07.12.1955
Sameinað þing: 20. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 199 í D-deild Alþingistíðinda. (2404)

79. mál, milliliðagróði

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég hef því miður ekki getað verið við, þegar þetta mál hefur verið rætt hérna. Má þess vegna vera, að ég endurtaki eitthvað, sem ég mundi kannske ekki hafa gert, ef ég hefði verið hér staddur undir þessum umræðum.

Muni ég rétt, var fyrir nokkru rannsakað, hver munur væri á innkaupsverði vara hér á landi og útsöluverði, og mig minnir, að þá kæmi út þrjú hundruð tuttugu og eitthvað, ég held fjórar eða sjö milljónir króna, og mér skildist þá, að ýmsir vildu túlka þetta svo, að þetta væri allt milliliðagróði. Það held ég að hafi ekki verið rétt. Ég held, að í þessu hafi verið þó nokkuð af beinum útlögðum kostnaði, sem milliliðirnir tóku ekki í sinn vasa. Þegar maður hins vegar vill líta á, hver kostnaður er við dreifingu vara hér á landi, þá liggja fyrir nokkur góð gögn í því, sem þó þarf að áætla dálítið inn í, en ekki nema dálítið.

Það liggja fyrir nákvæmar skýrslur um það frá árinu 1950, hve margir menn lifðu á verzlun, höfðu engar aðrar tekjur en af því að verzla. Og þá er ekki eftir annað en áætla, hvað þessir menn þurftu hver um sig mikið til að lifa af. Komust þeir af með venjulegan skattaframtalsfrádrátt, 6–7 þúsund kr. hver þeirra, sér til framfæris, fyrir mat, húsnæði, föt og bíó og í hvað sem þeir hafa nú eytt? Þurftu þeir 10 þús. kr., eða þurftu þeir 15 þús. kr.? Hvað þurfti hver þeirra á ári sér til framfæris? Þetta liggur ekki bara fyrir hvað landsheildina snertir, þetta liggur líka fyrir um hverja einstaka sýslu, svo að við getum ósköp vel séð með því að taka þarna einhverjar áætlaðar tölur, hvernig þetta hefur komið út, og þar er um að ræða hreinan milliliðagróða, þar er um það að ræða, hvað mennirnir þurfa af tekjum sér til lífsframfæris. Það er hrein álagning á verzlunina, og hún er því minni, því færri sem þurfa að dreifingunni að vinna.

Það var svo þá, þegar tekið var allt landið, að það voru 9.1% af allri þjóðinni, sem lifði á því að verzla við hina. Níu og einn tíundi úr manni voru framfærðir á að verzla við hina 91.9%. Það lifði einn maður á að verzla við hverja tíu hér um bíl. Það var það, sem þeir gerðu. Hvað hafa þeir þá þurft að hafa miklar tekjur? Komust þeir af með 10 þús. hver, svo að þeir þyrftu að leggja þúsund krónur á hvern mann, sem þeir verzluðu við, láta hann borga sér 1 þús. kr. af sínu kaupi, eða komust þeir ekki af nema með 15 þús., svo að þeir þyrftu að leggja 1500 kr. á hvern mann, sem þeir verzluðu við? Hvað var það mikið? Það er tala, sem sjálfsagt er hægt að koma sér nokkuð saman um, hvað hver einstakur af þessum mönnum, sem lifðu á því að verzla, hefur þurft mikið fyrir sig að leggja. Það er eina talan, sem þarf að áætla. En þetta var ákaflega misjafnt í sýslunum. Í Reykjavík lifðu nærri 14% íbúanna. á því að verzla, en þeir verzla náttúrlega í heildsölu líka út um landið, svo að það kemur ekki allt á Reykvíkinga. En í þeim sýslum, þar sem þeir voru fæstir, komst það niður í kringum tæp 2%. Og það voru sýslur, sem eru alveg hreinar og verzla sama sem ekkert út fyrir sýsluna. Það er þess vegna ósköp gott að afla sér upplýsinga um það, nokkurn veginn réttra, hvað margir menn lifa af því að verzla við hina sýslubúana og hvað mikið þarf að leggja á hvern einstakan mann, til þess að þeir hafi nóg. Í Norður-Múlasýslunni t. d. eru það milli 2 og 3%, sem lifa á því að verzla við hina, o. s. frv. Um þetta liggja fyrir opinberar skýrslur, og ef hv. alþm., sem flytja till., vilja reyna að athuga þær og koma sér saman um, hvað hver verzlunarmaður þurfi mikið fyrir sig að leggja, þá hafa þeir fundið út töluna fyrir hvert einasta þingmannskjördæmi á landinu, þó með þeirri undantekningu, að heildverzlunin hérna í Reykjavík dreifist út um landið eitthvað og þó misjafnlega.

