02.12.1955
Sameinað þing: 19. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í D-deild Alþingistíðinda. (2400)

79. mál, milliliðagróði

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Þegar till. sú, sem hér er til umr., var lögð fram, fékk ég strax um það nokkurn grun, að annað kynni að vaka fyrir hv. flm. en það, sem till. lét í veðri vaka. Ég þóttist sjá það, að ræða sú, sem hæstv. dómsmrh., Bjarni Benediktsson, hafði þá fyrir skömmu flutt á Varðarfundi og Morgunblaðið átti ekki nema eitt lýsingarorð til að lýsa, — það kallaði hana hina „magnþrungnu“ ræðu Bjarna Benediktssonar, — mundi hafa verkað allmikið og allalvarlega á flokksmenn í Sjálfstfl. Ég þóttist sjá þess ljós merki á þessari till., að sjálfstæðismenn litu svo á, að nú hefði svo til tekizt hjá hæstv. dómsmrh. sem oftar, þegar hann fer meira af kappi en forsjá í pólitíkinni, að hann hefði unnið flokki sínum meira ógagn með þessari ræðu en gagn. Ég þóttist sjá þess ljós merki, að sjálfstæðismenn viðurkenndu þá staðreynd, að hér eftir kæmust þeir ekki hjá því að vera flokkur án hugsjónar og án nokkurrar ákveðinnar stefnu, flokkur, sem gæti tileinkað sér hvað sem væri, aðeins ef litið væri svo á, að það væri vinsælt af kjósendum, að héðan í frá gætu þeir ekki komizt hjá því að vera skilgreindir sem flokkur milliliðanna. Og ég þóttist sjá þess ljós merki, að þetta þætti hinum gætnari mönnum og varkárari í flokknum allhart og allillt við að búa.

Þess vegna var það, að mig grunaði, að hinir gætnari menn Sjálfstfl. hefðu litið svo á, að við þessari ræðu hæstv. dómsmrh. þyrfti að bregða alltítt og með einhverjum sérstökum hætti, það yrði að hreinsa alla milliliði þjóðfélagsins, sem hafa bæði af mér og öðrum verið gefin ýmis nöfn, og fá þá í eitt skipti fyrir öll sýknaða af öllu illu, öllu misjöfnu og öllum grun. Mér datt í hug, að Sjálfstfl. eða hinir gætnari menn Sjálfstfl. litu svo á, að þetta yrði að ske nú þegar, á meðan Sjálfstfl. gæti beitt talsverðu valdi á Alþ. og miklu valdi í ríkisstjórn til að knýja fram þessa yfirlýsingu á löggjafarþingi þjóðarinnar.

Þegar ég hafði velt þessu fyrir mér nokkra hríð og þótzt sjá, hvernig málið væri í pottinn búið, fannst mér, að nauðsynlegt væri eða mjög æskilegt að fá sjálfstæðismennina til að játa opinberlega, að þannig væri þessu máli varið. Ég fór þá að hugleiða það, á hvern hátt væri unnt að neyða þá til að játa þetta, því að ég bjóst ekki við, að þeir mundu gera það af fúsum og frjálsum vilja. Þá kom mér í hug, að sonur minn ungur á leikfang, það er gúmmíkarl með flautu í öðrum enda og er kallaður ýlukarl. Til að ná réttu hljóði úr þessum ýlukarli kreistir drengur hann allharkalega, og þá fær hann hið rétta hljóð. Þess vegna datt mér í hug, hvort þetta væri ekki ráðið við hina pólitísku ýlukarla Sjálfstfl., að kreista þá dálítið myndarlega og vita, hvort ekki kæmi úr þeim hið rétta og sanna hljóð. Þess vegna var það, þegar þetta mál kom fyrst til umr. hér á þingi, að ég tók dálítið harkalega á hv. flutningsmönnum till. Og sjá, svo brá við, að þetta ráð hreif. Tveir af hv. þm. Sjálfstfl. þutu hér upp í ræðustólinn og játuðu berlega, svo að ekki varð um villzt, að þessi væri ástæðan fyrir flutningi þessarar till. Þeirra ástæða og tilgangur með því að flytja þessa till. væri sá og sá einn að fá milliliðina hreinsaða af öllum grun og öllu því, sem dróttað hefði verið að þeim með miklum rökum og sumpart sannað upp á þá í þjóðfélaginu til þessa. Játning hv. flm. kom fram m. a. í eftirfarandi ummælum, sem ég ætla að leyfa mér að lesa hér upp úr ræðum þeirra við þetta tækifæri, með leyfi hæstv. forseta. Hv. þm. N-Ísf. sagði í sinni ræðu svo orðrétt:

