02.12.1955
Sameinað þing: 19. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 193 í D-deild Alþingistíðinda. (2402)

79. mál, milliliðagróði

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Mér sýnist Sjálfstfl. vera farinn að gefa sig yfirleitt í þessu máli. Mér sýnast forsvarsmennirnir þagnaðir, og um það, sem talað er af hálfu Sjálfstfl., eins og af hv. þm. Barð., sem hér talaði síðast, megi segja: heggur sá, er hlífa skyldi — því að hann kom með af sinni miklu þekkingu mörg ágæt dæmi því til sönnunar, hvers konar milliliðastarfsemi nú er rekin í þjóðfélaginu. Mér þykir í fyrsta lagi vænt um það, sem hv. þm. Barð. sagði viðvíkjandi milliliðakostnaði í byggingariðnaði og að honum fyndist það þurfa að koma inn í þessa till. Sjálfstfl. Það er sem sé auðséð, að sjálfstæðismennirnir, sem hafa lagt þetta fyrir upphaflega, hafa ekki hugsað sér, að þessi hlutur kæmi þarna inn í, milliliðakostnaðurinn í byggingariðnaðinum. Þó þykist ég vita, að hv. þm. Barð. sé þeim hnútum kunnugur, þannig að hann viti nokkurn veginn, hvað þeir hafa hugsað með till. Ég gekk út frá því í þeirri ræðu, sem ég hélt um þetta mál, að það væri sjálfsagður hlutur, að þetta ætti að koma hér inn í, því að auðvitað er þetta ekki aðeins einn þáttur í framleiðslukostnaði þjóðarinnar, vegna þess að það að byggja hús er framleiðsla, heldur er þetta líka þannig, eins og ég tók mjög ýtarlega fram í sambandi við mína skilgreiningu, að sú n., sem færi yfirleitt að athuga þessi mál, yrði að rannsaka alla gróðamyndun í þjóðfélaginu og hún yrði að rannsaka líka alla þá gróðamyndun, sem síðar kemur fram sem kröfur til verkamannanna um aukna húsaleigu og annað slíkt. Ég vil þess vegna lýsa ánægju minni yfir því, að hv. þm. Barð. hefur talið sjálfsagt að rannsaka þetta, og ég býst við, að svo muni verða með flesta þá hluti, sem ég hélt fram, þegar ég talaði um þetta, að þyrfti að bæta við og gera þessa till. miklu ýtarlegri, ef hún ætti að verða til gagns.

Í öðru lagi vék hv. þm. Barð. að því, að það yrði að tryggja, að þessi nefnd hefði vald til rannsóknar, það hefði hún ekki, eins og till. nú væri orðuð. Það var mjög eftirtektarvert, að hann skyldi lýsa því yfir. Hann einmitt sem forseti Ed. er gagnkunnugur þessum málum og þykir þess vegna, að þeir þm. Sjálfstfl., sem flutt hafa þetta mál, hafi farið hér heldur á hundavaði og auðsjáanlega með till. ekki ætlazt til þess, að viðkomandi nefnd yrði gefið verulegt vald til rannsóknar, og er þetta alveg rétt hjá honum. Hann benti hins vegar á, að að nokkru leyti mundi verðgæzlustjóri hafa ýmislegt vald í þessum efnum. En eins og ég veit að hv. þm. Barð. mun athuga, þegar hann fer að rannsaka þetta, þá nær það því miður tiltölulega skammt. Hann hefur sem sé engan veginn fullt vald til að heimta skýrslur af öllum mögulegum mönnum og rannsaka þá gróðamyndun, sem yfirleitt hefur farið fram í þjóðfélaginu á undanförnum árum, þannig að ekki mundi það vald, sem verðgæzlustjóra var gefið, nægja svona nefnd, svo að það er alveg tvímælalaust nauðsynlegt, að svona nefnd hafi sitt mikla vald, eins og hv. þm. Barð. tók fram, til að láta ýtarlegri rannsóknir fara fram.

