18.11.1955
Sameinað þing: 15. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í D-deild Alþingistíðinda. (2393)

79. mál, milliliðagróði

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Mér virtist hv. 1. landsk. tala mjög skynsamlega um þessa till., sem hér liggur frammi, og talsvert í öðrum tón en ýmsir samherjar hans og bandamenn hafa gert, síðan till. kom fram. Tel ég þetta honum til vegs, að líta víðsýnni augum á þetta mál en ýmsir aðrir hafa gert í hans flokki. Hann ræddi um það, að nauðsynlegt væri, að nefndin gæti heimtað skýrslur af mönnum, sbr. þá nefnd, sem skipuð var í fyrra til rannsóknar á okri og þetta vald var gefið. Ég tel, að í fyrsta lagi sé þetta ekki nauðsynlegt, og í öðru lagi tel ég tilgangslítið að gefa slíkri þingnefnd það vald, því að það hefur sýnt sig við störf umræddrar nefndar, að þetta vald er tiltölulega lítils virði. Þeir, sem ekki vilja gefa nefndinni skýrslur, sleppa við að gefa skýrslurnar, vegna þess að nefndirnar fara ekki að draga mennina fyrir lög og dóm til þess að fá hjá þeim skýrslu, sem oft og tíðum getur verið vafasöm og lítið upp úr að hafa. Þess vegna álít ég, að ekki eigi að binda störf þessarar nefndar í því formi, heldur að það eigi að vera frjálst, og ég tel alveg vafalaust, að þessi nefnd geti fengið allar þær upplýsingar, sem hún óskar eftir og þarf á að halda, eftir frjálsri leið, ef svo mætti segja.

Hv. 1. landsk. gat um 10 ára gamla skýrslu í ræðu sinni, skýrslu, sem samin var af nokkrum hagfræðingum um verðlag í landinu á þeim tíma. Það er að vísu ekki mikið á því að græða að hlusta á slíkar tölur eins og þær, sem hann las upp, og hefði hv. þm. átt að gefa upplýsingar um fleiri liði í því, sem hann las upp, heldur en niðurstöðutölurnar eingöngu. En það vill oft verða svo, þegar menn tala fyrir sinum pólitísku áhugamálum, að þeir kæra sig ekki um að láta tölurnar koma fram í sem beztu ljósi. Það er sýnilegt, að þær eru ekki settar fram í sem beztu ljósi fyrir verzlunina, þegar sagt er, að verzlunarkostnaðurinn sé meiri en innkaupsverð vörunnar frítt um borð. Ég er ekki að rengja niðurstöðu skýrslunnar, en þetta sýnir í sjálfu sér ekki rétta mynd, en gefur aftur á móti mönnum hugmynd um, að þeir aðilar í landinu, sem dreifa vörunni, eigi sök á öllum þessum mikla kostnaði. Vitanlega eiga þeir alls ekki sök á kostnaðinum eins og þessar tölur segja til, enda getur hver maður sagt sér það sjálfur.

Hv. þm. minntist einnig á vinnslu- og dreifingarkostnað kjöts og mjólkurafurða. Það er alveg rétt, dreifingarkostnaður á þessum vörum er hár, og manni finnst, að svo sé, þegar gefið er upp, hversu mikið bændurnir bera úr býtum. En þess verðum við að gæta í þessu sambandi, að það eru bændurnir sjálfir og þeirra samtök, sem sjá um dreifinguna. Þeir sjá sjálfir um dreifinguna, og þó að neytendurnir borgi söluverðið, er það þó bændunum sjálfum í hag að hafa dreifingarkostnaðinn sem minnstan, enda mundu þeir þá bera meira úr býtum. Það er auðvelt að gagnrýna svona hluti. Ég býst þó við, að samtök bændanna séu búin að gera allt, sem í þeirra valdi stendur til þess að fá lækkaðan hinn mikla dreifingarkostnað, án þess þó að hafa komið honum lægra en raun sýnir.

Það er yfirleitt auðveldara að gagnrýna svona hluti en að eiga að framkvæma það í veruleikanum. Það er auðvelt fyrir fimm hagfræðinga að koma með niðurstöðutölur og segja: Þessi rekstur er óhagkvæmur, þessi dreifingarkostnaður er óhæfilega hár — án þess að koma með nokkrar ábendingar um það, hvar eigi að stinga niður, hvað eigi að lækka og hvað sé hægt að lækka til þess að minnka dreifingarkostnaðinn. En það er hlutverk slíkra nefnda sem þessarar. Um leið og þær komast að þeirri niðurstöðu, að dreifingarkostnaðurinn sé of hár, þá eiga þær að koma með tillögur um það, hvar eigi að bæta úr og hvað eigi að fella niður af þeim kostnaði, sem um er að ræða.

