07.12.1955
Sameinað þing: 20. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í D-deild Alþingistíðinda. (2405)

79. mál, milliliðagróði

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég hafði í ræðu minni boðað, að ég mundi leggja fram brtt. í þessu máli, og henni hefur nú verið útbýtt og er á þskj. 167. Ég held, að í þeirri brtt. felist a. m. k. að mestu það, sem ég hafði minnzt á hér í minni ræðu, og ég skal aðeins með nokkrum orðum koma inn á það, sem ég gæti sjálfur hugsað mér að þyrfti að gera ýtarlegar.

Í fyrsta lagi legg ég til, að það sé kosin sjö manna nefnd í staðinn fyrir fimm manna, og ég gæti jafnt hugsað mér, að sú nefnd væri kosin á Alþingi með venjulegum hlutfallskosningum og að hún væri skipuð á þann hátt, að þingflokkarnir tilnefndu hver einn mann og ríkisstj. tilnefndi tvo. Ég gerði till. um slíka nefndarskipun í fyrra í einu máli, sem þá var til umræðu. Nefndin féllst ekki á það þá, en ég vildi þó beina því til þeirrar hv. nefndar, sem þetta fer til, að athuga líka um þann möguleika.

Þá hef ég gert það allmiklu ýtarlegra en er í till. flm., hvað rannsakað skuli, og ég held, að það sé alveg óhjákvæmilegt, að það sé gert greinilegra, til þess að það komi í ljós, að það eru svo að segja öll svið þjóðarbúskaparins og gróðamyndunin á öllum þessum sviðum, sem verður að rannsakast.

Ég hef ekki tekið upp í þessa till. hins vegar neitt um það, sem ég minntist á í minni ræðu um þörfina á eignakönnun, því að ef ætti að setja ákvæði um eignakönnun, þá yrði það að gerast með lögum. En því vildi ég mjög eindregið skjóta til þeirrar nefndar, sem fær þetta mál til athugunar, að sú nefnd gæti náttúrlega haft forgöngu um að setja eignakönnunarlög í gegnum þingið, og þegar meiri hl. í slíkri nefnd væri því samþykkur, þá efast ég ekki um, að það fengist samþykkt. Ég álít, að eitt af því nauðsynlegasta til að ganga úr skugga um það, sem flm. vilja fá rannsakað, sem sé gróðamyndunina í þjóðfélaginu, sé allsherjar eignakönnun, sem þá mundi vafalaust að miklu leyti hægt að miða við framtölin frá 1947 og sjá, hvað gerzt hefur síðan. Það er fullyrt nú, að það muni vera hátt á annað hundrað milljónamæringar í Rvík, og ég vil aðeins leyfa mér að spyrja Sjálfstfl., sem heldur því mest fram, að það séu verkamenn og þeirra laun, sem séu undirrótin að dýrtíð og verðbólgu, hvort þeir haldi, að það séu verkamenn yfirleitt, þessir milljónamæringar, hvort þeir haldi, að verkamenn hafi grætt þannig á þessum gífurlegu kauphækkunum, sem Sjálfstfl. leyfir sér að kvarta yfir, að það sé að finna í hópi milljónamæringanna í Rvík fyrst og fremst verkamenn. Mér þætti vænt um að fá svar frá Sjálfstfl. um það, þeim flokki, sem hér sleppir engu tækifæri til þess að níða verkamenn niður og verkamannasamtök fyrir það, að þeir hafa reynt að velta af sér dýrtíðaröldunni, sem ríkisstj. hefur skipulagt gegn þeim. Ég þori að fullyrða, að það finnst enginn verkamaður í þessum hópi. En það kunna að finnast allmargir menn úr forustu Sjálfstfl. í þeim hópi, og það má gjarnan koma í ljós og það nákvæmlega. Þó er vitanlegt, að sem stendur er ekki einu sinni hægt að áætla tölu milljónamæringa í Rvík með þeirri nákvæmni, sem tryggði þeim, hvort það væru hundraðinu meira eða minna, vegna þess, hvernig fasteignamatið er úr garði gert. Ætli Silli og Valdi séu ekki eignalausir þar? Varla væru þeir í hópi milljónamæringa. Ég álít þess vegna, að hv. nefnd eigi að taka það til alvarlegrar athugunar, hvort hún gengst ekki fyrir því, þegar við loksins verðum þess varir, að slíkur áhugi sé hjá Sjálfstfl. fyrir að rannsaka gróðamyndun í þjóðfélaginu, að það verði látin fara fram eignakönnun og hún rækilegri og betri en 1947.