Ég gat þess í því, sem ég sagði um þetta mál, að það mundi vera að öllum líkindum óhjákvæmilegt, að það færi fram í þjóðfélaginu í sambandi við þetta eignakönnun, sem sé könnun á því, hvar eignirnar, sem safnazt hafa síðan eignakönnunin fór fram 1947, hafi lent. Það er viðurkennt, að það hefur farið fram gífurleg auðsöfnun í þjóðfélaginu síðan. Hvar liggur þessi auður? Hverjir eru það, sem hafa grætt? Hverjir eru það, sem hafa safnað elgnum? Það er augljóst, að það kemur skýrast fram með því að láta fara fram eignakönnun að nýju. Við skulum bara taka sem dæmi þann mikla skipaflota, sem kominn er inn til flutnings síðan 1947. Hvernig er með eignina á þeim skipaflota? Hvernig er með afskriftirnar á honum? Hvernig er með auðsöfnunina í því sambandi? Ég efast ekki um, að þessir hlutir fengjust bezt upplýstir með raunverulegri eignakönnun á þessu sviði. Alveg sama máli gegnir um húseignirnar. Það er farið að verða svo nú, að það eru jafnvel byggðar heilar „blokkbyggingar“, eins og það er kallað á slæmu máli í Reykjavík, sem einstakir menn eiga og einstakir menn leigja út allar saman eins og þær leggja sig, jafnvel einstakir menn, sem lengi hafa verið trúnaðarmenn ríkisins. Það er engum efa bundið, að það er alveg sérstök nauðsyn á því, að látin sé fara fram eignakönnun í þessu sambandi. Það hefur verið sagt, að framleiðslan bæri ekki hitt og þetta, þjóðarbúskapurinn bæri ekki hitt og þetta, þegar verkamenn hafa verið að krefjast hærri launa. Við skulum þá ganga úr skugga um það. Það voru lagðar fyrir hér alveg greinilega skýrslur í sambandi við verkföllin s. l. vor, þar sem það kom fram, að miðað við verðlagsvísitölu höfðu verkamenn s. l. vor um 20% lægra kaup, og var þá húsaleiga ekki með reiknuð, heldur en þeir höfðu 1947. Hafa eignirnar safnazt hjá verkamönnum á þessum tíma? Hafa þeir gert svo óhóflegar kröfur til framleiðslunnar, að eignirnar hafi safnazt hjá þeim? Eða hafa þær safnazt annars staðar og þá hjá hverjum? Hver er það, sem vill standa á móti því, að þetta sé rannsakað? Ég býst við, að það sé rétt, að það þyrfti ekki bara að setja heimild um slíkt inn í þessa þáltill., sem hér á að skera algerlega úr um það, þannig að oftar þarf ekki um það að deila á Íslandi, hvar gróði safnast og hvar gróði er. Ég býst við, að það mundi ekki vera nóg. Ég býst við, að Sjálfstfl. muni vera því strengilega fylgjandi, að það verði þá um leið sett hér í þinginu lög um eignakönnun, sem þessi nefnd, sem samkv. þessari þáltill. verði sett, fái heimild til þess að framkvæma. Ég mun gera ráðstafanir til þess, að í sambandi við endanlega afgreiðslu á þessari till. fáist úr því skorið, hvort slíkt er vilji þeirra manna, sem hafa nú frýjað öðrum hugar um, hvort þeir þora að láta rannsaka málið til hlítar.