„Við (þ. e. sjálfstæðismenn) kunnum því náttúrlega frekar illa, að við, sem berjumst fyrir frjálsri verzlun og frjálsri samkeppni og þar með hagstæðri verzlun fyrir þjóðina, séum sí og æ brennimerktir sem flokkur milliliðanna og sá flokkur, sem fyrst og fremst vilji hjálpa einhverjum óheilbrigðum milliliðum til þess að raka saman fé á kostnað almennings.“

Öllu greinilegar er ekki hægt að játa það, að Sjálfstfl. vill losa sig við það eitt að vera brennimerktur sem flokkur óheilbrigðra milliliða. Hins vegar ef það gæti tekizt, ef það væri nokkur möguleiki á að sanna það með aðstoð Alþingis Íslendinga, að það væru engir óheilbrigðir milliliðir í þessu þjóðfélagi, sem rökuðu saman gróða á kostnað almennings, þá þætti Sjálfstfl. vitaskuld ekki eins vont að vera flokkur milliliðanna á eftir.

Þó var hv. 3. þm. Reykv. (BÓ) sennilega öllu skýrari í máli um þetta, og það kom öllu ljósar fram í hans ræðu, að tilgangur flm. með þessari till. sé sá einn að hreinsa milliliðina, með réttu eða röngu, af þeim áburði, sem þeir nú liggja undir í þjóðfélaginu. Hann segir fyrst, að hann álíti, að það sé ekki um neitt óhóf hjá milliliðum að ræða, og segir síðan, með leyfi hæstv. forseta, að „þá sé kveðinn niður sá rógur, sem nú heyrist svo að segja daglega í ræðu og riti, að milliliðagróðinn í landinu sé óhæfilegur. En það er einkennilegt, hvað framkoma þessarar till. hefur komið illa við suma af þeim mönnum, sem aldrei þreytast á að staglast á hinum óhemjulega milliliðagróða. Það er eins og þeir séu eitthvað hræddir um það, að rannsókn málsins, upplýsingar í málinu muni fletta ofan af fullyrðingum þeirra og svipta þá þessu rógsvopni, sem þeir nota dagsdaglega og telja sjálfsagt að bíti vel á andstæðingana. En þegar svo slík tillaga sem þessi kemur fram, þá snúast þeir öfugir við. Þeir vilja enga rannsókn láta fara fram vegna þess, að þeir vilja ekki láta upplýsa, hvort fullyrðingar þeirra eru sannar eða rangar. Ég er ekki hissa á þessu, því að ef slík nefnd sem þessi ynni vel sitt starf, sem ég vænti að þessi væntanlega nefnd geri, þá býst ég ekki við, að hátt verði risið á þessum mönnum um það leyti sem nefndin skilar áliti sínu.“

Þarna kemur alveg berlega í ljós, hvað þessi hv. þm. og þingmenn Sjálfstfl. ætlast til fyrir fram að komi út úr starfi nefndarinnar. Þeir ætlast til þess, að milliliðirnir séu hreinsaðir af öllum grun og jafnvel af því, sem þeir eru sannir að í dag, og allt málið, öll tillagan er við þetta eitt miðuð.

Það kom fram hjá báðum þessum hv. þm., hv. þm. N-Ísf. og hv. 3. þm. Reykv., að þeir töldu mig og andstæðinga stjórnarinnar ákaflega hrædda við þessa tillögu. Nú býst ég við því, að þeir hafi dregið þessa ályktun af þeim ummælum, sem ég t. d. hafði um till. sjálfa, nauðsyn hennar og eðli, og ég ætla þess vegna, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp þau ummæli, sem ég hafði um þetta atriði í minni ræðu. en þar segir svo:

„Ég skal taka kröftuglega undir það með hv. þm. N-Ísf„ að það er þörf á slíkri rannsókn sem hér er farið fram á, og það hefur lengi verið þörf á þessari rannsókn í íslenzku þjóðfélagi. Og ég vil benda á þá staðreynd, að Sjálfstfl. hefði um mörg undanfarin ár haft möguleika á því að fá þessa till. eða svipaða till. samþykkta hér á Alþ., ef hann hefði viljað það í einlægni og viljað búa þannig um hnútana, að öruggt væri, að rannsóknin færi fram ýtarlega og án undirhyggju.“

