23.11.1955
Sameinað þing: 17. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í D-deild Alþingistíðinda. (2397)

79. mál, milliliðagróði

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég held ég verði að byrja með því að leiðrétta ofur lítið, sem kom fram í ræðu hv. þm. N-Ísf. viðvíkjandi því, hvernig fiskhringurinn hefði verið stofnaður, hvernig Sölusamband íslenzkra fiskframleiðenda hefði komizt á. Hann sagði, að það hefði verið stjórn Alþfl. og Framsóknar, sem hefði stofnað þann hring, en svo var ekki. Ég held, að ég muni það áreiðanlega rétt, af því að ég var farinn að fylgjast nokkuð með í þessum málum þá, en hv. þm. var þá enn ungur, að fyrstu sérréttindin, sem Sölusamband ísl. fiskframleiðenda fékk, var þegar það fékk eins konar einkasölu af hálfu ríkisins, sem því var veitt af Ólafi Thors, þáverandi atvmrh., í nóv. eða des. 1932. Þá var í fyrsta skipti með brbl. skellt á einokuninni handa Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda, og síðan hefur hún haldizt. Hitt er rétt, að eftir að Framsókn og Alþfl. mynduðu sína ríkisstj. 1934, varð nokkur deila um þetta mál. Það hafði þá verið um alllangt skeið mikil deila um fiskútflutninginn og hvort Kveldúlfur og Alliance ættu að hafa hreinan meiri hluta í Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda, eins og þau höfðu samkv. þeim atkvæðisréttarreglum, sem Ólafur Thors hafði sett, þegar lögin voru upprunalega sett. Á Alþingi því, sem sat í ársbyrjun 1935, var þessum reglum breytt. Þá voru ný lög sett, sem tryggðu það, að útvegsmenn sjálfir, en ekki þessi tvö stóru félög, hefðu meiri hlutann í Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda. Hins vegar gerðist það nokkru eftir að Alþingi setti þessi lög, eftir mjög harðar deilur við Sjálfstfl., að eftir að Alþingi var sent heim þá um vorið, voru gefin út brbl., sem breyttu þessum lögum frá Alþingi og breyttu þeim þannig, að það var tryggt, að Kveldúlfur og Alliance hefðu meiri hluta í Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda. Og ég býst við, að þeir þingmenn, sem eru mér eldri, ekki sízt ef hæstv. forsrh. væri nú mættur, gætu sagt til, hvort þetta er ekki rétt, sem ég þarna hef sagt. Hinu vil ég svo bæta við frá eigin brjósti, sem ég býst nú ekki við að hann mundi samsinna, að það hafi verið Landsbankinn, sem kúskaði ríkisstj. til að setja brbl. og breyta nýfengnum lögum frá Alþingi til þess að bjarga Kveldúlfi, sem þá skuldaði upp undir 12 millj. kr. í Landsbankanum, eða alla seðlaútgáfu landsins. Hins vegar er kannske gott að muna það með, til þess að hægt sé að skyggnast ofur lítið á bak við, hvaða öfl það eru, sem ráða því, hvernig farið er að, þegar milliliðagróði er í veði, eins og í þessu tilfelli gróðinn af því að flytja út íslenzkan fisk. Það hafði sem sé sýnt sig þá nokkru áður, að það voru nokkur átök um þetta, og það hafði meira að segja komið fyrir, að íslenzkir fiskkaupmenn buðu hærra verð fyrir íslenzkan fisk til útflutnings en þessi svokölluðu sölusambönd íslenzkra fiskframleiðenda vildu gefa. Þeir arðræningjar, sem réðu Ítalíu, vildu gefa hærra verð fyrir fiskinn en fiskhringurinn, sem tók fiskinn af fiskimönnum hér heima, og út úr því kom það, sem eldri menn líka munu muna eftir, hið svokallaða Gismondi-mál, sem var eitt af því, sem gaf mönnum dálitla innsýn í, hvernig milliliðir héldu niðri verðinu á fiskinum fyrir íslenzkum framleiðendum, högnuðust á því að komast þarna inn á milli, meira að segja með aðstoð ríkisins, og geta einokað þannig fiskútflutninginn, og skömmtuðu þannig Íslendingum að hætti einokunarkaupmannanna að fornu lægra verð fyrir fiskinn en þeir hefðu getað fengið með því að selja hann meira að segja beint til auðhringanna í viðkomandi löndum, sem fiskurinn var seldur til.

Ég leiðrétti þetta hjá hv. þm. N-Ísf. og rifja upp þessar gömlu staðreyndir, vegna þess að af sérstökum ástæðum fengum við á þessum árum allmiklu meira tækifæri til þess að skyggnast á bak við tjöldin um, hvernig salan gengur fyrir sig á fiskinum, heldur en við höfum haft upp á síðkastið. Það hafa sem sé hvað eftir annað verið heimtaðar rannsóknir, við skulum segja t. d. viðvíkjandi Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda, bæði á hneykslum þess viðvíkjandi verðinu, sem það hefur skammtað Íslendingum, og viðvíkjandi því, hvernig það selur Norðmönnum fiskinn og tekur skaðabætur af íslenzkum fiskimönnum á eftir út af slíkri sölu. En það hafa bara ekki fengizt slíkar rannsóknir fram. Og mér þykir það raunverulega slæmt, þegar þetta mál er til umræðu hér, að þeir sömu hæstv. ráðh. sem eru reiðubúnir til að tala um þessi mál utan þessarar stofnunar, eins og hæstv. forsrh. talaði í Landssambandi ísl. útvegsmanna eða hæstv. dómsmrh. við landsmálafélagið Vörð, skuli ekki vera viðlátnir hér á Alþingi til að tala við þingmenn um það, sem þingið varðar um í þessum efnum.

Að svo mæltu skal ég koma að þeirri till., sem nokkrir þm. Sjálfstfl. hafa lagt hér fram og eftir þeim umr., sem fram fóru á síðasta fundi, er auðséð að kemur til með að verða með mest ræddu málum, sem fyrir þingið hafa komið, og það ekki að tilefnislausu. Það er rétt fyrir okkur alveg frá upphafi að gera okkur ljóst, hvort við viljum kryfja þessi mál til mergjar, sem hér er stungið upp á, eða hvort við viljum hindra, að þau verði krufin til mergjar. Þessi till., sem hér er komin fram, er sem sé mjög þýðingarmikil, ef þannig er frá henni gengið, að hægt sé að framkvæma þessa rannsókn til fulls og ekki verða settar neinar hömlur á þá menn, sem falið verður að rannsaka þetta og kryfja þetta mál í eitt skipti fyrir öll þannig til mergjar, að það sé ekki hægt að standa hér upp og staðhæfa sitt á hvað, hver um sig, eftir því hvaða flokki menn tilheyra, en engin gögn liggi fyrir um, hvernig hlutirnir séu. Ef við værum í landi eins og t. d. Bandaríkjunum, mundum við til að geta rætt um svona mál fletta upp í skýrslum, þar sem liggur nákvæmlega fyrir, hvað t. d. ákveðnir auðhringar græða. Við getum flett upp General Motors, við getum séð, hvað er þar hreinn gróði. Hagskýrslurnar t. d. í Bandaríkjunum eru mjög vel sundurliðaðar hvað þetta snertir, og eftirlit með skattaframtali og slíku, þó að því sé vafalaust að einhverju leyti ábótavant, er samt svo margfalt betra en hér hjá okkur, að við getum alveg fengið heildarmynd af því, hvernig gróðamyndun fer fram í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Hér verðum við að staðhæfa á víxl, við verðum að rífast um, hvort skattaframtölin gefi rétta mynd, við verðum að rífast um, hvort meira að segja fasteignamat gefur rétta mynd, og við verðum að vera ásáttir um, að það gefi ekki rétta mynd, en hvað skakka mynd það gefur, það getum við kannske ekki alveg komið okkur saman um. M. ö. o.: Það er hreinasta forsmán, hvernig gengið er frá öllum þessum málum hér á Íslandi, þannig að í staðinn fyrir að íslenzki kapítalisminn og framleiðslustarfsemin hér heima liggi fyrir eins og opin bók efnahagslega séð, þá er þetta allt saman eins og það væri leyndardómur. Þess vegna ber því mjög að fagna, að slík till. komi fram sem þessi, ef það fást á henni þær endurbætur, sem geta tryggt, að hægt sé að rannsaka þetta mál eins og þarf að rannsaka það.