Svo kom hv. þm. Barð. inn á hlutverk milliliða og minntist á, að það gæti verið mjög þarft. Vil ég nú aðeins endurtaka það, sem ég sagði áður í alllangri ræðu, þar sem ég reyndi að gera grein fyrir þessu, að í þeirri merkingu, sem hann notaði það orð, þ. e. tæknilega séð, þá er hlutverk þeirra, sem í alþýðumunni eru kallaðir milliliðir, þarft. Ef við köllum skipin, ef við köllum flutningana á vörunni, frá því að hún yfirgefur hráefnisframleiðandann og þangað til neytandinn kaupir hana við búðarborðið, ef við köllum alla þá, sem þarna koma á milli, jafnt þá, sem sjá um framskipun vörunnar, sjá um að flytja hana með skipi, sjá um að koma henni upp í annarri höfn, sjá um að annast alla þá hluti, sem þarf í yfirbyggingu þjóðfélagsins, til þess að allur þessi rekstur geti átt sér stað, ef við köllum þetta allt milliliði, þá er ekki nokkur efi á því, að tæknilega séð er starf þessara milliliða þarft. Það er þarna aðeins um verkaskiptingu að ræða hjá borgurum þjóðfélagsins. Hins vegar er það þjóðhagslega óþarft, að þeir, sem ráða fjármagni í slíkri tæknilegri milliliðastarfsemi, raki saman gróða á slíku verki í staðinn fyrir að vinna það í þjóðarþágu. Og það er alveg sérstaklega óþarfi, að þeir, sem hafa að einhverju leyti með stjórn, völd eða eign í sambandi við slíka verkaskiptingu að gera, raki saman slíkum gróða eða reyni með slíkri áfergju að skapa sér gróða, að þeir drepi framleiðslu þjóðfélagsins undir sér, á meðan þeir eru að því, eins og nú gerist. Þeir, sem drottna yfir milliliðastarfsemi, þeir, sem hafa hagnaðinn af verkaskiptingu þjóðfélagsins í heild, setjast með slíkum ofurþunga á sjálfa framleiðsluna, að hún brestur, og það eru slíkir vábrestir í henni allan tímann, að það er yfirleitt vart annað vandamál meira í þjóðfélaginu en hvernig eigi að halda þessari framleiðslu gangandi sökum þess, hvernig þessir þjóðhagslega óþörfu milliliðir, en tæknilega þarfir, raka til sín slíkum gróða af framleiðslunni, að henni er ekkert eftir skilið til þess að bera sig. Þetta er hluturinn, sem við verðum að rannsaka alveg til hlítar.