Þetta eru þá þau ummæli, sem hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins draga af þá ályktun, að ég sé hræddur við rannsókn á starfsemi milliliðanna. Því fer víðs fjarri, að svo sé. En það eru aðrir aðilar, sem virðast vera dálítið hræddir við rannsókn á þessu máli, og það eru flutningsmenn till. Þeir hafa nefnilega í sinni till. búið þannig um hnútana, að ef sú till. yrði samþykkt, þá yrði hér ekki um neina raunhæfa eða raunverulega rannsókn að ræða. Þetta yrði sýndarrannsókn til þess eins gerð að fullnægja þeim ásetningi, sem flm. hafa fyrir fram, að hreinsa milliliðina, hvítþvo þá og lýsa því yfir á eftir í krafti Alþingis Íslendinga, að þeir séu hreinir eins og englar af því að raka saman fé á kostnað almennings.

Ég vil svo til viðbótar við það, sem ég sagði síðast, þegar þetta mál var á dagskrá, benda á nokkur atriði, sem sanna þetta mjög ljóslega.

Hv. þm. N-Ísf. gerði grín að því, fannst mér, hér um daginn, eða vildi a. m. k. spotta mig talsvert mikið fyrir það, að ég hefði talið, að nokkrir mánuðir nægðu ekki til rannsóknar á þessu máli. Hann sagði, að ég gerði víst ráð fyrir. að þessi rannsókn þyrfti að taka 2–3 ár. Um það sagði ég ekkert. Mér datt ekki í hug að fullyrða nokkuð um það, hvað rannsóknin þyrfti að taka langan tíma. Hinu lýsti ég, og það er rétt, að ef rannsókn þessi ætti að vera samvizkusamlega framkvæmd og draga fram í dagsljósið það, sem henni væri ætlað að gera, þá væri ekki nokkur von til þess, að unnt væri að ljúka henni á fáeinum mánuðum. Ég býst við, enda tók ég það fram um daginn líka, að hv. þm. N-Ísf. skilji þetta og viti þetta. Hann er lögmaður að mennt, og hann veit það að mál, tiltölulega lítið mál borið saman við það, sem hér er um að ræða, mál eins og Blöndalsmálið svokallaða, þar sem tekið var til rannsóknar og athugunar eitt einasta fyrirtæki í þjóðfélaginu, getur tekið nokkra menn mánuði og jafnvel á annað ár að rannsaka. Hann veit það vel að í meðferð slíks máls hjá dómstólum er venja að vísa því til bókhaldsrannsóknar, sem svo er kölluð. Sú bókhaldsrannsókn fer fram hjá löggiltum endurskoðanda, sem hefur þrautþjálfað starfslið og þarf ekkert að horfa í kostnað við að hraða rannsókn, því að slík störf eru mjög vel borguð. En samt sem áður veit hv. þm. N-Ísf. eins og ég og aðrir, að þó að þessi rannsókn fari fram við öll hin æskilegustu skilyrði hvað snertir starfskrafta og það meira að segja þjálfaða starfskrafta, þá tekur hún samt sem áður marga mánuði, stundum á annað ár, og þó er það aðeins eitt lítið fyrirtæki, tiltölulega lítið a. m. k., borið saman við þá geysilegu rannsókn, sem hér er um að ræða.

Ég held þess vegna, að það geti allir menn séð og skilið, að rannsókn sem þessari þýðir ekki að ætla að sníða svo þröngan stakk, að henni eigi að vera lokið á nokkrum mánuðum. Hins vegar þýðir það alls ekki, að rannsóknin sé óframkvæmanleg, síður en svo. Þó að slíkri rannsókn sem hér er farið fram á væri ekki lokið fyrr en eftir 3–4 ár endanlega, eins og hv. þm. N-Ísf. stakk upp á, þá þýðir það ekki, að rannsóknin sé ekki framkvæmanleg og að það eigi ekki að ráðast í að framkvæma hana. Og það þýðir ekki heldur það, að hún geti ekki komið að nokkrum mánuðum liðnum að mjög verulegu gagni. Það er nefnilega hægt að haga rannsókninni þannig, að það sé tekinn fyrir hver einstakur þáttur út af fyrir sig og áliti og niðurstöðum skilað, um leið og sá þáttur er fullrannsakaður. Þannig væri hægt að hugsa sér, að maður gæti fengið álit frá nefndinni eftir einn mánuð eða tvo mánuði um einstök atriði, en hins vegar tekur ábyggilega mjög langan tíma að rannsaka allt það til hlítar, sem hér er um að ræða.

