24.11.1955
Neðri deild: 23. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í B-deild Alþingistíðinda. (24)

12. mál, verðlagsuppbót á laun opinberra starfsmanna

Jón Pálmason:

Herra forseti. Út af þessum ummælum frá hv. 1. landsk., sem fela það fyrst og fremst í sér, að ég hafi ekki fært nein rök fyrir andstöðu minni gegn þessu frv., skal ég segja örfá orð, enda þótt ég hafi fært full rök fyrir minni skoðun á opinberum vettvangi, þó að það hafi ekki verið hér. Í fyrsta lagi vil ég segja það, að þó að það hafi verið ákveðið um margar aðrar stéttir, að þær fengju fulla verðlagsuppbót, þá hefur það ekki verið ákveðið hér á Alþingi. Alþ. hefur fyrst og fremst um það að fjalla, hvort þeir starfsmenn, sem eru beint hjá ríkinu, skuli njóta þessara kjara eða ekki, og þess vegna kemur fyrst og fremst til Alþingis kasta að ákveða, hvort þarna skuli fara í topp. Ég skal játa, að sú regla, sem hefur gilt um opinbera starfsmenn varðandi verðlagsuppbót, hefur ekki verið sanngjörn, vegna þess að launamismunurinn er svo tiltölulega lítill til þess að gera. Ég játa, að sú regla hefur ekki verið sanngjörn, því að hitt væri miklu eðlilegra, bæði varðandi þá og aðra, sem þessi verðlagsuppbót tekur til, að það væri borguð viss prósenta af henni til allra aðila.

Nú er hér oft talað um, að það þurfi að stöðva dýrtíð og það þurfi að stöðva verðbólgu, en þeir sömu menn sem hæst tala um það ganga fremstir allra í því að skrúfa verðbólguna sem mest upp, því að hún skrúfast ekki upp á neinn eins og þessu verðuppbótafargani. Ég er þeirrar skoðunar og hef hvorki farið dult með það við hv. 1. landsk. né aðra menn, að ef á að gera einhverja stöðvun á dýrtíð í okkar landi, þá verði einhvers staðar að byrja að stöðva, og Alþ. hefur ekki aðra aðstöðu betri og ef það er nokkur vilji fyrir því að stöðva, þá verður að stöðva á þeim starfsmönnum, sem eru hjá ríkinu og eru þannig settir, að helzt allir þegnar þjóðfélagsins vilja komast inn í þær stéttir.

Að öðru leyti skal ég ekki fjölyrða um málið. Ég veit, að það er þýðingarlaust. Það er í öllum flokkum þingsins meiri hluti þeirra manna, sem hafa hagsmuna að gæta í þessu efni, og þó að við þeir örfáu menn, sem erum andvígir þessari uppskrúfunarstefnu, greiðum atkv. gegn henni, þá hefur það ekki neina þýðingu. Það er ljóst, að við erum í vonlausum minni hluta, eins og sakir standa, en við eigum þó a. m. k. þann rétt að samþykkja ekki frv. eins og þetta.