreista kýlin.

Við, sem þessa till. flytjum, viljum ganga hiklaust til verks, þannig að þjóðin viti, hvar hún er á vegi stödd í þessum efnum.

Að lokum vil ég láta þá von í ljós fyrir hönd okkar flm., okkar flokks og væntanlega allra hv. þingmanna, að sem beztur árangur og raunhæfastur megi nást af þeirri rannsókn, sem gert er ráð fyrir í þeirri till., sem hér liggur fyrir. Við væntum þess einnig, að góð samvinna geti tekizt milli hinna andstæðu flokka, sem eiga fulltrúa hér á Alþingi, um það, að þessi rannsókn megi fara fram.

Ég leyfi mér svo að óska þess, að till. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. allshn.