En það er ekki aðeins, að flutningsmenn vilji forðast að gefa n. nægilegt tóm til að vinna þetta verk, eins og þeir segja sjálfir að þeir ætlist til að það sé unnið. Þeir vilja ekki heldur gefa n. nokkra möguleika til að vinna verkið. N. eins og þessi þarf raunar miklu meira vald en hægt er að veita þingnefnd samkv. 39. gr. stjórnarskrárinnar. Nefnd, sem á að rannsaka mál eins og hér er um að ræða, nægir ekki einu sinni að geta krafið hvern þann aðila, sem hún vill, um skýrslur. Hún þarf líka að hafa vald eða aðgang að valdi, sem getur opnað fyrir henni hverja þá læsingu, hverjar þær dyr og hverja þá hirzlu, sem til þess þarf að sannprófa, hvort skýrslurnar séu réttar. Nefnd, sem ætti að rannsaka þátt milliliða í íslenzku atvinnulífi, þarf m. a. vald og fjárhagslega möguleika til að geta rannsakað starfsemi einokunarhringanna í útflutningsverzluninni, ekki aðeins hérlendis, heldur einnig erlendis, og það getur ekki nefnd, sem skipuð yrði samkv. tillögunni eins og hún liggur hér fyrir.

Ég held því, að það þurfi enginn maður að fara í grafgötur um það, hvað fyrir flutningsmönnum vakir. Þeir mæla að vísu fagurt í till. sinni, en hugsunin, sem á bak við er, er ekki jafnfögur. Þeir töluðu mikið um það, sérstaklega hv. 3. þm. Reykv., að ég alveg sérstaklega hefði haldið uppi rógi um milliliðina á undanförnum árum, og þeir fullyrtu það, báðir þessir hv. þm. Sjálfstfl., að ég væri einhver aðalforvígismaður í áróðri gegn milliliðum í þjóðfélaginu. Og þeir voru ekkert feimnir við að halda því fram, að allt það, sem ég hefði sagt um milliliði, og allt það, sem yfirleitt væri sagt gegn milliliðum, væri rógur. Þeir vissu það, án þess að nokkur rannsókn hefði farið fram samkv. till. þeirra. Náttúrlega hlýtur þá að vakna hjá manni sú spurning: Til hvers á þá að vera að rannsaka þetta, þegar þeir vita það, þessir menn, sem bera nú fram till., að það er allt rógur, sem sagt er um gróðastarfsemi milliliðanna? En sleppum því. Ég vil á það benda, að ég er ekki eini maðurinn í þessu þjóðfélagi, sem hefur haldið því fram, að milliliðir rökuðu saman gróða. Ég vil á það benda, að tvívegis hefur Morgunblaðið haldið því fram, að eitt nafngreint olíufélag hér á landi hafi fengið í hreinan gróða af einum þætti starfsemi sinnar 6–10 millj. kr. á ári. Nú vil ég spyrja hv. flm. þessarar tillögu: Var þetta rógur hjá Morgunblaðinu? Var þetta árás, illkvittnisleg, vísvitandi árás á milliliðina, algerlega tilhæfulaus ósannindi? Ég held, að þeir Mbl.-menn mundu ekki játa það, enda hef ég um það nokkra hugmynd, að Morgunblaðið fór þarna með staðreyndir. En þá vil ég spyrja: Er þetta hagkvæmt fyrir þjóðfélagið? Er ekki svona starfsemi það að raka saman gróða á kostnað almennings í þjóðfélaginu? Ef ekki, hvað er þetta þá? Og hvað eru þá ummæli svipaðs eðlis og ummæli Morgunblaðsins um ýmsa aðra aðila, sem nákvæmlega hliðstætt stendur á um, sem maður veit með nákvæmlega jafnmikilli vissu og í þessu tilfelli að hafa rakað saman gróða, kannske ekki svona miklum, en fyrr má nú líka rota en dauðrota?

