27.03.1956
Sameinað þing: 50. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 206 í D-deild Alþingistíðinda. (2409)

79. mál, milliliðagróði

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Fjvn. hefur athugað till. þá um rannsókn á milliliðagróða, sem flutt er á þskj. 86. Hefur n. ekki getað orðið sammála um afstöðu til málsins. Meiri hl. n., 7 nm. af 9, leggur til, að till. verði samþ. með þeirri breytingu, sem um getur á þskj. 552, en minni hl. n., þ. e. annar þeirra tveggja hv. þm., sem ekki standa að afgreiðslu álits meiri hl., hv. 11. landsk. (LJós), leggur til, að till. verði samþ. með því orðalagi, sem er í brtt. frá hv. 2. þm. Reykv. (EOl) á þskj. 167. Einn nm., hv. 3. landsk. þm. (HV), hefur ekki skilað neinu sérstöku nefndaráliti.

Með þáltill. þeirri, sem hér um ræðir, er gert ráð fyrir samkv. því, sem till. upphaflega hljóðar, að kosin verði 5 manna n. sérfróðra manna til að rannsaka þátt milliliða í framleiðslukostnaði þjóðarinnar og sé þar gerður samanburður á milliliðakostnaði hér og í nálægum löndum og að athugun þessari lokinni verði síðan leitazt við að komast að niðurstöðu um það, hvort og þá að hverju leyti milliliðakostnaður sé hér óhóflegur og á hvern hátt megi úr því bæta.

Meiri hl. fjvn. telur, að það sé mjög æskilegt, að sú rannsókn fari fram, sem hér um ræðir. Hins vegar hefur meiri hl. orðið sammála um að mæla með, að till. verði samþ. með nokkurri breytingu. Má segja, að breytingin sé tvíþætt: annars vegar sú, að í stað þess að utanþingsnefnd eða nefnd sérfræðinga rannsaki þetta, þá verði það þingmannanefnd, sem valin verði í samræmi við ákvæði 39. gr. stjórnarskrárinnar, og í annan stað er lagt til, að till. verði útfærð nokkru nánar en í upphaflegu till. er gert. En í því efni er ekki beinlínis hægt að segja, að sé um efnisbreytingu að ræða, heldur að taka skýrar fram, hver ætlunin sé með till. og að hverju rannsóknin skuli fyrst og fremst miða.

Ég sé ekki ástæðu til, nema tilefni gefist til, að rekja þessa brtt. í einstökum atriðum; hún skýrir sig að verulegu leyti sjálf. Það er álit meiri hl. n„ að slík rannsókn sé þjóðfélagsleg nauðsyn, ekki hvað sízt vegna margvíslegra umræðna, sem fram hafa farið, og ásakana um það, að einhverjir hópar milliliða í þjóðfélaginu raki saman gróða á kostnað þjóðarheildarinnar og að með því að draga úr þeirri óhæfilegu gróðamyndun væri hægt að bæta hag framleiðslunnar í landinu. Ef þetta er svo, þá er sjálfsagt, að það verði athugað og tillögur í því efni gerðar til úrbóta.

Þótt nefndin telji nauðsynlegt, að þetta verði rannsakað til hlítar og sú n. sem það á að gera, fái sem bezta aðstöðu til að leysa það verkefni af hendi, þá vill meiri hl. n. ekki á þessu stigi málsins slá neinu fram um það, að hér sé um að ræða af hálfu þeirra starfshópa og stétta, sem milliliðaþjónustu annast, neitt ósæmilegt framferði eða óhæfilega gróðaöflun. Það er fyrst tímabært að fullyrða um slíkt, þegar niðurstöður þessarar athugunar liggja fyrir. Af þeim sökum teljum við, að þessi rannsókn eigi ekki að vera sérstaklega í því formi, að hér sé verið að rannsaka einhvern saknæman verknað, heldur aðeins, að hér sé verið að leiða í ljós staðreyndir málsins, hvernig þessu er háttað, og reynt að kanna til hlítar í fyrsta lagi, hver er starfsemi milliliðanna og hverjir eru raunverulega milliliðir í þjóðfélaginu, hvaða hlutverki þeir hafa að gegna og hversu mikinn hluta þeir taka fyrir þessa þjónustu sína. Hér kemur auðvitað margt til greina. Það er ekki aðeins, eins og oft er talað um, beinlínis sala eða innflutningur ýmiss konar vara, heldur eru margir starfshópar aðrir, sem hér falla undir. Það, sem má segja að milliliðaþjónusta sé, er nánast öll önnur þjónusta í þjóðfélaginu en sú, sem er bein framleiðslustarfsemi.