Hv. þm. N-Ísf. sagði í sinni framsöguræðu, að það væru of miklar kröfur gerðar á hendur framleiðslunni, og það er náttúrlega það þjóðfélagslega höfuðviðfangsefni, sem liggur fyrir okkur og þeim, sem kæmu til með að rannsaka þessi mál. Og þá er fyrsta spursmálið þetta: Hverjir hafa gert þessar of miklu kröfur á hendur framleiðslunni, og hverjir hafa haft aðstöðu til þess að gera svo miklar kröfur á hendur framleiðslunni og til þess að fá þeim framgengt? Og í öðru lagi verður spurningin: Hvaða aðstaða er það, sem slíkir menn eða slíkir aðilar hafa getað notað sér? Og í þriðja lagi: Hvar eru sannanirnar fyrir því, að slík aðstaða hafi verið hagnýtt, og í hve ríkum mæli hefur hún verið hagnýtt? Þessum spurningum þurfum við raunverulega að reyna að svara, þetta þurfum við að gera okkur ljóst. Staðreynd er, að framleiðslan á Íslandi skapar gífurleg verðmæti. Við stöndum framarlega í flokki þjóða hvað afköst snertir og þjóðartekjur, mjög framarlega. En hins vegar er framleiðslan rúin þannig, að það verður að halda henni uppi með styrkjum. Hún er rúin inn að skinninu og næstum því oft meira en það, þannig að það verður að hlaupa undir bagga með henni, svo að hún ekki hætti. Hvernig er um framleiðendur, verkamenn, sjómenn, bændur og aðra framleiðendur? Þeir eru rúnir inn að skinninu, þannig að núna síðustu átta árin hefur þeirra lífsafkoma ekki batnað heldur rýrnað, móts við það, sem var 1947. Á þá hefur verið sleppt lausum öllum dýrtíðardraugum, sem ríkisstj. og stjórnarflokkarnir hafa getað magnað á þá. Álagningarfrelsi hefur verið gefið. Það hefur verið gefið frjálst, hve mikla húsaleigu mætti heimta af mönnum. Hér í Reykjavík verða verkamenn að greiða þriðjung upp í helming af sínu kaupi í húsaleigu. M. ö. o.: Þeir, sem framleiða, framleiðendurnir sjálfir, verkamenn, sjómenn, bændur og aðrir þeir, sem að framleiðslunni vinna, hafa ekki gert svo miklar kröfur á hendur framleiðslunni, að hún þess vegna standi verr. Þvert á móti, þeir hafa orðið að sætta sig við það síðustu 8 árin, samtímis því sem þjóðin hefur margfaldað sín laun, að þeir beri skarðari hlut frá borði en þeir báru 1947. Við verðum þess vegna að leita fyrir okkur, hvar það er, sem of miklar kröfur eru gerðar á hendur framleiðslunni, og hverjir það eru, sem gera þær kröfur. Og ég skal nú reyna fyrir mitt leyti að setja fram svör mín við þessum spurningum, sem ég bar fram áðan, hverjir það eru, sem hafa gert þessar of miklu kröfur til framleiðslunnar, og hvaða ástæður þeir hafa haft til þess að fá þeim framgengt.

Það er þá í fyrsta lagi: Þeir, sem hafa gert of miklar kröfur til framleiðslunnar, eru auðhringarnir í innflutnings- og útflutningsverzlun, nokkrir voldugir og ríkir heildsalar, skipafélög, bankar, vátryggingafélög, húsabraskarar og fleiri stóreignamenn. M. ö. o.: Þeir, sem hafa gert of miklar kröfur til framleiðslunnar, eru þeir menn, sem í daglegu tali eru kallaðir milliliðir, og þá leggur raunverulega alþýða manna þá merkingu í orðið milliliðir, að það séu þeir menn, sem séu ekki svo vitlausir að setja fé sitt í framleiðslu og því síður svo vitlausir að vinna við framleiðsluna, heldur græði á því, sem framleitt sé, græði á vinnu þeirra, sem framleiða. Það eru þessir aðilar að mínu áliti, og að því mun ég koma síðar, sem hafa gert svo miklar kröfur á hendur framleiðslunni, að hún hefur verið rúin, rúin að öllum þeim auði, sem hún hefur skapað, og meira að segja rúin þar að auki að miklu af því, sem hún átti fyrir.

Í öðru lagi: Hvernig stendur á, að þessir aðilar hafa getað gert þessar miklu kröfur, hvaða aðstaða er það, sem þeir hafa til slíks? Því vil ég svara þannig: Aðstaðan, sem slíkir menn, milliliðirnir eins og kallað er, hafa fengið, er að hafa ríkisvaldið í sínum höndum og nota ríkisvaldið til þess að ráða því, hverjir fái arðinn, sem framleiðendurnir, þ. e. hinn vinnandi fjöldi, skapa með sinni framleiðslu. Það er þessi aðstaða að hafa ríkisvaldið í sínum höndum, sem þessir milliliðir svokölluðu hafa getað notað sér.

Og þá í þriðja lagi, svo að ég komi með þriðju staðhæfinguna í þessu sambandi: Hvar eru þá sannanirnar fyrir því, að slík aðstaða hafi verið hagnýtt? Sannanirnar fyrir því; hvort þessi staðhæfing mín sé rétt, munu fást, ef rannsakað er til hlítar, hvert auðurinn, sem skapaður hefur verið á Íslandi, þó að við tækjum ekki nema síðan eignakönnunin fór fram 1947, hefur lent. Hefur auðurinn, sem síðan hefur verið skapaður á Íslandi, t. d. lent hjá verkamönnum, hjá bændum, hjá mótorbátaeigendum, hjá togaraeigendum? Hefur hann lent hjá útgerðinni, sem hefur átt meginþáttinn í að skapa hann? Ef við t. d. létum fara fram núna eignakönnun á Íslandi og gengjum dálítið betur fram í því en 1947, — og ég býst við, að þeir, sem flytja þessa till., mundu vera fyllilega sammála því, — þá mun sýna sig, hvar auðurinn er, sem skapaður hefur verið á þessum árum. Og það er bezt að ganga alveg úr skugga um það, hvar sá auður hefur lent, hjá hverjum hann er, og leita nú vel. Það er vitanlegt, að það eru yfir 150 milljónamæringar í Reykjavík nú. Það er mikið fyrir svo litla borg. Það er vitanlegt, að 100 menn og félög hér í Reykjavík eiga í skuldlausum eignum yfir 1000 millj. kr. Það er samt sem áður svo, að engar skýrar hugmyndir fást um þessa hluti, vegna þess, hvernig búið er að viðvíkjandi skattalögum og fasteignamati, og þess vegna óhugsandi að ætla að fá nákvæmar skýrslur um þetta öðruvísi en með nýrri eignakönnun. En þessir hlutir þurfa sem sé að koma fram. Það þarf að leita að því, hvar auðurinn er, sem skapaður hefur verið, hvar auðurinn er, sem framleiðsluna vantar, til þess að hún standi undir sér, og segja, hvar hann sé. Þá sjáum við líka um leið, hverjir það eru, sem hafa fengið hann á þessum árum. Frummælandi þessa máls tók það fram, að til þess að komast að sannleikanum í þessu máli, komast fyrir þá fjárplógsstarfsemi, sem hann sagði að hér hefði verið rekin, mætti enga linkind sýna og rannsóknin, sem fram færi, yrði að vera eins víðtæk og frekast er kostur. Og eignakönnun, fullkomin eignakönnun, betri en sú, sem var 1947, er áreiðanlega eitt af því, sem verður óhjákvæmilegt til þess að komast fyrir um, hvert peningarnir renna, hvert auðurinn og arðurinn rennur, sem skapaður er á Íslandi, því að það er ekki svo lítið, sem hér er skapað.

Nú skulum við athuga ofur lítið betur þessar staðhæfingar mínar og till. flm. með hliðsjón af þeim umr., sem hérna hafa orðið. Það hefur allvíða verið komið við, og ég held, að ég verði nú að biðja um að fá að leggja orð í belg um, hvað felist í því orði, sem notað er hérna í þessari þáltill. og mikið hefur verið notað hér á mismunandi hátt, sem sé orðinu „milliliður“. Það er alltaf svo, þegar maður tekur fyrir eitthvert mál til rannsóknar, að það verður að koma sér niður á, hvað átt er við með orðunum, sem eru notuð. Og orðið „milliliður“ gefur auðsjáanlega — það heyri ég á þeim umræðum, sem fram hafa farið tilefni til ákaflega mikils hugtakaruglings í þessu máli. Það er tvennt, sem felst í orðinu „milliliður“ og ég held við þurfum að aðgreina vel, þegar við reynum að kryfja þetta mál til mergjar. Í fyrsta lagi er átt við þann — ef ég mætti segja — tæknilega millilið, sem tekur að sér að koma ákveðinni afurð frá þeim, sem framleiðir hráefnið, allt til kaupandans, mennina t. d., sem taka við fiskinum hérna heima á Íslandi, ganga frá honum hér á ýmsan hátt, koma honum um borð í skip, sjá um sölu á honum, sigla því skipi út, koma því í höfn á Ítalíu, Spáni eða annars staðar og að lokum selja hann neytandanum þar syðra. Á milli hráefnisframleiðandans á Íslandi og neytandans í neytendalandinu eru sem sé mjög margir tæknilegir milliliðir, sem ég býst við að allir séu sammála um að séu alveg óhjákvæmilegir. En þetta starf, þessi breyting á afurðinni í vöru, flutningur á þessu, er raunverulega starf, sem strangt tekið er aðeins þáttur úr heildarframleiðslustarfinu, þannig að það er aðeins tæknilega séð, sem við getum kallað þessa menn milliliði. En í öðru lagi er orðið „milliliður“ notað í þeirri merkingu, að það séu gróðamenn, sem skjóta sér inn á milli framleiðenda og neytenda og græða á báðum. Þetta tvennt þurfum við að aðgreina, þegar við ræðum um þessa hluti.