Ég er sammála hv. 1. landsk. um það, að mikil nauðsyn er að láta þessa rannsókn fara fram, fyrst og fremst til þess að gera sér grein fyrir, að ekki sé óhóf í þessum málum, í öðru lagi, ef hér er ekki um neitt óhóf að ræða, þá sé kveðinn niður sá rógur, sem nú heyrist svo að segja daglega í ræðu og riti, að milliliðagróðinn í landinu sé óhæfilegur. En það er einkennilegt, hvað framkoma þessarar till. hefur komið illa við suma af þeim mönnum, sem aldrei þreytast á að staglast á hinum óhemjulega milliliðagróða. Það er eins og þeir séu eitthvað hræddir um það, að rannsókn málsins, upplýsingar í málinu muni fletta ofan af fullyrðingum þeirra og svipta þá þessu rógsvopni, sem þeir nota dagsdaglega og telja sjálfsagt að bíti vel á andstæðingana. En þegar svo slík till. sem þessi kemur fram, þá snúast þeir öfugir við. Þeir vilja enga rannsókn láta fara fram vegna þess, að þeir vilja ekki láta upplýsa, hvort fullyrðingar þeirra eru sannar eða rangar. Ég er ekki hissa á þessu, því að ef slík n. sem þessi ynni vel sitt starf, sem ég vænti að þessi væntanlega n. geri, þá býst ég ekki við, að hátt verði risið á þessum mönnum um það leyti sem nefndin skilar áliti sínu.

Ég tók eftir því, að hv. 8. landsk. talaði með fyrirlitningarsvip og hæðnisróm um það, sem hæstv. dómsmrh. hafði minnzt á á fundi hér fyrir skömmu og hann nefndi milliliðalaust þjóðfélag. Það var eins og þessum hv. þm. hefði fundizt það eitthvað einkennilegt, að ekki væri hægt að hafa milliliðalaust þjóðfélag á Íslandi. Ég hygg, að það sé nú ekki nema um tvennt að ræða, sem gæti uppfyllt þessar óskir hv. þm., annaðhvort það, að við tækjum upp sovétskipulagið, þar sem lítið er af milliliðum, eða við tækjum upp það fyrirkomulag, sem við höfðum áður en milliliðir fóru að starfa í landinu, en það var þegar bóndinn seldi afurðir sínar beint til einokunarkaupmannsins og sjómaðurinn fór með fiskinn sinn til sama kaupmanns. (Gripið fram. í: Voru Danir ekki milliliðir?) Ég veit ekki, hvert hv. þingmenn komast, ef þeir ætla sér að vera í alveg milliliðalausu þjóðfélagi, og ég hygg, að margt mundi verða einkennilegt hér, ef við ættum að afnema ýmsa milliliði, sem eru einhverjir þörfustu aðilarnir í þjóðfélaginu, og skal ég þá minna til dæmis á skipafélög, banka, tryggingarfélög og mjólkursamsölu. Þetta vilja hv. þingmenn vafalaust allt afnema. En þeim fannst ég tala heldur fávíslega, þegar ég gat þess ekki, að einokunarkaupmennirnir væru milliliðir. En ég held, ef þeir ætla sér að taka upp milliliðalaust þjóðfélag í gömlum stíl, þá yrðu þeir að halda þessum milliliðum, þótt óvinsælir hafi verið. Það er eins og sumir hv. þingmenn haldi, að þeir geti talað yfir þingheimi með rökum eins og hv. 8. landsk. án þess að verða sér til minnkunar.

Það var eitt atriði enn, sem hv. 8. landsk. minntist á, og það var er hann talaði um afnám hámarksverðsins, m. a. á útvegsvörum. Og hann sagði, að afnám hámarksverðsins á þessum vörum skapaði hærra og hærra verðlag. Nú veit ég ekki, hvað hv. þm. á við með þessu. En ef þetta er af hreinni fáfræði fram sett, skal ég gjarnan upplýsa, að útvegsmenn yfirleitt geta sjálfir pantað sínar vörur frá erlendum framleiðendum og sætt þar með lægsta verði, sem hægt er að kaupa á erlendis frá. Í öðru lagi hafa útvegsmenn, eins og kunnugt er, mjög mikil samtök um innkaup á veiðarfærum og öðrum útvegsvörum, og í gegnum þessi innkaup útvegsmanna sjálfra fer mest af innflutningi á veiðarfærum til landsins.

Ég vil nú spyrja hv. 8. landsk. þm., hvort það sé líklegt, að þau veiðarfæri, sem útvegsmenn kaupa inn sjálfir, hækki og hækki í verði eingöngu vegna þess, að það eru engin hámarksákvæði á verðlaginu. Dettur nokkrum manni í hug, að sú stétt, sem notar þessar vörur og kaupir þær inn sjálf, fari að leggja á vöruna hærra og hærra verð, aðeins til þess að borga í eigin vasa?

Þetta er eins og margt annað, sem þessir hv. þm. slá fram til þess að reyna að sanna fullyrðingar sínar, sem enginn fótur er fyrir. Þess vegna er þeim líka illa við, að slík nefnd sem sú, sem hér er lagt til að verði sett á laggirnar, gæti upplýst eitthvað um þessi mál og sýnt fram á ekki einungis óheilindin, heldur líka fáfræðina í málafærslu þeirra.