Hv. þm. Barð., sem er kunnugur þessum málum, kom einmitt hér með eitt dæmi um milliliðastarfsemi og hvernig þarna væri farið að. Hann nefndi dæmi um, að einn ákveðinn, duglegur maður, sem stæði í þessari tæknilegu vinnu, hefði getað útvegað erlendis fyrir ákveðna vöru 18 sterlingspund, hann hefði hugsað sér að taka sjálfur af því að vísu 6 pund, en samt sem áður getað borgað framleiðandanum 12 pund, en framleiðandinn hafði fram að því aðeins fengið 9 pund fyrir þetta. Hvers vegna hafði framleiðandinn fengið aðeins 9 pund fyrir þetta? Hverjir eru það, sem valda því? Hvar eru þau lög, sem banna þessum framleiðanda að selja vörur sínar út úr landinu? Jú, það eru lög frá 12. febr. 1940, sem gefa ríkisstj. einkaleyfi til þess að ráða, hvaða vörur séu fluttar út úr landinu og með hvaða verði, — lög, sem ég hef oftar en einu sinni lagt til hér á Alþ, að afnema, og lög, sem Sjálfstfl. hefur staðið vörð um. Af hverju stendur ríkisstj. svona vörð um einokunina í þessum efnum? Af því að ríkisstj. er verkfæri og handbendi þeirra, sem græða á milliliðamennskunni í þjóðfélaginu. Og þetta minnir mig á dæmi, sem ég hef nefnt hér áður um þessi efni. Ég er því miður ekki svo sérstaklega kunnugur í þessum málum nú, en þegar kunnugur maður eins og hv. þm. Barð. tilgreinir dæmi, þá rifjast upp það, sem gerðist í gamla daga í þessum efnum. Þá var það svo til dæmis, að allt í einu fengu einu sinni fiskimenn í Vestmannaeyjum tilboð frá einum ítölskum fiskkaupmanni um að selja sinn fisk á allgóðu verði og allmiklu hærra verði en fiskkaupendurnir á Íslandi höfðu borgað fram að því, en fiskkaupendurnir á Íslandi voru þá aðallega Kveldúlfur og Alliance, sem þá höfðu myndað með sér fiskhring, Sölusamband ísl. fiskframleiðenda, og með löggjöf, sem Ólafur Thors setti sem atvmrh. 1932, fengið einkasölu ríkisins fyrir þennan sinn hring. Fiskimenn í Vestmannaeyjum fengu tilboð um hærra verð en þessi íslenzki fiskhringur, sem sagt var að hefði verið settur til þess að hjálpa þeim, vildi gefa þeim. Hvað var þá gert? Fengu þá fiskimenn í Vestmannaeyjum að selja á þessu hærra verði? Nei, þeir fengu ekki að selja á þessu hærra verði, ekki frekar en maðurinn, sem hv. þm. Barð. sagði söguna af núna? Hvað var gert? Jú, það, sem var gert, var, að fulltrúi fiskhringsins fór suður til Ítalíu og samdi við fiskkaupandann, sem hafði boðið fiskimönnunum í Vestmannaeyjum hærra verð fyrir fiskinn þeirra en íslenzki fiskhringurinn hafði boðið þeim, um það að bjóða aldrei framar í fisk frá Íslandi, til þess að það væri ekki verið að hækka fiskinn fyrir þessum ótætis íslenzku fiskimönnum, sem væru svo frekir á verstu krepputímum að vilja fá hærra verð fyrir fiskinn en Kveldúlfur og Alliance vildu gefa þeim. Ég sé m. ö. o., að þegar kunnugir menn tala í þessum efnum, þá er enn þá sama ástandið og var fyrir meira en 20 árum, þegar einokunin var að byrja í þessum efnum. Svo spyr hv. þm. Barð, alveg réttilega: Hver hefur tapað? — þegar einokunarríkisstj., sem hann styður, var búin að tefja málið nógu lengi, þannig að maðurinn gat ekki lengur selt vöruna sína á betra verði. Hver hefur tapað? Jú, landið hafði tapað. Það var alveg sama og þegar Vestmannaeyjafiskimennirnir gátu selt fiskinn sinn á hærra verði og það var hindrað með samningum íslenzka einokunarhringsins í skjóli íslenzku ríkisstj. við útlenda fiskkaupmanninn. Landið hafði tapað.

Þarna höfum við dæmi um slæmu milliliðina, um ríkisstj. í þjónustu einokunarhringa. Og hver er það, sem gefur ríkisstj. þetta vald, sem hún getur misnotað svona? Það er hv. Alþingi, það eru meirihlutaflokkarnir hér á Alþingi.