Það er ákaflega eðlilegt fyrir okkar þjóð, þegar hún talar um milliliði, að eiga raunverulega við þetta hvort tveggja. Það er hvað hugtakið snertir sá arfur, sem við höfum fengið í okkar sögu og styðst við sára reynslu okkar þjóðar, að þegar við um margar aldir erum ósjálfstæð þjóð, frumstæð bændaþjóð, þá er það sami aðilinn, sem tekur að sér að taka við okkar skreið eða okkar ull eða hverju öðru við búðarborðið á Eyrarbakka eða Reykjavík eða hvar sem það var og flytja það út og koma aftur með aðra vöru í staðinn, — það er sami aðilinn, sem er sá tæknilegi milliliður í þessu efni, og arðræninginn, þannig að í augum okkar þjóðar hefur lengi haldizt, að þetta tvennt færi saman.

Við verðum hins vegar að gera okkur ljóst, — og þar þótti mér sérstaklega hæstv. dómsmrh. í þeirri ræðu, sem hann hélt í Sjálfstæðishúsinu, rugla mjög saman, — að það er um tvennt ólíkt að ræða, sem ekki þarf að fara saman í þeim framförum, sem orðið hafa, og þeirri breytingu, sem orðið hefur hjá okkar þjóð. Annars vegar er um að ræða, þegar við þróumst frá því að vera tiltölulega frumstætt mannfélag yfir í það að verða meir og meir næstum því stóriðjuþjóð. Þá erum við að þróa eða efla okkar verkaskiptingu, verkaskiptinguna á milli mannanna. Og það er nauðsynlegur og óhjákvæmilegur hlutur, sem hlýtur að vera undirstaða undir framförum og efla framfarirnar. En hins vegar hefur sú orðið reyndin á, að á sama tíma hefur eflzt stéttaskipting, sem sé skipting í yfirstétt og undirstétt, þannig að vissir aðilar, sem hafa tekið að sér svo og svo mikið hlutverk í sambandi við þessa vaxandi og nauðsynlegu verkaskiptingu, hafa notað sína aðstöðu til þess að arðræna verkamenn, bændur og aðrar vinnandi stéttir, en verða sjálfir auðugir menn, m. a. á því að þrengja sér þarna inn á milli og hagnýta þá eðlilegu verkaskiptingu, sem þarna þarf að vera í þjóðfélaginu, til þess að skapa sér gróða.

Við skulum gera okkur ljóst, þegar við þess vegna ræðum um þetta fyrirkomulag upp á framtíðina, hvort milliliðir eru nauðsynlegir eða ekki, að sú tæknilega verkaskipting mannanna verður auðvitað nauðsynleg til frambúðar. Það er alveg gefið mál, að við þurfum áfram á því að halda hér á Íslandi, að það séu ákveðnir menn, sem sjái um að taka við hvort sem er fiski eða ull eða kjöti eða hverju sem er, gangi frá því til útflutnings, annist um sölu á því, flytji það í skipum úr landi, sjái um að kaupa vörur inn og flytja þær hingað, afgreiða þær og annað slíkt. Þessi verkaskipting í þjóðfélaginu verður auðvitað óhjákvæmileg í framtíðinni, alveg eins og hefur verið nú síðustu áratugina. Þeir menn, sem vinna sín verk á þessum sviðum, jafnt verkamenn, hafnarverkamenn, sjómenn, innanlands og utan, símastúlkurnar, hafnsögumennirnir, allir þeir aðilar, sem þarna koma að, skrifstofufólkið og annað slíkt, — þetta er allt saman fólk, sem er að vinna sinn ákveðna hluta í framleiðslustarfinu. Það er, ef maður mætti nota það orð, tæknilegur milliliður, sem er nauðsynlegur á milli hráefnaframleiðandans og neytandans í því landi, sem notar að lokum vöruna. Þetta er náttúrlega svo sjálfsagt, að raunverulega ætti ekki að þurfa að tala um þetta, en ég geri það eingöngu vegna þess, að þessar sjálfsögðu röksemdir um eðlilegar framfarir í krafti verkaskiptingar voru hagnýttar t. d. af hæstv. dómsmrh. til þess að vera röksemdir fyrir því, að auðvald væri nauðsynlegt, en það er hrein rökvilla. M. ö o.: Sem tæknilegur milliliður verður þessi verkaskipting að haldast. En svo komum við að hinu: Er nauðsynlegt, að einhverjir sérstakir aðilar safni gróða, skapi sér gróða af þessu starfi, að milliliðagróði, eins og þessi till. heitir, sé yfirleitt til? Og þar komum við náttúrlega að því máli, sem er höfuðatriði í þessu sambandi, og ég vonast til þess, að við getum hér eftir rætt um þetta mál þannig, að við athugum, hvort það sé nauðsynlegt, að gróði sé myndaður, og hvort það sé rétt, að hann sé myndaður, og hve mikill á þessu sviði, án þess að blanda því saman við nauðsynina á eðlilegri tækniþróun í þjóðfélaginu.

Hér er því raunverulega gert ráð fyrir því strax í heiti tillögunnar, rannsókn á milliliðagróða, að milliliðagróðinn sé til, og það er eftirtektarvert, að það er þarna talað um, að rannsaka skuli milliliðagróða. Það er ekki talað um að rannsaka atvinnurekendagróða.

Hvernig stendur á því ? Í fullþróuðu iðnaðarlandi, við skulum taka Bandaríki Norður-Ameríku, er höfuðgróðinn hjá framleiðslunni, hjá eigendum framleiðslutækja. Svo að ég aftur taki t. d. bílaiðnaðinn, General Motors eða slíka, þá eru þeir menn, sem græða á þessu sviði, sjálfir eigendur framleiðslutækjanna. General Motors, sem mun vera stærsta einstakt hlutafélag í veröldinni, hafði, ef ég man rétt, yfir 1000 millj. dollara í gróða á síðasta ári, það gaf það upp. Og þeir stóru auðhringar, sem myndazt hafa í Bandríkjunum, eru auðhringar, sem sjálfir eiga framleiðslutæki og græða á því. Það, sem þeir láta þeim, sem hérna mundu vera kallaðir milliliðir, í té, þ. e. mönnum, sem selja þetta, annast um flutning á því og annað slíkt, er aðeins hverfandi lítill hluti af gróðanum, höfuðgróðaaðilinn er sjálfur eigandi framleiðslutækisins.

Það, að hér á Íslandi skuli vera komin fram þáltill. um rannsókn á milliliðagróða, sýnir okkur strax, að hér á Íslandi búum við enn þá við þjóðfélag, þar sem það er ekki gróði iðjuhringanna eða útgerðarinnar, sem er vandamálið, eins og mundi verða í fullþróuðu iðnaðarlandi og eins og er t. d. í Bandaríkjunum, heldur er það milliliðagróðinn. Það gefur til kynna, hvað okkar land er enn þá nærri því að standa á sama stigi og nýlenda, að við erum arðrændir einmitt á því sviði, sem snertir flutninginn á vörunni að og frá. Það er skotizt inn á milli framleiðendanna og neytendanna til þess að taka gróðann þar. Og það er engum efa bundið, að það er rétt, sem liggur til grundvallar þessari þáltill., að þessi milliliðagróði er vandamálið í skiptingu arðsins hér á Íslandi, að að svo miklu leyti sem gróði myndast, skuli hann ekki vera hjá eigendum framleiðslutækjanna innan kapitalistastéttarinnar, heldur hjá milliliðunum innan kapítalistastéttarinnar.

Nú er hér farið fram á að rannsaka í þessu sambandi enn fremur milliliðakostnað. En hvað er milliliðakostnaður í þessu sambandi? Við verðum að gá að því til dæmis, að ef við værum að spyrja einhvern útlendan sérfræðing að því, hvort hann vildi veita lán til Íslands, þá væri eitt af því fyrsta, sem hann mundi spyrja að, hvað húsaleigan væri á Íslandi, hvað hún væri mikill hluti af launum, hvað hún væri há. Og af hverju mundi hann spyrja að þessu? Af því að hann veit, að hæð húsaleigunnar ræður ákaflega miklu um kaupgjaldið, þannig að svo framarlega sem landi er þannig stjórnað, að húsaleiga er látin vera há í því, þá þýðir það um leið, að það verður að knýja fram tiltölulega hátt kaupgjald til þess að standa undir þeirri húsaleigu, og það þýðir aftur tiltölulega meiri framleiðslukostnað.

M. ö. o.: Þegar við ætlum að fara að athuga, hver milliliðakostnaðurinn sé, þá þýðir það, að við verðum að rannsaka alla gróðamyndunina í þjóðfélaginu, eins og hún er, frá húsaleigunni og yfir í allan verzlunargróðann. Það þýðir hvorki meira né minna en að fá rannsókn á því, hvernig gróðamyndunin fer fram í okkar kapítalistíska þjóðfélagi á Íslandi.