Hv. þm. N-Ísf. talaði af dálitlu yfirlæti um það, að ég sagði fyrst, þegar þetta mál var hér til umr., að ekki hefði Sjálfstfl. ævinlega verið viljugur og ekki ævinlega fús til að láta rannsaka milliliðagróðann. Benti ég þá á frv., sem við þm. Þjóðvfl. fluttum hér á síðasta þingi um verðlagseftirlit og verðlagsákvarðanir, og sagði, að verðlagseftirlit væri í innsta eðli sínu rannsókn á milliliðastarfseminni, það væri rannsókn á því, hvað milliliðirnir tækju, og mat á því og dómur um það, hvað þeir þyrftu að taka. Þetta taldi hv. þm. N-Ísf. mestu fjarstæðu. Hann talaði mjög drýgindalega um það, að ekki hefði verðlagseftirlit á sínum tíma reynzt burðugt í þjóðfélaginu. Hann hélt því m. a. fram, að verðlagseftirlitið hefði skapað svartan markað. Nú er það náttúrlega víðs fjarri öllum staðreyndum. Verðlagseftirlit út af fyrir sig getur ekki skapað svartan markað. Svartur markaður skapast þá og því aðeins, að um skort á einhverri vöru sé að ræða, og í öðru lagi þá og því aðeins, að til séu einhverjir menn með slíku innræti, að þeir geti fært sér neyð fólks í nyt til að safna peningum, til að raka saman á því gróða. Og það var það, sem gert var, og það, sem gerðist á þeim tíma, sem hér var rekinn svartur markaður. Ég skal viðurkenna það með hv. þm. N-Ísf., að það átti sér stað svartur markaður á sama tíma og hér var haldið uppi verðlagseftirliti. En hverjir voru það, sem höfðu þetta innræti, hverjir voru það, sem notuðu sér skortinn, neyð fólksins, til að raka saman gróða? Vorum það við, sem erum að skamma milliliðina og höfum aldrei selt neinar vörur? Nei, það voru þeir, sem verzla með vörur. Það voru þeir, sem tóku þær úr búðunum sínum og fóru með þær upp í svefnherbergið sitt og seldu þær þar á þreföldu, fjórföldu, fimmföldu eða kannske á hundraðföldu verði. Það voru nákvæmlega sömu mennirnir og Sjálfstfl. berst nú fyrir að gefa algert frjálsræði um verðlag í landinu og treystir einum til þess að koma þannig fram við almenning, að það sé sómasamlegt. Það voru þessir menn, sem stunduðu svartan markað. Þess vegna ættu þingmenn Sjálfstfl. seinast af öllum mönnum að rifja þessa sorglegu staðreynd upp.

Það er að sjálfsögðu þýðingarlaust eða tilgangslaust að flytja langt mál um þá till., sem hér er til umr. Hún hefur verið skýrð með rökum. Hún hefur verið rakin upp, og það hafa verið skoðuð í henni lykkjuföllin og saumspretturnar og sá hugur, sem á bak við var, þegar hún var prjónuð. Hún ætti þess vegna að liggja algerlega ljóst fyrir öllum. Spurningin um afgreiðslu hennar, hvort fást fram á henni þær breytingar, sem nauðsynlegar eru, til þess að rannsókn fari fram á milliliðagróðanum í þjóðfélaginu, er háð vilja og innræti, vil ég leyfa mér að segja, hv. þingmanna. Og við getum vel beðið með að sjá, hvernig því máli vindur fram.

Ég ætla loks að hreyfa hér aðeins einu atriði, sem fram kom í ræðu hv. 3. þm. Reykv. um daginn og ég sá strax og skildi að átti að vera þyngstu rökin hjá Sjálfstfl. í því að halda fram, að milliliðirnir væru, eins og þessi hv. þm. sagði, þörfustu aðilar þjóðfélagsins og að þeir væru, eins og hæstv. dómsmrh. sagði, þeir aðilarnir, sem hefðu, að mönnum skildist, skapað allan auð þessa þjóðfélags. En þetta atriði, þessi rök hv. 3. þm. Reykv. voru á þá leið, að ekki væri mikil hætta á því, að almenningur léti misbjóða sér í þessum efnum, að hann léti taka af sér hærra verð fyrir vöru en nauðsynlegt og eðlilegt væri, t. d. útvegsmenn úti um allt land gætu sjálfir pantað sínar vörur frá erlendum framleiðanda og þeir hefðu sín samtök til að flytja inn.