Svo var auðséð, að hv. þm. Barð., sem þekkir vel til í þessum málum, þekkir fleiri dæmi en þetta eina. Hann þekkti auðsjáanlega dæmi um, að S. Í. F., að Sölumiðstöð ísl. hraðfrystihúsa og jafnvel S. Í. S. hefðu kannske verið send tilboð um hærra verð en þau gefa íslenzkum framleiðendum fyrir t. d. frystan fisk og ekki sinnt því. Hann talaði um, að þeir þægju ekki nokkurt tilboð, og ég býst ekkl við, að hann talaði þannig, nema hann víssi til þess, að þeim hefðu verið gerð betri tilboð en þau gera íslenzkum fiskframleiðendum. Og hann lét í veðri vaka, að það væri ekki bara á þessu sviði, sem ástandið væri svona slæmt, þetta væri svona líka með lýsið, þar væri þetta alveg sama, þar væri líka haegt að fá betra verð, en ekki væri hugsað um það. Hann virtist yfirleitt gera ráð fyrir því, að það væru eiginlega allar íslenzku útflutningsvörurnar, sem væru svona bundnar, það væri þá kannske helzt fiskimjölið, sagði hann. Ég skal þá bæta því við, að mér er kunnugt um, að það er hægt að selja fiskimjölið á miklu hærra verði en það nú er selt, en fæst ekki selt þangað. Þannig er alveg víst, að þau lög, sem ég hef nú nokkrum sinnum lagt til að væru afnumin hér á Alþ., á meðan hæst hvein í stjórnarflokkunum um frjálsa verzlun, lögin, sem gefa ríkisstj. sem handbendi einokunarhringanna einkaleyfi á því, hvaða vörur séu fluttar út úr landinu, með hvaða skilmálum og á hvaða verði, að í krafti þessara laga er sem sé rekin óhæfileg einokunarstarfsemi og fjöldi af íslenzkum framleiðendum, samkv. upplýsingum kunnugra manna, sviptur þeim möguleika, sem þeir ella hefðu, ef þarna ríkti að einhverju leyti frjáls samkeppni, til þess að geta fengið sæmilegt verð fyrir sína vöru og betra verð en þeir fá nú. Allar þessar upplýsingar sýna okkur, hve gífurlega nauðsynlegt það er, að sú rannsóknarnefnd, sem sett verður með fullu valdi í þetta af hálfu Alþ., taki fyrir útflutningsframleiðsluna, taki fyrir rannsókn á öllu atferli þeirra aðila í ríkisstj., sem hafa haft með að gera leyfi til útflutnings á undanförnum árum, til þess að það þá m, a. komi í ljós, eins og þarna virðist þegar liggja fyrir, að það hefur verið spilað út úr höndum Íslendinga möguleikum til þess að fá hærra verð fyrir þeirra vörur.

Svo upplýsir hv. þm. Barð., að nú sé svo komið, að á fjórða hundrað millj. kr. andvirði af vörum, ef ég skildi rétt, liggi í landinu, sumpart kannske óselt, sumpart kannske selt. Mér vitanlega hefur þó verið auðveldur hlutur að selja alla þá framleiðslu, sem framleidd hefur verið á Íslandi. Hins vegar hef ég alltaf orðið var við það, í hvert einasta skipti sem ég hef eitthvað komið nærri þeim málum, að það væri tregða á því að fá að selja nokkra framleiðslu frá Íslandi. En er nú jafnvel ekki einn hlutur, sem gerir erfiðara með og veldur því, að það skuli liggja svona mikið af vörum hérna? Er ekki jafnvel af þessu ýmislegt, sem hefði verið hægt að vera búið að selja, en hefur ekki fengizt flutt út úr landinu og það þó að við Íslendingar hefðum skipakost til þess? Ég veit, að þegar á nýsköpunarárunum voru gerðar ráðstafanir til þess að kaupa Eimskipafélagsskipin og kæliskipin, þá reiknuðum við með því, að þau skip ættu að geta flutt 90 þúsund tonn af hraðfrystum fiski, ef þau væru fullnotuð, og við höfum þó enn ekki komizt verulega upp fyrir 50 þúsund tonn í ársframleiðslu.