Við getum tekið þar fyrir í fyrsta lagi hringana, olíuhringana og alla aðra hringa. Við getum tekið fyrir heildsöluna. Við getum tekið fyrir útflutninginn, hringana, sem þar eru starfandi. Og við verðum að rannsaka þetta allt til hlítar og fá fullkomið vald til þess að fá skorið þarna úr, jafnt hvort það snertir saltfiskhringinn og hans starfsemi suður á Ítalíu eða innflutninginn hjá olíuhringunum á olíunni hérna heima.

Í öðru lagi verðum við að hafa aðstöðu til þess að rannsaka, hvernig er t. d. um þátt húsaleigunnar í verðmynduninni og gróðamynduninni hérna heima. Ég vil vekja athygli manna á því, að brunabótamatið á húseignum á Íslandi er í augnablikinu 400 millj. kr., 4 milljarðar, og það eru reiknaðir vextir af þessari upphæð, þegar húsaleigan er ákveðin núna, líka af öllum gömlu húsunum, vegna þess að Alþingi hefur sjálft, stjórnarflokkarnir núverandi á Alþingi hafa tekið þá ákvörðun að láta gera mögulegt að reikna húsaleigu af gömlu húsunum, húsum, sem voru byggð fyrir stríð, á sama hátt og nýbyggðum húsum, hafa sem sé sprengt upp allt í þjóðfélaginu með þessu móti og skapað alveg gífurlegan gróða hjá einstökum mönnum. Og ég vil minna menn á, að það er engin önnur þjóð á Norðurlöndum, sem hefur haft þennan hátt á. Það eru aðeins stjórnarflokkarnir hér á Íslandi, sem hafa gert svona hluti. Það er rannsóknarefni í þessu sambandi líka sú gróðamyndun, sem fram hefur farið í sambandi við lóðirnar hérna í Reykjavík og braskverðið á þeim. Ef við lítum hér út fyrir gluggana, sjáum við lóðir, sem fyrir 50 árum kostuðu svo að segja ekki neitt, lóðir hérna hjá Tjörninni, sem voru látnar fyrir eina litla eldavél, en ég býst við, að lóðirnar hérna í Reykjavík í dag séu ekki undir 1000 millj. kr. að verðmæti, ef ætti að selja þær. Fasteignamatið mun vera einhvers staðar í kringum 50 millj. kr., og ég býst við, að það megi tvítugfalda það. Og hvað snertir lóðirnar hérna við Laugaveginn, þá býst ég við, að þær séu tiltölulega fáar, þó að gömul hús séu á þeim, sem ekki eru metnar á eina milljón, ef á að selja þær. Og það vita allir hvað snertir húsaleiguna, fyrst verið var að minnast hér af hálfu Sjálfstfl. á svartan markað, hvers konar svartur markaður blómgast í sambandi við húsaleiguna nú. Tvö herbergi og eldhús átti að fara að leigja hérna nýlega, og það var spurt, hvað það kostaði. 2500 kr., sagði maðurinn. Og það eru samt til lög um, hvað húsaleiga eigi að vera, og engum dettur náttúrlega í hug að reyna að framkvæma þau lög, sízt ríkisstjórninni.

Sú nefnd, sem ætti að rannsaka þessa gróðamyndun í þjóðfélaginu, milliliðagróðann, þarf að athuga skipin og skipaleiguna. Það er eftirtektarvert, hvernig farið hefur verið að á undanförnum árum. Fjárfestingin í flutningunum er ekkert smáræði. Það er byggt hvert skipið á fætur öðru, þó að það sé ekki byggt eitt einasta stórt skip til þess að framleiða fisk. Og það er nauðsynlegt, að öll skipafélögin og allur sá gróði, sem myndazt hefur í sambandi við þau, og öll spursmál í sambandi við afskriftirnar séu tekin til rannsóknar í þessu sambandi.

Þá er nauðsynlegt, að bankarnir og þeirra gróði sé tekinn til athugunar í þessu sambandi. Það er alveg óhjákvæmilegt, ef það á að athuga, hvort tekið er of mikið af framleiðendum og framleiðslan sé að brotna, að setja fram þá spurningu og rannsaka hana til hlítar: Taka bankarnir of mikið í sinn hlut? Ég hef hvað eftir annað lagt fram hér sannanir fyrir því, og það þarf ekki nema líta í reikningana til þess að sjá, að bankarnir hér á Íslandi hafa yfir 50 millj. kr. í gróða á ári. Og á sama tíma sem tapið á togurunum, borgað úr ríkissjóði, er kannske um 20 millj. kr., er talað um það hvað eftir annað, að það verði að stöðva togarana, þó að bankarnir græði 50 millj. Og megingróði bankanna er af því að verzla með gjaldeyri, sem togararnir útvega þeim.

Það verður að taka ríkið sjálft og allt skrifstofubákn ríkisins og öll þess útgjöld til athugunar, því að það getur verið, að þar sé of miklu eytt, að það sé of þungt bákn, sem hlaðið er á framleiðendurna á Íslandi, eins og nú er, og að það mætti víða spara þar nokkuð mikið og gera einfaldari reksturinn. En það er vitað mál, að það hefur ekki fengizt svo mikið í gegn sem einu sinni að leggja saman tóbakseinkasöluna og áfengiseinkasöluna til þess að spara. Þegar talað er við sjómenn eða verkamenn, þá er sjálfsagt að „prútta“ við þá og segja þeim heldur að stöðva alla vinnu í landinu í sex vikur en að láta undan réttmætum kröfum þeirra. En ef stjórnarflokkarnir eiga að útdeila bitlingum, þó að þeir gætu haft möguleika til þess að spara eins mikið fyrir ríkið með því að leggja saman nokkrar ríkiseinkasölur, þá dettur þeim ekki í hug að gera það.

Sú nefnd, sem á að rannsaka milliliðagróðann, verður að taka þetta allt saman fyrir. Hún á kannske erfiðara með og það er nú önnur n. að vinna í því að taka beinlínis okrið, þann leynilega milliliðagróða. Ég nefndi dæmi hér í fyrra um, að ein verzlun hérna hinum megin við okkur hefði tekið lán og borgað í vexti af því láni á einu einasta ári 6 millj. kr. Það væri ekki undarlegt, þó að hún hefði verið eyðilögð, slík verzlun. Ef svona er hlaðið ofan á, ef á bak við allt saman eru svo þar að auki menn, sem taka til sín svona milliliðagróða, þá sjáum við náttúrlega, að það er ekki seinna vænna að kryfja þessi mál fullkomlega til mergjar.

Er kannske þetta, sem ég hef nú verið að segja og ég hef sagt áður, eitthvað nýtt, að því sé yfirleitt haldið fram, að það séu þessir svokölluðu milliliðir, sé verzlunarauðvaldið, fjármálaauðvaldið, sem sölsar til sín gróðann, og að það sé tekið þarna af framleiðslunni? Nei, þetta er ekki neitt nýtt. Það eru 20 ár síðan sú fyrsta nefnd, sem sett var til þess að rannsaka þessa hluti hér á Íslandi, komst að þessari niðurstöðu. Skipulagsnefnd atvinnumála eða Rauðka, eins og hún var venjulega kölluð, sló því föstu í sínum rannsóknum, — og það eiga nú flestallir þeir menn, sem í henni voru, sæti hér á Alþingi nú, — að það væri allt of mikill hluti af þeim arði, sem framleiðendurnir á Íslandi skapi, sem verzlunarauðvaldið tæki í sinn hlut, það væri allt of stór hluti og hann þyrfti að minnka. Rauðka komst að þessari niðurstöðu í tíð Framsóknar- og Alþýðuflokksstjórnarinnar. Hverjar voru svo aftur á móti þær pólitísku afleiðingar, sem dregnar voru af því, að þessi niðurstaða var alveg klár og hárrétt eins og margt í því, sem sú ágæta nefnd vann? Jú, afleiðingarnar voru þær, að íhaldið var svo bara tekið inn í ríkisstjórnina af Framsókn og Alþýðuflokknum seinna meir og hlutur verzlunarauðvaldsins alveg tryggður.

Þetta hefur verið rannsakað oftar, og hv. 1. landsk. minntist hér á, að það hefðu einmitt komið fram upplýsingar 1945 og 1946 um verzlunarálagninguna hjá heildsölum þá. Og það kom fram í sambandi við eignakönnun og annað slíkt ósköp vel, hvar gróðinn í þjóðfélaginu var að lenda, hvernig verzlunarauðvaldið sérstaklega mokaði honum til sín. Hverjar voru hins vegar pólitísku afleiðingarnar, sem dregnar voru af þessu? Jú, það var mynduð hægri ríkisstjórn, stjórn, sem íhaldið var í með Framsókn og Alþfl. og sá um, að verzlunaríhaldið skyldi fá sinn gróða alveg öruggan.