Nú skal ég viðurkenna það, að ef unnt væri að líta svona á málið, þá breytti það að sjálfsögðu mjög miklu. En það væri freistandi að leggja þá spurningu fyrir hv. 3. þm. Reykv. sem eins konar gáfnapróf, hvernig á því stæði, að þessi kenning væri ekki rétt og hefði ekki við rök að styðjast. Veit ég það vel, að hv. 3. þm. Reykv. gæti leyst þetta próf með ágætum, en hitt tel ég ekki sennilegt, að hann kærði sig um það. Það er nefnilega víðs fjarri öllum sanni, að almenningur í þessu landi, þ. á m. útvegsmenn úti um allt land, geti pantað vörur sínar sjálfir eins og þeim sýnist. Og það ber margt til, að þeir geta það ekki. Í fyrsta lagi hafa innflytjendur hér á landi náð í mjög mörgum greinum einkaumboðum fyrir þau firmu, sem við skiptum við erlendis. Menn úti á landi, t. d. smáútvegsmenn, bátaeigendur, trillubátaeigendur, mótorbátaeigendur, skortir allar upplýsingar um það, hvar þeir geta borið niður erlendis, ef þeir ætla að fara að panta vöruna sjálfir. Þá skortir líka málakunnáttu til að geta gert þetta. Þá skortir einnig nálægð við peningastofnun til að geta sett tryggingu fyrir vöru, um leið og hún er pöntuð. Þá skortir einnig þekkingu og upplýsingar um skipaferðir og möguleika á því að koma vörunni í skip. Hvernig ætli t. d. gengi, ef einhver trillubátaeigandi úti á landi segði sem svo: Nú nota ég 50 tonn af olíu yfir árið, og ég nota 200–300 kg af smurningsolíu. Ég veit, að ég get fengið þessa vöru ódýrari, ef ég panta hana sjálfur? — Hvernig ætli honum gengi að panta þessa olíu sjálfur? Það þarf ekki að spyrja. Það vita allir, að hann gæti það ekki. Hann fengi í fyrsta lagi engan til að selja sér hana, hann fengi í öðru lagi ekkert skip til að flytja þennan smáslatta fyrir sig, og hann fengi engan banka til að anza því að opna tryggingu fyrir svona smáræði. Honum mundi verða vísað á olíufélögin, þau flyttu inn nægilega olíu og hann geti fengið hana þar. Og svo mundi fara um fleiri vörur.

Hv. 3. þm. Reykv. hélt því einnig fram hér um daginn, að útvegsmenn hefðu samtök til að panta fyrir sig ýmsar vörur og varan væri þar alls ekkert ódýrari en hjá öðrum, sem verzluðu með þær. Það vill svo vel til, að ég hef þurft á því að halda að kaupa svolítið af þessum vörum og keypti þær bæði hjá Landssambandi íslenzkra útvegsmanna og líka hjá verzlunarfyrirtæki hérna í bænum, og ég veit þess vegna svolítið um það, hvernig verðlagið var. Og ég ætla þá að greina frá því, að verðið hjá Landssambandi íslenzkra útvegsmanna á þessum smávörum til útgerðar, sem ég þurfti á að halda, var yfirleitt 30–40% lægra en í verzlunum með sams konar vörur hérna í bænum. Á því geta menn séð starfsemi milliliðanna svolítið. En það er kannske gott að koma hér upp í þingsalinn, haldandi þingmenn svo fáfróða, að þeir viti ekkert um þessi mál, og fullyrða bara, að það sé enginn mismunur á verði. Það getur verið þægilegt, en það er ekki viturlegt.

Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri. Ég gat þess um daginn, þegar þetta mál var fyrst til umr., að ég mundi síðar beita mér fyrir því að flytja brtt. við þetta mál. Hv. þm. N-Ísf. dró mjög í efa, skildist mér, að ég mundi gera það, og spurði mig með talsverðri fordild, hvers vegna ég gerði það ekki. Ég vil því taka það fram aftur, að ég mun gera það. Mér þykir eðlilegt og sjálfsagt, að till. eins og þessi nái fram að ganga, þegar hún er komin fram, ég tel það sjálfsagt og nauðsynlegt og mjög æskilegt, en aðeins í því formi, sem gefur manni nokkurt öryggi um, að þessi rannsókn verði framkvæmd af samvizkusemi og eins ýtarlega og nokkur kostur er á.