Þá legg ég enn fremur til, að þessi nefnd fái sama rétt og rannsóknarnefndir þingdeilda, og það hefur líka komið fram hjá mörgum, m. a. þeim hv. þm. N-M., sem síðast talaði hér, að slíkt væri nauðsyn, og er það vafalaust rétt. Þá legg ég enn fremur til, að þessari nefnd sé gefið vald til þess að rannsaka, hvaða menn og félög hafi lán hjá bönkunum, sé upphæð ein millj. kr. eða meira, til þess að þing og þjóð fái gengið úr skugga um, hvaða aðilar það eru, sem bankar ríkisins fyrst og fremst gefa tækifæri til gróðamyndunar hér á Íslandi. Það er vitanlegt, að það er svo að segja eins mikils virði fyrir einn mann eða eitt félag til þess að reyna að skapa auð eða skapa sér gróða að fá lán úr bönkunum og að eiga peninga sjálfur og þegar lánunum úr bönkunum er ráðstafað þannig, að það eru jafnvel einstök félög, einstakir heildsalar, sem sitja fyrir þessum lánum árum og áratugum saman og fá svo að segja þannig sérréttindi til þess að hafa eign þjóðarinnar og sparifé almennings með höndum, þá er ekki nema eðlilegt, að það sé rannsakað, hverjir þessir aðilar eru og hve mikil þessi upphæð er. Ég verð meira að segja var við það, að stundum skella þeir því hvor á annan hv. stjórnarflokkar við skulum segja ef Tíminn t. d. talar eitthvað um, að vissir sjálfstæðismenn hafi kannske 12 millj. kr. lán eða eitthvað svoleiðis, þá kemur venjulega daginn eftir í Morgunblaðinu: Ja það skyldi þó aldrei vera, að ein ákveðin stofnun, sem Framsfl. hefur mikil völd í, hafi kannske 50 eða 100 millj. kr. lán? Ég held, að það sé ekki viðkunnanlegt, að það sé verið að slengja svona dulmáli út í myrkrið, heldur komi þetta alveg ljóst fram. Það er þjóðareign eða almenningsfé, sem þarna er verið að fara með, og það er alveg sjálfsagður hlutur, þegar á að rannsaka gróðamyndunina í þjóðfélaginu, að athuga, með hverjum hætti ríkið og þess stofnanir, bankarnir, veita einstökum mönnum og einstökum aðilum aðstöðu til gróðamyndunar. Jafnvel þó að sú gróðamyndun kunni stundum ekki að takast, heldur meira að segja þessi lán, sem ríkið þannig veitir, festist jafnvel áratugum saman hjá viðkomandi aðilum, þá er það líka hlutur, sem er sjálfsagt að rannsaka.

Þá hef ég enn fremur lagt þarna til, að það sé athugað, hve mikið fjármagn og vinnuafl sé í hverri grein þjóðarbúskaparins, því að það er náttúrlega alveg víst, eins og ég hef minnzt hér á áður, að jafnvel þó að ekki sé gífurleg gróðamyndun á einhverju sviði, þá getur samt sem áður verið ráðstafað hlutfallslega allt of miklu fjármagni og allt of miklu vinnuafli á það svið, þó að það jafnvel borgi sig ekki fyrir neinn af þeim, sem fjármagnið eiga, og væri þá hugsanlegt, að það væri hægt að komast af með miklu minna fjármagn og miklu minna vinnuafl. Jafnvel þær tölur, sem hv. 1. þm. N-M. nefndi hér áðan, benda til þess, að slík rannsókn væri fróðleg og þörf og gæti ef til vill haft veruleg áhrif á, hvers konar skipulag skyldi tekið upp, við skulum segja t. d. um verzlun, ef það sýndi sig, að hægt væri að spara mjög mikið fyrir þjóðina með öðruvísi þjóðfélagslegu fyrirkomulagi á einstökum sviðum þjóðarbúskaparins.

Ég vil svo að síðustu taka það fram, að með þessari till., eins og ég hef nú lagt til að breyta henni og ég vona að hv. allshn., sem þetta að líkindum fer til, lagi enn frekar og geri enn öruggara, þá álít ég að ætti að vera mögulegt, ef svona nefnd starfar vel, að ganga úr skugga um þetta atriði, sem svona mikið er deilt um, en ég veit, að þetta verður víðtæk rannsókn og mun m. a. leiða mar í ljós, ef hún er vel gerð, sem menn búast ekki við nú.