Það hefur ekki strandað á því undanfarið, að það væri ekki hægt að rannsaka þessa hluti að einhverju ofur litlu leyti, þó að það hafi aldrei verið krufið vel til mergjar, sérstaklega ekki nú upp á síðkastið, en það hefur strandað á hinu, að niðurstöðum rannsóknanna væri framfylgt á því pólitíska sviði. Og á hverju hefur það strandað, að niðurstöðum rannsóknanna væri framfylgt? Það hefur strandað á valdi Sjálfstfl. í íslenzkum stjórnmálum. Það hefur strandað á því, að sá flokkur, sem nú flytur þessa till. hérna, hefur hindrað, að það yrðu þær eðlilegu afleiðingar af þeim rannsóknum, sem fram hafa farið fyrir alllöngu, að hlutur framleiðslunnar væri of smár, hlutur verzlunarauðvaldsins of mikill, að þessum hlutaskiptum væri breytt. Sjálfstfl. hefur hindrað það. Sjálfstfl. hefur verið og komið fram sem flokkur gróðamannanna, sem flokkur auðmannanna í þessum efnum. Hann hefur haft mismunandi aðferðir til þess að tryggja þeirra vald. Hann hefur t. d. nú upp á síðkastið beitt sér fyrir verzlunarfrelsi þar, sem það hentar hagsmunum verzlunarauðvaldsins. Hann hefur hins vegar beitt sér fyrir einokun á þeim sviðum, þar sem það hentar hagsmunum verzlunarauðvaldsins, eins og bezt sést nú í sambandi við útflutninginn og raunar olíuhringana líka. Og Sjálfstfl. hefur ekki heldur hikað við að beita sér fyrir ríkisrekstri eða halda við ríkisrekstri og hagnýta sér ríkisrekstur, ef það hefur „passað í kramið“ fyrir auðmannastétt landsins. Og ég sé ekki betur núna en Sjálfstfl. hafi aldrei gengið lengra en þessar vikurnar í því að hagnýta sér bankana, ríkisbankana á Íslandi, eins og hann ætti þá og gera kröfu til þess að stjórna þeim frá svo einhliða sjónarmiðum, að það hefði a. m. k. einhvern tíma þótt hneyksli, ef slíkt hefði verið gert. Ég held, að það sé þess vegna ekki að ófyrirsynju, að við athugum, hvernig Sjálfstfl. þannig hefur beitt sínu valdi og sínum áhrifum um efnahagsmál Íslendinga einmitt á þessum síðustu 15 árum. Þessi síðustu 15 ár hefur hann alltaf verið í ríkisstj., og þessi síðustu 15 ár hefur verið hraðasta þróunin í kapítalismanum á Íslandi. Sjálfstfl. hefur haft mjög góða aðstöðu til þess að geta ráðið því, hvert arðurinn af vinnu alþýðunnar lenti, og ekki þá sízt, til hvaða hluta af auðmannastéttinni sá arður lenti, hvort hann lenti t. d. til þess hluta auðmagnsins, sem er í framleiðslunni, eins og útgerðarauðmagnsins, eða hvort hann lenti til verzlunarauðvaldsins og fjármálamannanna.

Við skulum þess vegna athuga pólitískt, hvert gróðanum hefur verið beint. Við verðum nefnilega að gera okkur það ljóst, að á meðan við á annað borð búum við auðvaldsskipulag, þá byggist atvinnureksturinn og straumur fjármagnsins á gróðanum eða gróðavoninni, og meðan við búum við kapitalistiskt þjóðfélag, þá mun þess vegna auðmagnið streyma þangað, sem gróðavon er, og þeir, sem ráða þjóðfélaginu, hafa líka um leið möguleika til þess að haga því þannig, að geta t. d. að miklu leyti ráðið því, hvaða hluti atvinnurekendanna það er, sem græðir. En þeim ber líka á vissan hátt skylda til þess, ef þeir ætla að láta þjóðfélagið ganga, að haga því svo, að atvinnuvegirnir, sem eigi að ganga, græði líka, sem sé það, sem sé undirstaðan undir atvinnurekstrinum. Og Sjálfstfl., sem á undanförnum árum yfirleitt hefur haft viðskiptamálin og sjávarútvegsmálin lengst af, aðeins með stuttu millibili hefur verið þar breyting á, hefur sannarlega haft aðstöðu til þess að geta að miklu leyti ráðið þessu. Og nú vil ég, að hv. þm. geri sér ljóst, ekki sízt þeir yngri, sem aldrei hafa lifað það, að hér væri það, sem maður gæti kallað kapitalistiskt frelsi, á Íslandi, hvernig það væri, svo framarlega sem við byggjum hér við algert verzlunar- og atvinnufrelsi á kapítalistiskan mælikvarða. Ef hér væri algert kapítalistiskt frelsi, þá mundi útgerðin sjálf fá t. d. allan þann gjaldeyri, sem hún framleiðir, og útgerðarmennirnir, sem fengju þennan gjaldeyri fyrir sína vöru, gætu sjálfir ráðstafað honum eftir því, sem þeim þóknaðist. Og ég held, að það væri lítill efi á því, að ef slíkt kapitalitiskt frelsi væri á Íslandi, þá mundi fjármagnið fyrst og fremst streyma til útgerðarinnar til þess að tryggja það, að þeir, sem gjarnan t. d. vilja hafa einhverjar vörur á boðstólum eða ná sér í hráefni handa iðnaði, hefðu aðstöðu til þess að geta keypt eða náð í útlenda peninga til þess að geta keypt slíkt hráefni. M. ö. o.: Ef slíkt algert kapítalistiskt frelsi ríkti hér á Íslandi, þá mundi auðmagnið streyma til útgerðarinnar, þangað til jafnvægi væri komið á í þessum efnum. Útgerðin mundi tvímælalaust blómgast hér á Íslandi, ef slíkt væri, bara vegna þess að hún er undirstaðan að því, að nokkur verzlun geti átt sér stað eða að nokkur iðnaður með útlendu hráefni geti farið hér fram. Ég geng út frá, að það mundi að vísu líka um leið með slíku kapitalistisku frelsi hafa orðið hér allmikil hringamyndun í útgerðinni. Það leiðir venjulega af sér í þróun kapitalismans. En nú vitum við ósköp vel, að þetta kapitalistiska frelsi hefur ekki ríkt hér. En hvað hefur þá verið gert? Það þurfum við að gera okkur ljóst.

Með stjórnarráðstöfunum hefur nú og að miklu leyti upp undir 20 ár gjaldeyririnn verið tekinn af útgerðinni, og hann hefur verið afhentur ákveðnum mönnum, ákveðnum aðilum, sem ríkisstjórnirnar á ýmsum tímum hafa álitið að ættu að fá þennan gjaldeyri og ættu að ráðstafa honum, ýmist bönkum eða nefndum eða ýmsum aðilum; stundum hefur jafnvel verið sagt: ýmsum aðilum, sem ríkisstj. hefði velþóknun á, en í öllu falli ákveðnum aðilum, sem ríkisstj. ákveður, hverjir séu, og mér liggur stundum við að segja: aðilum, sem gera ríkisstjórnina út, aðilum, sem ráða stjórnarflokkunum og fá gjaldeyri í sinn hlut í staðinn. Og ég gæti trúað, að það væri sú útgerð, sem borgaði sig bezt á Íslandi, útgerðin á stjórnarflokkunum fyrir þá aðila, sem láta með ríkisvaldinu taka gjaldeyrinn af útgerðinni og úthluta honum til þeirra, sem ríkisstj. hefur velþóknun á, nú upp á síðkastið með þessum alræmdu helmingaskiptum.

Hins vegar hefur það verið svo upp á síðkastið, að þó að gjaldeyririnn sé tekinn af útgerðinni, þá er ekki einu sinni eftir skilið til handa þessari útgerð framleiðsluverð eða það verð, sem geti borgað framleiðsluna á þeim fiski, sem allur gjaldeyririnn er fenginn fyrir. Og svo hafa þeir menn, sem hafa haft ríkisvaldið í höndum og tóku gjaldeyrinn af útgerðinni, alltaf öðru hverju orðið að fleygja í útgerðina, rétt eins og hún væri einhver styrkþegi, einhverjum dálitlum fúlgum, þegar þeir hafa séð, að nú var hún alveg að stöðvast og alveg að drepast, því að þótt merkilegt megi virðast, þá er eins og þessir menn hafi séð, að þeir mundu ekki komast langt án útgerðarinnar. Að vísu eru til bankastjórar, sem hafa sagt við menn: Ja, hver andskotinn biður þig um að vera að gera út? — En ég er hræddur um, að það mundi ekki þýða fyrir þjóðfélagið í heild að segja það við útgerðina. Ég er hræddur um, að það yrði nú að krjúpa til hennar á knjánum á endanum, ef það ætti að stöðva alla útgerð hérna á Íslandi. Og meira að segja þeir, sem hafa rænt af útgerðinni gjaldeyrinum, hafa séð, að við svo búið mátti ekki standa. Það varð þó að fleygja í hana, þannig að hún héldi einhvern veginn áfram. En þetta hefur skapað slíka óvissu í útgerðinni, að auðvitað dettur ekki nokkrum auðmanni í hug að leggja sitt fjármagn í svona útgerð, sem hann aldrei veit um, hvort muni bera sig. Leggi hann fjármagn í heildsölu, leggi hann fjármagn í hermang suður á Keflavíkurflugvelli, þá getur hann verið viss með arðinn. Leggi hann það í að kaupa togara, þá á hann það undir náð ríkisvaldsins og þeirra, sem fara með það, hvort togari yfirleitt ber sig, verður jafnvel að stöðva hann heillengi til að knýja fram, að það sé einhverju kastað í hann, og þá er það meira að segja kallaður styrkur. M. ö. o.: Öll þau eðlilegu lögmál í kapítalistisku þjóðfélagi eru gersamlega skert, sett út úr gildi, og sjálfir framleiðsluatvinnuvegirnir, sjávarútvegurinn, landbúnaðurinn, mikill hluti iðnaðarins, eru gerðir að styrkþegum og verzlunarauðvaldið raunverulega látið ráða því, hvort og að hve miklu leyti útgerðin er rekin.