Ég er hræddur um, að það eigi sér stað alveg ægileg misnotkun á okkar skipaflota, misnotkun, sem stendur í sambandi við það, að skip með miklu frystifarmrými séu látin fara til Ameríku tóm til þess að sækja þangað m. a. skran eða bíla, svo og svo mikið af óþarfa, sem flutt er hingað heim, en á sama tíma fáist ekki sömu skip til þess að flytja okkar útflutningsvöru til Evrópu. Ég er hræddur um, að þessi algerlega vitlausa ráðstöfun, sem gerð hefur verið viðvíkjandi okkar verzlunarháttum á undanförnum árum, baki okkur stórtjón hvað snertir hagnýtingu okkar skipaflota, sem sé, að á tveimur árum er óhagstæður verzlunarjöfnuður okkar við Bandaríkin hátt á þriðja hundrað millj. kr., en samt sem áður haldið áfram með þessu svokallaða frjálsa fyrirkomulagi að beina þangað innkaupum í stórum stíl, sem hægt var að vinna að í Evrópu, og hætt að flytja vörur frá Evrópu í skipum, sem færu full þangað út og kæmu full þaðan heim. Í staðinn er þetta farmrými notað þannig, að skipin sigla meira eða minna tóm til Ameríku, en koma full, oft og tíðum með bíla á þilfari, heim aftur.

Ég held þess vegna, að það gefi okkur enn einu sinni tækifæri til að taka til athugunar, hvort Alþ. eigi áfram að gefa ríkisstj. það vald, sem hún hefur og sett var með lögum á miðjum stríðsárunum, þegar neyðarástand var ríkjandi í þessum efnum, lögunum frá 12. febr. 1940, hvort það eigi að halda áfram að gefa ríkisstj. þetta vald, það sé eitt af því, sem þarf að athuga, þegar þessi mál verða tekin til athugunar. Og af því að verið er nú að ræða um gróðann í ýmsum þessum efnum, þá vil ég aðeins minna á, að ég hélt því fram ómótmælt í vor, að eitt skip hefði í einni ferð til Ameríku tekið 1 millj. kr. gróða á flutningunum, og lagði fram rök fyrir því, sem ekki var mótmælt.

Hér áðan var spurt af hv. 8. landsk. þm. (BergS): Er það rétt, að það hafi verið 6–10 millj. kr. gróði á einum þætti í starfsemi eins olíuhrings á einu ári? Og hann studdist meira að segja við sjálft Morgunblaðið, sem er þó ekki vant að hafa mikið fyrir því að afhjúpa gróðann og hefur kannske ekki beinlínis verið að afhjúpa hann þar, sem hann var mestur. Ég hef margoft upplýst það, að einn banki græddi á einu ári 30–40 millj. kr. á viðskiptunum við landsmenn, og ég hef upplýst það hér, án þess að því hafi verið mótmælt, að það hefði verið tekinn 6 millj. kr. vaxtagróði af hálfu okrara á einu fyrirtæki, einum skuldunaut á einu ári og sá skuldunautur þar með drepinn. Og ég heyri, að hv. þm. Barð. segir, að þetta sé sjálfsmorð, að hann eigi það skilið. En ég vil einmitt vekja athygli á þessu rétta hjá honum í því, að alþýðan á Íslandi er ekki á því að fremja sjálfsmorð fyrir okrara landsins, hún er ekki á því að láta drepa sig, hún er ekki á því að láta auðvald þessa lands rýja sig þannig inn að skinninu, að hún hafi ekkert eftir. Hún er búin að búa við það í 7 ár, og hún hefur lægri kjör nú en hún hafði 1947, og í hvert skipti, sem hún hefur hreyft sig til þess að taka eitthvað aftur af ránsfengnum, þá hefur kveðið við hér í sölum Alþ., að hún væri að drepa þjóðfélagið. Mér þykir vænt um þessa yfirlýsingu, þótt hún væri svona bak við tjöldin, frá hv. þm. Barð., og ég skil, að hann ber virðingu fyrir þeim mönnum, sem ekki láta drepa sig svona. Hann ber virðingu fyrir þeim verkamönnum, sem rísa upp og slá í borðið og segja við okrara þjóðfélagsins: Nei, góði minn, hingað og ekki lengra. Nú ertu búinn að ræna mig í sjö ár, og nú geturðu séð, hverjir það eru, sem skapa gróðann í þjóðfélaginu, nú stöðvum við allt.