Ég vil aðeins minnast á eitt atriði í þessu sambandi, sem ég hef nokkrum sinnum minnzt á hér áður, og það eru afleiðingarnar af þeirri stefnu, sem ríkisstj. hefur tekið upp viðvíkjandi vöxtum og vaxtatöku og viðvíkjandi frelsi manna til álagningar á öllum sviðum, og hvern þátt slík stefna á í vaxandi dýrtíð og vaxandi verðbólgu. Ég skal aðeins geta þess sem dæmis, að út frá þeim vöxtum, sem ríkisstj. hefur ákveðið og stjórnarflokkarnir hafa beitt sér fyrir, er nú svo komið, að t. d. tæpur helmingur af öllum kostnaði við framleiðslu á Sogsrafmagninu er vextir. Vinnulaunin eru raunverulega sama sem ekki neitt. 10 millj. af 23 millj. eru vextir. Og viðvíkjandi húsnæðismálunum, sem eru þýðingarmesti þátturinn í útgjöldum verkamannsins, er hækkunin á húsaleigunni og hækkunin á eigin húsnæði og kostnaði við það orðin gífurlega miklu meiri þáttur, allt að því tífaldur þáttur við það, sem var fyrir um 10 árum, þar sem laun hins vegar hafa á sama tíma aðeins tvöfaldazt.

Ég held, að það kæmi í ljós, þegar þessir hlutir yrðu rannsakaðir til fullnustu, að sú stefna, sem ríkisstj. hefur rekið undanfarin ár, sé höfuðorsökin að allri dýrtíðinni og verðbólgunni. Raunverulega hefur ríkisstj. og hennar flokkar sagt við almenning, sagt við alla þjóðina: Sleppið af ykkur öllum hömlum, hamizt við að græða, hver sem betur getur, gerið þið allt að gróðalind, hverja smákompu sem til er. Við í ríkisstj. slítum öll höft, sem verið hafa á því, að menn geti hækkað hlutina, að menn geti hækkað húsnæðið eða annað slíkt. — Þetta hefur verið hennar stefna, að gefa gróðanum lausan tauminn, gefa gróðafíkninni í hverjum einasta einstaklingi lausan tauminn, skapa þannig kapphlaup um gróða í þjóðfélaginu, að við stöndum frammi fyrir því brjálæði í efnahagsmálum, sem við núna sjáum. Þetta er allt afleiðing af þeirri stefnu, sem ríkisstj. hefur rekið á undanförnum árum, og það er ekki seinna vænna að rannsaka til hlítar, hvert þessi stefna er að leiða okkur, hvert þetta hömluleysi er að leiða okkur. Aðeins t. d. hvað húsnæði snertir, þá er afnámið á öllum hömlum þar að valda því, að með hverjum mánuðinum sem líður eru það fleiri og fleiri, sem dragast inn í þann vítahring að hækka og hækka húsaleiguna.

Ég vil alveg sérstaklega segja það við Sjálfstfl., fyrst hann hefur nú flutt þessa till., að þetta verk, að gera þennan eltingarleik að gróðanum að höfuðinnihaldi í þjóðlífinu, er fyrst og fremst hans verk, að gefa braskinu og bröskurunum lausan tauminn á öllum sviðum þjóðarbúskaparins og beygja þannig allt íslenzka þjóðlífið undir þetta gróðasjónarmið. Það er fyrst og fremst verk Sjálfstfl. og verk þeirrar stefnu, sem illu heilli hefur orðið hér meir og meir drottnandi á undanförnum árum, alveg sérstaklega undir áhrifum þeirrar amerísku efnahagsstefnu, sem hér hélt innreið sína með Marshallsamningnum. Nú sjáum við, hvernig þessi blindu öfl gróðans, sem þá var gefinn laus taumur, eru að leika þjóðfélagið.

Ég skal svo ekki orðlengja meira um þetta, en vil vonast til þess, að sú nefnd, sem þetta fer nú til, reyni að ganga þannig frá þessu máli, að við þurfum ekki oftar að rífast og koma með staðhæfingar um, hvernig gróðinn sé hér á Íslandi, heldur að það geti legið fyrir eins skýrt og það gerir í flestum öðrum kapitalistiskum löndum.