Hverjir eru þá þessir aðilar, sem ráða ríkisvaldinu, þessir aðilar, sem láta taka gjaldeyrinn af útgerðinni, henda síðan öðru hverju einhverju í útgerðina, til þess að hún þó haldi áfram, af því að þeim er ljóst, að hún er ekki aðeins fjöregg þjóðarinnar, heldur meira að segja fjöregg og gróðalind þeirra? Þessir aðilar eru verzlunarauðvaldið, fjármálaauðvaldið á Íslandi, það auðvald, sem ræður ríkisvaldinu. Það ríkir ekkert almennt kapitalistiskt frelsi á Íslandi fyrir kapitalistastéttina í heild. Það ríkir hér eins konar alræði verzlunarauðvaldsins og fjármálaauðvaldsins, auðhringa og stærstu heildsala, sem sé mannanna, sem eiga Sjálfstæðisflokkinn, mannanna, sem eiga Morgunblaðið. Og þessu alræði er hagrætt nokkuð. Stundum neyðast þeir til þess að taka tillit til alþýðunnar, hún verður þá venjulega að stöðva við þá alla gróðamyndun vikum eða mánuðum saman, stundum neyðast þeir til að taka tillit til útgerðarmannanna eða iðnrekendanna og láta þá fá eitthvað ofur lítið, svo að ekki stöðvist allt hjá þeim. Og stjórnlist Sjálfstfl. á undanförnum áratugum hefur verið fólgin í því að samræma hagsmuni þessara þriggja höfuðhópa innan auðmannastéttarinnar, verzlunarauðvaldsins og annarra peningamanna, útgerðarmannanna og iðnrekendanna, þannig að auðmannastéttin á Íslandi bókstaflega klofni ekki í þrennt, en samt alltaf svo, að það er verzlunarauðvaldið, sem ræður, það er verzlunarauðvaldið, sem hirðir gróðann, og það er verzlunarauðvaldið, sem tryggir sér þorrann af öllu því, sem alþýðan skapar með sinni vinnu. Og það hefur raunverulega verið stjórnmálalist formanns Sjálfstfl., hæstv. forsrh., að vinna þetta verk, að samræma þessa sundurleitu hópa auðmannastéttarinnar, þannig að þeir gætu unað við þetta alræði verzlunarauðvaldsins. Það hefur stundum sungið í þeim hérna útgerðarmönnunum, og maður þekkir alveg raddirnar hjá þeim, þegar þeir eru að setja hnefann í borðið á fundunum í Landssambandinu. Það er kannske stundum líka talað þar um Landsbankavald, jafnvel Kveldúlfsvald. En á endanum eru það þó þeir alltaf, sem renna frá öllum sínum kröfum. Ég efast um, að það sé nokkur útgerðarmaður á Íslandi, sem þorir yfirleitt í Sjálfstfl. að minnast á það, að útgerðarmenn hafi kapitalistiskt frelsi á Íslandi, svo er búið að beygja þá.

Þetta, að ástandið er svona, hefur þýtt það, að þetta gengur í sífelldum kreppum, svo að segja árlega, stundum tvisvar á ári. Þá liggur við að allt stöðvist, bara vegna þess, hvernig þeir eru að rífast sín á milli, útgerðarmennirnir og verzlunarauðvaldið, um, hvernig eigi að skipta gróðanum, sem alþýðan færir þeim upp í hendurnar. Og stundum verðum við hér á Alþingi að bíða, við höfum orðið að bíða stundum vikum saman eftir því, að ríkisstj. væri að reyna að finna einhverja lausn í þessum málum, og Alþingi verið látið hanga aðgerðalaust. Og stundum hafa þessar lausnir verið svo fáránlegar, að við höfum hér í tvö ár búið við það ástand, að með hreinni lögleysu hefur verið innheimtur skattur af landsmönnum eins og bátagjaldeyririnn, án þess að það væri nokkur lagabókstafur til fyrir því, sem sé yfir 100 millj. kr. verið innheimtar af landsmönnum, þ. e. raunverulega með hreinum þjófnaði, sem ríkið aðstoðar, en engum manni bar skylda til að greiða. Og enn er allt í slíku öngþveiti, að einn daginn hækka útgerðarmenn einhvers staðar úti í bæ skatta á almenningi, og ríkisstj. segir daginn eftir á Alþingi: Ja, ég veit nú eiginlega ekki, hvað er að gerast. — Og í stjórnarskránni stendur, að ekki megi leggja á skatta nema með leyfi Alþingis. M. ö. o.: Það er í sífellu vandræðaástand, sem svo nær hámarki sínu í slíkri spillingu í sambandi við þessa hluti, allt saman af því einu, að það er verið að viðhalda þessu alræði verzlunarauðvaldsins, veita til þess gróðanum, sem skapast í íslenzka þjóðfélaginu, en aðilarnir, eins og útgerðarmenn og aðrir slíkir, heimta um leið að fá einhvern hluta af þessu.

Gróðamyndunin á Íslandi er langt frá því að vera frjáls. Henni er með ríkisvaldi verzlunarauðvaldsins beint til heildsalanna og hringanna á kostnað alþýðu, útgerðarmanna og fleiri atvinnugreina. Hins vegar er auðmagninu í framleiðslunni haldið niðri. Það var stöðvun í allri framleiðslunni hér á Íslandi 1930–1940 það var búið t. d. þannig að togaraútgerðinni, að það fækkaði ár frá ári togurunum. Það er alþýðan, sem hefur orðið að knýja áfram með þrýstingi á ríkisvaldið, að auðmagnið í framleiðslunni væri aukið. Ég þekki vel inn á þá hluti, því að einmitt þegar nýsköpunarstjórnin var mynduð, gekk Sjálfstfl. klofinn til stjórnarmyndunar hérna á Íslandi. Heildsalaparturinn úr honum stóð á móti, vegna þess að heildsalarnir gátu ekki sætt sig við, að það ætti að fara að setja svo og svo mikið af auðmagni þjóðarinnar í framleiðslutæki, og heildsalarnir héldu áfram, verzlunarauðvaldið hélt áfram allan tímann, sem nýsköpunarstjórnin stóð, að ala á því, að þeir fengju sem mest af fjármagninu til umráða, og að lokum tókst þeim með liðstyrk annars staðar frá, voldugum liðstyrk, að eyðileggja þá stjórn, eftir að hún þó hafði knúið það fram, að nokkur hundruð milljóna króna voru settar í framleiðslutæki á Íslandi. Heildsalarnir tóku síðan að marka stefnuna frá 1948, og hefur þeim tekizt að marka stefnuna það vel, að enginn nýr togari hefur verið keyptur til Íslands síðan. Það er þess vegna eftirtektarvert, hvernig verzlunarauðvaldið fjandskapast raunverulega við framleiðsluna, sem það þó byggir allan sinn gróða á. Eftirtektarvert er það skilningsleysi gagnvart þeim grundvelli, sem það meira að segja sjálft verður að byggja sína gróðamyndun á. En það er sjálfsagt mál, að alla þessa hluti verðum við að rannsaka til hlítar. Við verðum að skyggnast þarna fyrir um, hvar komið er og hvaða leiðir við finnum til þess, þó að það tilheyri kannske ekki beint verkefni þessarar nefndar, að koma slíku skipulagi á þessa hluti, að framfarir í framleiðslunni á Íslandi geti haldið áfram eins og verið hefur á þeim tímabilum, þegar bezt hefur verið tekið á hér fyrir þjóðina. Síðan 1948, síðan verzlunarauðvaldið aftur tók til óspilltra málanna að ráða stjórnarstefnunni á Íslandi, hefur auðurinn safnazt fyrst og fremst hjá því, enda býst ég við, að þeir, sem hafa með fjárfestinguna að gera, geti borið um það, að vart mun annað eftirsóknarverðara nú en ef fjárfestingarleyfi fást til byggingar verzlunarhúsa og slíkra hér í Reykjavík.