Ef á að fara út í þessa nefndarskipun, sem er ekki nema allt gott um að segja, gott, að komi fram raunverulega, hver milliliðagróðinn er, hvað þetta sé, — þó að ég telji, að það megi átta sig nokkurn veginn ljóslega á þessum skýrslum, sem til eru og ég hef minnzt á, þá hugsa ég, að það sé gersamlega ónóg að orða till. eins og hún er. Nefnd, sem á að rannsaka þetta, þarf að fá miklu meira vald en að geta krafið menn til sagna, því að það að krefja menn til sagna, fá frá mönnum skýrslu reynist oft miður vel. Það þekki ég mætavel, að slíkar skýrslur reynast miður ábyggilegar. Ég held þess vegna, að nefndin þurfi að fá vald til þess beinlínis að rannsaka og skoða bókhald manna og annað þess konar, ef hún á að gera nokkurt gagn, og það er ákaflega langsótt verk að gera það, það er enginn vafi á því.

Ég gæti sagt margar sögur um það, hvað lítið er að marka skýrslur manna. Ég gæti nefnt það, að fyrir nokkrum árum var grunsamlegt framtal hjá manni úti á landi. Yfirskattanefnd í viðkomandi sýslu hafði hækkað hann, og okkur þótti það enn grunsamlega lágt og skrifuðum honum, fengum skýrslu, en hækkuðum hann samt, þóttumst vera komnir með hann anzi hátt og vorum með hálfgert samvizkubit yfir því, að líklega hefðum við nú áætlað honum of hátt. Ég man, að við vorum komnir með hann í 140 þús. kr. í skattskyldum tekjum. Svo liðu tvö ár. Þá atvikaðist það þannig, að nauðsynlegt var að senda mann til að kanna bókhald hjá öðrum manni í sömu sýslu, sem var bókhaldsskyldur og sýnilega var eitthvað mjög bogið við, hvað og reyndist. Þá var hann beðinn að endurskoða hjá þessum manni líka. Þá lágu fyrir gögnin, sem hann hafði gefið skattanefndunum. En þegar allt var skoðað, voru tekjurnar 387 þús. kr., og enn var skattur hækkaður og bætt við skattsektum.

Þess vegna held ég, að það sé ákaflega lítið að hafa upp úr því, þó að það séu heimtaðar skýrslur. Nefndin verður að hafa fullkomið vald til að skoða og rannsaka málið niður í kjölinn, og slíkt vald verður Alþingi að gefa henni. Ég er meira að segja hræddur um, að þeir, sem flytja þessa till., hafi vitandi víts sett till. fram eins og hún er til þess að láta rannsóknina aldrei verða annað en kák, því að hún verður aldrei annað en kák, ef á að framkvæma hana eftir till. Og ég treysti því, að sú nefnd, sem fær þetta mál til athugunar, lagi þetta og gefi þessari nefnd, sem væntanlega verður skipuð, nægilegt vald, þó að hún verði lengi að starfa, það eru sumar aðrar nefndir. Hvað er jafnvægisnefnd atvinnuveganna búin að vera lengi? Er hún ekki búin að vera þrjú ár, eitthvað svoleiðis? Það eru ýmsar aðrar nefndir lengi að starfa, sem hafa vandasöm mál að vinna. En þetta er ekki vandasamt mál, en það er erfitt mál og mikið mál, og þess vegna held ég, að það þurfi að gefa n. vald til að geta rækt verkið sæmilega, en það fær hún ekki eftir tillögunni. Nefndin, sem nú fær málið til meðferðar, þarf því að breyta tillögunni. Flutningsmennirnir hafa sýnilega viljað fá káknefnd, sem ekkert gæti gert, í von um, að bak við álit hennar gæti verið hægt fyrir milliliðina að rista breiðari lengjur af hryggjum viðskiptamannanna. Slíkt má ekki verða, og því þarf að auka valdsvið nefndarinnar.