Af þessu leiðir í fyrsta lagi, að það þarf að kanna til hlítar, hvernig milliliðaþjónustan skiptist milli einstakra starfshópa, hvað hver starfshópur tekur í sinn hlut, síðan kanna það, hvaða áhrif þessi milliliðakostnaður hefur á framleiðslukostnað þjóðarinnar, og loks á grundvelli þess að íhuga, hvort og þá á hvern hátt væri hægt að koma hér úrbót við. Og það er vitanlega mjög mikið atriði í þessu máli að reyna að fá raunhæfan samanburð við nálægar þjóðir, t. d. Norðurlöndin og Bretland, því að óhætt mun að fullyrða, að það sé ekki hægt að vænta þess, að milliliðakostnaður geti orðið minni hér en í þeim löndum, þar sem þar er allt í stærri stíl og kostnaðurinn dreifist á fleiri aðila en hér getur orðið um að ræða, þannig a. m. k. að slíkur samanburður gæti verið mjög lærdómsríkur.

Það, sem aðallega greinir á milli skoðana þeirra, sem fram koma í meiri hl. n., og till. minni hl., er það, að þar er um að ræða miklu víðtækari athugun og nokkuð annars eðlis en sú rannsókn, sem við gerum ráð fyrir, að fram fari. Mér sýnist satt að segja margt það, sem þar er um að ræða, falla undir starfsemi annarrar nefndar, sem nú er að störfum, að gera athugun á stofnun nýrra atvinnugreina og ýmsum öðrum þáttum til þess að kanna það. hvernig vinnuaflið verði bezt hagnýtt, því að þar er talað um og sú till. er byggð upp á þeim grundvelli, að fyrst og fremst eigi með þessari rannsókn að rannsaka, hvað sé þáttur annarrar starfsemi en vinnunnar. Það gefur auðvitað auga leið, að í milliliðastarfsemi er margvísleg vinna, og þar koma vinnulaun einnig mjög til greina, þannig að það er ekki hægt að útiloka það, enda getur oft verið mjög erfitt um vik að segja, hvað eru eðlileg vinnulaun til þessa eða hins milliliðarins. Ég hygg, að það geti orðið nokkuð miklum erfiðleikum bundið, og það er a. m. k. ljóst, að það verður ekki komizt að niðurstöðu um milliliðakostnaðinn nema með því móti að reikna einnig með vinnulaunum margvíslegra aðila, sem að slíkum störfum vinna, ef komast á að niðurstöðu um það atriði.

Ég álít, og það er skoðun meiri hl. n., að með því orðalagi á þessari till., sem hann leggur til, sé það tvennt fullkomlega tryggt, í fyrsta lagi, að n. hafi aðstöðu til þess að rannsaka þetta mál til hlítar, og í annan stað, að þar sé það skýrt afmarkað verksvið n., að það geti enginn vafi leikið á því, hvernig eigi að vinna þetta verk. Þegar álit þeirrar n. liggur fyrir, þá er tímabært að athuga, hvaða frekari ráðstafanir þarf að gera. Á þessu stigi málsins er fyrst og fremst um það að ræða að forma starfssvið n. og hvernig hún eigi að vinna, en síðar kemur að því, er niðurstöður liggja fyrir, að taka afstöðu til málsins eins og það þá liggur fyrir.

Ég vil því leyfa mér að vænta þess, að hv. þm. geti fallizt á að samþ. till. með því orðalagi, sem meiri hl. fjvn. leggur til á þskj. 552.