Það mun enginn treysta sér til þess að mæla með því að hafa frjálsan kapitalisma á Íslandi, sízt af öllu heildsalarnir. Spurningin verður þá: Á meðan við á annað borð höfum kapitalismann hér, á meðan við á annað borð látum gróða og auð eða arð af atvinnurekstrinum ráða því, í hvaða atvinnugreinar við leggjum, en látum ekki þjóðarþarfir og þjóðarhag ráða því, þá er þess vegna spurningin: Fyrir hverja á að hagræða þessu frelsi kapitalismans, fyrir verzlunarauðvaldið eða fyrir útgerðina og iðnaðinn, fyrir atvinnugreinarnar? Um það hafa átökin verið á þessum undanförnum árum. Reynslan sýnir okkur, að sá aðili, sem ræður ríkisvaldinu, hagnýtir það í sína þágu. Það er verzlunar- og fjármálaauðvaldið, sem í krafti yfirráða sinna í Sjálfstfl. hefur haft aðstöðu til þess að hagnýta sér ríkisvaldið og hefur með því að veita gróðanum, sem myndast í þjóðfélaginu, til sín, skapað sér þá sérréttindaaðstöðu, sem það nú býr við. Verzlunarauðvaldið hefur með þessari aðstöðu, með þessu ríkisvaldi búið til farveginn með tilheyrandi stíflum og lokum og veitt vel inn á sinn gróðurreit, sem hefur líka blómgazt í réttu hlutfalli við áveituna.

Spurningin, sem er raunverulega þess vegna lögð fyrir í þeirri þáltill., sem hér er til umræðu, er þessi: Hefur verzlunarauðvaldið og annað peningavald, sem ekki er í framleiðslunni, tekið of mikið bæði af þjóðinni og af öðrum atvinnurekendum, sem í framleiðslunni eru? Og svarið er alveg ótvírætt, að það hefur verið tekið svo allt of mikið af framleiðslunni, að það liggur við, að framleiðslan sé drepin, sé stöðvuð, með því að hún er reytt svona inn að skinninu og meira en það. Þess vegna er það ekki seinna vænna, að rannsókn á þessum málum sé látin fara fram, það sé rannsakað, hvar eru eignirnar, sem skapazt hafa hjá þjóðinni á undanförnum árum, hjá hvaða stéttum þær eru niður komnar og hvernig þær hafa komizt þangað, og þá mun það koma í ljós, sem ég hef nú verið að sýna fram á, að það er verzlunar- og fjármálaauðvaldið, sem hefur notað ríkisvaldið til þess að veita til sín þessum auði, sem verkalýðurinn hefur verið að skapa í þjóðfélaginu. Til þess hins vegar að komast að niðurstöðum um þetta er óhjákvæmileg hiklaus, víðtæk rannsókn, sem m. a. mundi fela í sér eignakönnun, víðtækari en þá, sem var 1947. Þegar við spyrjum að, hvort of mikið sé tekið af framleiðslunni og hvar arðurinn sé, sem milliliðirnir fá, þá er ekki nema eðlilegt, að við segjum: Ja, hvar er auðurinn, sem skapazt hefur, niður kominn — og rannsökum, hvar hann er. Þannig er auðveldast að skera úr um það.

Þá komum við að þeirri spurningu með slíka rannsóknarnefnd: Hvaða réttinda á hún að njóta? Ég tel alveg óhjákvæmilegt, að rannsóknarnefnd, þó að hún sé sett af sameinuðu Alþingi, njóti sömu réttinda og rannsóknarnefndir, sem skipaðar eru af deildum, og það eru fordæmi um það og því haldið fram í öllum lögskýringum á stjórnarskránni, að sameinað þing hafi sama rétt til þess að veita slíkri nefnd, sem sett er af sameinuðu þingi, vald til þess að yfirheyra menn og heimta skýrslur af mönnum og félögum og stofnunum eins og þingdeildarrannsóknarnefndir. Ég álít þess vegna tvímælalaust, að þessi nefnd eigi að hafa slíkt víðtækt vald.

Í öðru lagi vil ég taka það fram, að ég álít ekki nauðsynlegt, að í þessari till. standi endilega „sérfróðra“, því að mér sýnist það vera tilhneiging til þess að misskilja mjög það orð hjá þeim, sem hér hafa talað. Sérfróðir í þessum efnum eru ekki endilega menn, sem eru viðskiptafræðingar eða hagfræðingar eða eitthvað annað slíkt, og reynslan, sem við höfum af hagfræðinganefndum hér á Alþingi og yfirleitt öllum afskiptum hagfræðinga af okkar málum, er miklu frekar sú, að þeir reyni að villa um og fela fyrir okkur það, sem sé aðalatriði í hlutunum, heldur en hitt. Þeir eru góðir oft til þess að koma með einstakar staðreyndir, en ef þeir eiga að draga ályktanir af þeim, fer það venjulega alveg út um þúfur. Ég held þess vegna, að hér sé bezt, að þingið ráði alveg sjálft, hvers konar menn það skipar, þó að ég hins vegar viti, að hver maður, sem þingflokkarnir setja í svona nefnd, mundi náttúrlega kannske geta litið á sig sem sérfróðan, því að það er varla hægt að ætlast til þess, að menn taki yfirleitt sæti á Alþingi án þess, að þeir hafi reynt að gera sér einhverja grein fyrir þeim hlutum, sem hér um ræðir.

Aðalatriðið, sem þeir menn þurfa að hafa, sem eiga að rannsaka þennan hlut, er þekking og vilji til þess að grafast fyrir um rætur viðfangsefnisins. Það er ekki nein sérmenntun, sem þar væri skilyrði, og hvað það snertir mætti vel hafa þetta þingmannanefnd, enda er þar að auki upplýst fyrir þá, sem sérstaklega vilja hafa hagfræðinga og viðskiptafræðinga í svona nefnd, að við höfum bæði hagfræðing og viðskiptafræðing í þinginu.

Hv. 3. þm. Reykv. minntist hér á það, að nefndin mundi geta fengið allar upplýsingar eftir frjálsri leið. Það vil ég leyfa mér stórkostlega að efast um. Ég álít, að svona nefnd fái ekki allar þær upplýsingar, sem hún þarf að fá um starfsemi Sölusambands ísl. fiskframleiðenda, eftir frjálsri leið. Ég held, að það sé alveg óhjákvæmilegt, að svona nefnd hafi möguleika til þess að yfirheyra alla þessa aðila, jafnt fulltrúa opinberra stofnana eins og bankanna og annarra. Það er alveg víst, að menn, sem ætla að rannsaka alla þá hluti, sem þarna þarf að rannsaka, þurfa að hafa allt það vald, sem Alþingi getur veitt í því sambandi.

Þá vil ég enn fremur taka fram, að það er ekki aðeins nefndin í heild, sem verður að hafa slíkt vald, heldur hver maður innan nefndarinnar. Það dugir enginn skollaleikur með mál eins og þetta, og það dugir ekki, ef stjórnarflokkarnir kæmu sér saman um það t. d. innan svona nefndar að ætla að leggjast á málið og vilja hafa helmingaskipti um að fela, að þá hafi t. d. fulltrúi stjórnarandstöðunnar í svona nefnd ekki möguleika til þess að halda áfram sinni rannsókn. Í þingnefndum hefur hver einstakur þingnefndarmaður möguleika til þess sjálfur sem minni hluti í þingnefnd að heimta rannsóknir, að fara fram á yfirlýsingar og álit hinna og þessara manna, og slíkan rétt yrðu þeir að hafa, sem fara í þessa nefnd. Annars væri það tómur skollaleikur, ef þeir menn, sem í nefndina fara, hafa ekki rétt á að heimta, hver einasti einstaklingur, hvers konar upplýsingar. Og ég álít, að Alþingi eigi að búa þetta mál þannig í hendur þeirrar nefndar, sem kosin er, að það verði ekki hægt að segja á eftir, að það hafi ekki verið gefin tækifæri til þess að rannsaka.

Þá álít ég enn fremur, að það eigi að vera fleiri en fimm menn í nefndinni, það eigi að vera a. m. k. sjö í henni, og ég álít, að heppilegast væri, að allir flokkar þingsins hefðu aðstöðu til þess að eiga menn í svona nefnd. Ég álít, að það eigi ekki að setja upp svona nefnd til þess að útiloka ákveðnar skoðanir frá því að komast að, heldur til þess að opna aðstöðu fyrir hinar mismunandi skoðanir í þinginu til þess að fá að rannsaka þennan hlut, sem við alltaf erum að rífast um. Það var í öðru máli, um nefnd, sem sett var á síðasta þingi, sagt af einum fulltrúa stjórnarflokkanna, að ef þá menn, sem settir voru í þá nefnd, vantaði einhverjar upplýsingar og gengi tregt að fá þær, þá skildu þeir bara koma til Alþingis og Alþingi skyldi láta opna hvaða bækur sem væri, bankanna eða annarra slíkra, fyrir mönnunum, og eins verður að vera í þessu efni. Það verður að opna þær bækur, sem þessir menn heimta, hverjir sem það eru, og þær hafa, hvaða stofnanir sem það eru. Fyrr er ekki hægt að rannsaka þetta til hlítar.

