27.03.1956
Sameinað þing: 50. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í D-deild Alþingistíðinda. (2410)

79. mál, milliliðagróði

Frsm. minni hl. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Eins og hér hefur fram komið, hefur fjvn. ekki orðið sammála um afgreiðslu þessarar till. Ég hef lagt til, að till. yrði afgreidd á þá leið, að brtt. á þskj. 167, flutt af hv. 2. þm. Reykv. (EOl), verði samþ., og tel ég, að með samþykkt þeirrar till. yrði á eðlilegastan hátt hægt að ganga til botns í því að rannsaka það verkefni, sem hér er um að ræða, milliliðagróða.

Ég skal strax taka það fram, að ég mun samþ. þá brtt., sem meiri hl. fjvn. leggur til, ef brtt. á þskj. 167, sem ég vil leggja til grundvallar lausn málsins, fæst ekki samþ. Ég hef ekkert á móti því, síður en svo, að þessi athugun fari fram, og tel enda, að sú brtt., sem meiri hl. fjvn. stendur nú að, sé allmiklu betri en till. var sjálf lögð hér fram í upphafi.

En hvað er það í aðalatriðum, sem skilur á milli? Hvaða meginmunur er á þeirri leið, sem meiri hl. fjvn. vill fara í þessum efnum, og þeirri leið, sem ég tel heillavænlegra að fara og fram kemur í brtt. hv. 2. þm. Reykv.?

Meginmunurinn er sá, að meiri hl. fjvn. leggur til með sinni till., að látin verði fara fram rannsókn á milliliðastarfsemi í landinu. Ég hef bent á, að þessi starfsemi, sem kölluð er milliliðastarfsemi, er æði óljós fyrir mönnum. Það er mjög hægt að togast á um það, hvað við er átt, þegar þetta hugtak er notað. Það er t. d. ekkert um að villast, að það er mjög algengt að halda því fram, að milliliðastarfsemi verði aðeins talin sú starfsemi ein, sem er bundin viðskiptum og þeir aðilar fyrst og fremst reka, sem eru að verulegu leyti óþarfir.

Ég tel því, að þegar rannsaka á það, sem hér hefur raunverulega vakað fyrir mönnum, hinn ofgreidda kostnað í rekstri þjóðarbúsins í heild til einstakra aðila, þá beri að taka þetta miklu skýrar fram og miða þá við það, að rannsakaður sé allur framleiðslukostnaður, öll verðmyndun. Ég tel t. d., að það eigi tvímælalaust í þessu tilfelli að athuga um kostnað bankanna, og í þessu efni vil ég kalla bankana milliliði og láta rannsaka til hlítar, hversu mikið þeir taka fram yfir það, sem þörf er að þeir taki fyrir sína þjónustu af framleiðsluatvinnuvegunum í landinu. Mér er t. d. ekki ljóst, hvort meiri hl. fjvn. telur í þessu tilfelli starfsemi bankanna íslenzku þess eðlis, að það eigi að rannsaka hana í þessu tilfelli. Á að telja þann skatt, sem bankarnir leggja á framleiðslu landsmanna, aðeins eðlilegan og óhjákvæmilegan og óumdeilanlegan skatt, sem ekki komi neinni milliliðaþjónustu við? Eða á hann að takast hér með og skilgreinast og athuga, hversu mikil áhrif þessi skattlagning bankanna, sem fer fram í ýmsu formi, hefur á framleiðslukostnaðinn almennt í landinu?

Hér er um miklu fleiri aðila að ræða. Einn af þeim er sjálft ríkisvaldið sjálfur ríkissjóður. Ég á fyllilega von á því, að það mundi geta komið fram hjá ýmsum nm., sem ættu að taka að sér þessa rannsókn, að þeir segðu: Ja, ríkissjóður er nú enginn milliliður. Það kemur ekki til mála, að við förum að athuga neitt hjá ríkissjóði. — Það er hins vegar mín skoðun, að það beri í þessu efni að athuga líka til hlítar þátt ríkisins í því að hækka framleiðslukostnaðinn í landinu, og ríkissjóður tekur sannanlega til sín miklu meira í ýmsum tilfellum en nauðsynlegt og æskilegt væri. En starfsemi ríkissjóðs er þess eðlis, að hún skiptir gífurlega miklu um framleiðslukostnaðinn í landinu, um verðlagninguna almennt í landinu og um almenna verðmyndun. Hið sama er að segja um ýmsar ríkisstofnanir.

Ég held því, að ef sú athugun ætti að fara fram til nokkurrar hlítar, sem hér hefur verið stungið upp á, þá væri eðlilegast að samþ. till. hv. 2. þm. Reykv. á þskj. 167. Hún felur í sér í öllum aðalatriðum það, sem till. meiri hl. fjvn. felur í sér, en hún leggur eindregið til, svo að ekki verður um villzt, að rannsaka skuli framleiðslukostnaðinn í landinu í heild og verðlagsmyndunina í þjóðfélaginu, en ekki aðeins binda sig við það óákveðna hugtak, sem kallað er milliliðastarfsemi.

Þetta er í aðalatriðum það, sem skilur á milli mín sem minni hl. og meiri hl. fjvn. Að öðru leyti er ég fullkomlega samþykkur því, að sú n. verði skipuð, sem hér er lagt til að skipuð verði, og að þessi athugun fari fram. Það er aðeins um það eitt að ræða að reyna að ganga þannig frá málum, að þessi athugun verði engin sýndarathugun, sem síðan verði notuð til þess að reyna að halda því fram, að það sé enginn teljandi milliliðagróði hér í þessu landi og verðlagið og verðmyndunin hér sé fullkomlega eðlileg og að þar sé því ekki við neinu að hreyfa. Ég fyrir mitt leyti er sannfærður um, að hér er um stórfelldan óþarfan milliliðakostnað að ræða, sem oft hefur verið sannað líka í einstökum tilfellum, og ég vil því reyna að ganga þannig frá störfum þessarar n. þegar í upphafi, að hún athugi málið til fullnustu, en geti ekki skotið sér undan þannig við hálfklárað verk, að ekki hafi verið til þess ætlazt af Alþ., að hún athugaði meira en gert er ráð fyrir í þessu meirihlutaáliti fjvn.