07.12.1955
Sameinað þing: 20. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 205 í D-deild Alþingistíðinda. (2406)

79. mál, milliliðagróði

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Ég skal á engan hátt misnota þann rétt, sem hæstv. forseti hefur gefið mér hér til þess að gera örstutta athugasemd.

Það kom fram í ræðu hv. þm. Barð. hér um daginn, þegar þetta mál var til umr., að hann hafði skilið ummæli mín á nokkurn annan veg en ég ætlaðist til. Hann hafði skilið þau á þann veg, að ég hefði sagt hér, að n. þyrfti að hafa aðstöðu til að rannsaka starfsemi erlendra einokunarhringa. Hafi ég talað á þann veg, að hv. þm. Barð. hafi haft ástæðu til að misskilja mín ummæli, þá get ég að sjálfsögðu beðið afsökunar á því að hafa ekki miðað málflutning minn við skilning hv. þm. Barð. Hitt hlýtur öllum að vera ljóst, að mér hefur aldrei til hugar komið, að nein íslenzk nefnd gæti rannsakað starfsemi erlendra einokunarhringa. Hitt er og ljóst, að ég tók fram í báðum þeim ræðum, sem ég flutti um þetta mál, að nefndin þyrfti að hafa aðstöðu til að rannsaka þátt íslenzkra einokunarhringa í útflutningsverzluninni, rannsaka starfsemi þeirra einokunarhringa erlendis jafnt og hérlendis.

Þá vil ég einnig taka fram, að það var misskilningur hjá hv. þm. Barð., er hann hélt því fram, að ég hefði sagt, að íslenzkir fiskeinokunarhringar hefðu komið sér upp dreifikerfi erlendis til þess að auka þjóðartekjur Íslendinga og hag þjóðarinnar af fisksölu til útlanda. Þetta er rangt. Þetta sagði ég aldrei. Ég sagði, að þeir hefðu komið sér upp dreifingarkerfi erlendis til þess að minnka þjóðartekjur Íslendinga, og það kom greinilega í ljós í ræðu hv. þm. Barð., að þannig er málinu varið. Hann lýsti því nefnilega með dæmum, að Íslendingar hefðu getað fengið hærra verð fyrir vörur sínar á erlendum mörkuðum en þeir fengju. Ástæðan til þess, að þeir fengu ekki þetta háa verð, sem þeir gátu fengið, er einokunarhringarnir, sem koma í veg fyrir þetta. Og ég vil bæta því við, að mér er kunnugt um mýmörg dæmi, þar sem íslenzkir einstaklingar, sem standa utan einokunarhringanna í fiskverzluninni, buðu hærra verð fyrir fiskinn en þessir einokunarhringar gerðu, en var synjað um útflutningsleyfi. Einokunarhringarnir hafa alls ekki komið sér upp dreifingarkerfi erlendis til þess að auka tekjur þjóðarinnar, heldur þvert á móti til þess að safna sjálfir fyrir sjálfa sig sem mestum tekjum erlendis, tekjum, sem þeir hafa notað til þess að sumu leyti að koma upp eignum, sem þeir þar telja sig sjálfa eiga. Enginn veit, nema þeir hafi lagt þar fyrir fé líka, sem þeir telja sig sjálfa eiga og ætla að nota fyrir sjálfa sig síðar meir, og allt þetta munu þeir hafa dregið undan skatti hér heima. Þetta vildi ég aðeins taka fram hér.

Loks vil ég svo segja það, að ég vildi mælast til þess eða benda hv. þm. Barð. á það í öllu bróðerni að nota ekki í ræðum sínum hér á þingi eitt orð, sem hann notaði í sinni ræðu í þessu tilfelli og er tamt að nota í sínum ræðum, og þetta orð er og var orðið „hundavað“. Hitt skil ég, að hv. þm. Barð. sé þetta orð ofarlega í huga. Ég minnist þess nefnilega, að einn af samflokksmönnum hans, einn þm. Sjálfstfl., notaði orðin „hundavaðsháttur og hroki“ í ræðu um hv. þm. Barð. einu sinni. Þetta orð mun þá hafa brennt sig svo inn í huga þessa þm., að hann getur ekki gleymt því síðan, og er það afsakanlegt, en hitt ætti hann að reyna, að láta það sem sjaldnast koma fram.