Hv. 3. þm. Reykv. sagði, að það mundi ekki verða hátt risið á sumum, þegar n. skilaði áliti. Ég býst við, að það sé alveg rétt. Ég býst við, að það verði ekki hátt risið á sumum, ef nefndin fær að vinna og fær að skila áliti. Í þeirri litlu togaranefnd, sem sett var í fyrra og hann var formaður fyrir, leit ríkisstj. þannig á rannsóknirnar, sem byrjaðar voru, að hún bað nefndina blessaða um að hætta þessum rannsóknum og skila engu áliti. Ég gæti trúað, að þessi nefnd væri ekki lengi búin að rannsaka, ef ríkisstj. ætti að leyfast að koma nærri þessari nefnd yfirleitt, áður en ríkisstj. færi fram á, að nefndin hætti. Og ég held, að Alþingi þurfi að ganga þannig frá þessu, að ekkert, sem ríkisstj. hefur, sé þessari nefnd óviðkomandi. Hún verður að hafa aðstöðu til þess að krefja ráðherrana jafnt sem aðra sagna. Hins vegar sköpuðu þessi ummæli hv. 3. þm. Reykv. þá hugmynd hjá mér, að tilgangurinn hjá Sjálfstfl. með því að setja þessa nefnd mundi vera sá að láta hana ekki fá aðstöðu til rannsókna, gefa mönnum ekki aðstöðu til þess að vera í henni, sem vita, hvar skórinn kreppir í þessum efnum, þannig að nefndin gæti þar á eftir sýknað verzlunarauðvaldið af öllum sökum og sagt, að engin sekt væri fyrirfundin hjá því, sýknað olíuhringana, fiskhringana, heildsalana, bankana, alla saman af öllu arðráni, og komizt að þeirri niðurstöðu, að verkamenn, sem búa við lægra kaup en þeir höfðu 1947, séu einu arðræningjarnir í þjóðfélaginu, það séu einu mennirnir, sem séu að steypa þjóðfélaginu, og ef þetta er tilgangurinn með nefndinni hjá hv. sjálfstæðismönnum, þá er betra fyrir þá að taka þessa till. til baka strax. En ef þeir meina eitthvað af því, sem hv. frummælandi sagði um þetta, þá eigum við að gerbreyta þessari tillögu, gefa nefndinni miklu víðtækara vald, fjölga mönnum í henni og tryggja, að þessi rannsókn fari til hlítar fram. Og út af því, sem einn hv. þm. Sjálfstfl. talaði hér um, hvort það væru einhverjir, sem yrðu hræddir, þá vil ég aðeins segja: Er Sjálfstfl. hræddur við að gefa nefndinni slíkt vald? Er hann hræddur við að láta fara fram fullkomna rannsókn á þessu? Er hann hræddur við að leyfa líka stjórnarandstöðunni í þinginu fulla aðstöðu til þess að rannsaka þessi mál? Við erum nefnilega vanir því, stjórnarandstaðan, að það eina, sem við fáum, þegar talað er um rannsóknir um þessi mál, séu málshöfðanir og síðan séum við dæmdir í skaðabætur og sektir fyrir að segja sannleikann um fjárglæfrana, sem eiga sér stað í þjóðfélaginu.

Þetta er nú hvað snertir þann gróða, sem fram fer, og þann gróða, sem safnast hjá verzlunarauðvaldinu og fjármálaauðvaldinu í þjóðfélaginu. En svo er náttúrlega annað, sem ekki er alveg fjarri lagi að athuga líka í sambandi við svona hluti. Það gæti vel skapazt það ástand, að hver einasti heildsali í Reykjavík næstum því tapaði, græddi ekkert á sinni verzlun, en samt sem áður væri stórtap af því fyrir þjóðfélagið, að þessir heildsalar væru yfirleitt til, þetta gífurlega bákn, sem allar þessar verzlanir eru, væri of þungt fyrir þjóðfélagið, meira að segja þó að þessar verzlanir sjálfar græddu ekki, þær væru kannske svo margar, að það væri hrein og skær vitleysa frá þjóðfélagsins hálfu að leggja í að vera að setja svona mikinn mannafla og svona mikið fjármagn í verzlun. Ég skal bara taka það sem dæmi, ef við í staðinn fyrir, að ríkið eigi þarna símastöð úti, segðum: Við skulum hafa þetta frjálst og frjálsa fjárfestingu í þessu, og það getur hver sett upp símastöð sem vill. — Ég býst nú við, að allir mundu halda, að við værum vitlausir að tala svona. En það eru til þjóðfélög, þar sem síminn er rekinn af einkafyrirtækjum. Við sjáum náttúrlega strax á fjöldanum öllum af athafnasvæðum þjóðfélagsins, að það nær engri átt að vera að hafa marga aðila í hlutunum. Og það gæti vel verið svo, að nefnd, sem rannsakaði þetta, kæmist að þeirri niðurstöðu, að það væri bezt t. d., að ríkið sæi alveg um alla heildsölu, m. a. til þess, að ekkert fjármagn villtist inn á verzlunarbrautina. Ef við viljum viðhalda kapítalistisku skipulagi á Íslandi og erum komnir að þeirri niðurstöðu, að við þurfum að fá fjármagnið til þess að fara út í útgerðina og iðnaðinn, þá er það dæmi til að loka ákveðnum svæðum fyrir það. Við leyfum sem stendur fjármagninu ekki að fara t. d. inn í það að reka símastöðvar, ekki inn í það að fara að reka póststöðvar, ekki inn í það að fara að reka raforkustöðvar, og gæti þetta allt vafalaust verið góð gróðafyrirtæki, ekki sízt raforkustöðvar. Við útilokum einkaauðmagnið frá því að mega fara þarna inn. Það gæti vel verið, að okkur þætti hagkvæmt að útiloka einkaauðmagnið frá því að fara t. d. inn í heildsölu. Ég er ekki þeirrar skoðunar, að heildsalar út af fyrir sig séu nauðsynlegir í þjóðfélaginu, það er vel hægt að komast af án þeirra, og þetta er mál, sem gæti verið praktískt fyrir menn að rannsaka um leið.

Hér er spurt um milliliðakostnað. Það getur verið, jafnvel þó að allir heildsalar í Reykjavík töpuðu, að það sé of dýrt fyrir þjóðfélagið að hafa þá til og að það væri betra að segja við þá: Leggið þið ykkar peninga í útgerð, leggið þið ykkar peninga í iðnað, starfrækið þið hann. Þjóðfélaginu er það nauðsyn, þjóðfélagið hefur því miður ekki efni á því að hafa verzlunina, a. m. k. ekki heildverzlunina, opna fyrir ykkar fjármagn. — Þetta eru hlutir, sem líka þarf að athuga. Það kemur vel til greina að athuga með að afnema hringavald og auðvald á þessum sviðum. Og þetta vil ég alveg sérstaklega segja með slæmri reynslu síðustu tuttugu ára af því, að á meðan heildverzlunin er látin vera frjáls fyrir einkaauðmagn, þá streymir fjármagnið þangað og burt úr framleiðsluatvinnugreinunum, og það er hugsanlegt, að það takist ekki að lækna þetta mein, svo lengi sem við höfum kapitalistiskt þjóðfélag á Íslandi, nema með því að loka heildverzluninni fyrir einkafjármagninu. Þetta er atriði, sem verður að athuga í þessu sambandi.

Fyrir hundrað árum var verzlunin gefin frjáls á Íslandi. Fyrir 40 árum setti einn af brautryðjendum Framsfl. þá upp það takmark, að á 100 ára afmæli frjálsrar verzlunar á Íslandi væri búið að afnema auðvaldið í verzluninni á Íslandi, þá væri eingöngu orðin samvinnuverzlun á Íslandi. Ég veit ekki, hvort samvinnumenn nú eru farnir að óttast, að slík hugsjón rætist, en hitt er gefið, að það er eitt af því, sem er möguleiki, sem rétt er að taka til athugunar, þegar á að rannsaka gróðamyndun auðvaldsins í íslenzka þjóðfélaginu. Þá má taka skipulagshættina í atvinnu- og verzlunarlífinu líka, sérstaklega þó með tilliti til þess, að það sýnir sig, að gróðamyndunin í verzlunar- og fjármálaheiminum er að drepa sjálfa framleiðslu þjóðarinnar. Ég vil þess vegna eindregið leyfa mér að óska þess, að á þessari þáltill. verði gerðar ýtarlegar og róttækar breytingar, annaðhvort af þeirri n., sem fær hana til meðferðar, eða þá að samkomulag verði haft um það, bæði við flm. og aðra, sem vilja tryggja, að þetta mál sé rannsakað til hlítar.

Ég vil sem sé svara þeim frýjunarorðum, sem þm. Sjálfstfl. hafa mælt hér til stjórnarandstæðinga í sambandi við þessi mál, með því að skora á þm. Sjálfstfl. að ljá því lið að gera þessa till. og þessa nefnd þannig úr garði, að eftir rannsóknina, sem hún framkvæmir, verði ekki lengur hægt að rífast og staðhæfa sitt á hvað, hvernig sé með gróðamyndunina í íslenzka þjóðfélaginu og hvert gróðinn renni.