08.02.1956
Sameinað þing: 38. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 215 í D-deild Alþingistíðinda. (2420)

114. mál, kjarnorkuvopn

Flm. (Bergur Sigurbjörnsson):

Herra forseti. Á þskj. 149 flytjum við hv. 8. þm. Reykv. og ég till. til þál. þess efnis, að ríkisstj. Íslands skuli beina þeirri áskorun til ríkisstjórna Sovétríkjanna, Bandaríkjanna og Bretlands, að þær felli niður frekari tilraunir með vetnissprengjur og önnur kjarnorkuvopn, a. m. k. meðan haldið er áfram tilraunum og viðræðum stórveldanna til að ná samkomulagi um bann við framleiðslu og notkun kjarnorkuvopna og eftirlit með, að því banni sé framfylgt.

Það ætti raunar að vera óþarft að fara um það mörgum orðum, að leiði viðræður stórveldanna um framleiðslu og notkun kjarnorkuvopna til þess, að slík vopn verðí bannfærð, mundi að sjálfsögðu einnig nást samkomulag um að hætta frekari tilraunum með slík vopn. Hitt er mönnum fullljóst, að þær viðræður geta dregizt á langinn, og raunar við því að búast, að sú tortryggni og það hatur, sem sáð hefur verið viljandi og óviljandi milli hinna miklu kjarnorkujötna í austri og vestri, valdi því, að samningar og samkomulag þeirra í milli um hin þýðingarmestu mál dragist á langinn, nema einhverjir gerist til þess að bera sáttarorð á milli og miðla málum.

Um skeið hefur að vísu ekki blásið byrlega í því efni, að nokkrir yrðu til þess að bera slíkt sáttarorð á milli, því að skammsýnir og misvitrir áróðurspostular hins svokallaða kalda stríðs, sem við höfum fengið að kynnast allt of vel síðustu árin, hafa kappsamlega unnið að því að útrýma því, sem kalla mætti alþjóðlega sáttasemjara, með því að reyna að ánetja sem flestar og helzt allar þjóðir annarri hvorri heimshelftinni í kapphlaupinu um vígbúnað og hvers konar undirbúning undir nýja tortímingarstyrjöld. En þrátt fyrir öll þau óhappaverk, sem í þessu sambandi hafa verið unnin á síðustu árum, eða e. t. v. vegna þeirra, vex nú þeim skilningi sífellt fiskur um hrygg, að einhverjir, og þá sérstaklega smáþjóðirnar, verði að taka að sér það heimssögulega hlutverk að reyna að forða því, að ný styrjöld brjótist út, þar sem mannkynið eigi nú aðeins um tvo kosti að velja, tortímingu eða frið.

Öllum er ljóst, að það muni eiga nokkuð langt í land, að heilbrigð skynsemi fái slík yfirráð í veröldinni, að öll stórveldi og allar þjóðir verði sammála um að bannfæra styrjaldir og hætta að grípa til þeirra sem lausnar á deilumálum. Um hitt hafa menn nokkra von, að tilvist kjarnorkuvopna og það geigvænlega varnarleysi og tortíming, sem allar þjóðir eru jafnt ofurseldar, verði til slíkra vopna gripið í hugsanlegri styrjöld, muni í sjálfu sér letja fremur en hvetja stórveldin til að hefja nýja heimsstyrjöld.

Hitt er flestum nú jafnljóst, að kjarnorkuvopn eru nú sem stendur geigvænleg ógnun fyrir allar lífverur á jörðinni, jafnvel þótt ekki komi til kjarnorkustyrjaldar. Það er sannað, að þær vetnissprengjur, sem nú þegar hafa verið sprengdar í tilraunaskyni, hafa haft í för með sér banvæn áhrif, sem þegar hafa komið í ljós, en ósannað, hvort þar hefur ekki verið um enn meiri og geigvænlegri áhrif að ræða, sem muni ekki koma sannanlega í ljós fyrr en löngu síðar.

Mönnum er nú ljóst, að skaðleg áhrif geislaverkana frá kjarnorku- eða vetnissprengjum geta birzt a. m. k. á þrennan hátt eftir því, hve mikil þessi áhrif eru. Í fyrsta lagi í beinum dauða á lengri eða skemmri tíma. Í öðru lagi geta þau eyðilagt hæfileika manna og annarra lífvera til tímgunar. Í þriðja lagi geta geislaáhrifin breytt erfðaeiginleikum tegundanna, þannig að fram komi nýjar tegundir lífvera, gerólíkar þeim, sem þær rekja rót sína til. Gerist það með þeim hætti, að geislaáhrifin breyta litningafjölda frumunnar og þar með flestum eða öllum erfðaeiginleikum afkvæmanna. Það eru einkum hinar tvær síðasttöldu hættur, sem vísindamenn þeir, er gerst til þekkja, óttast í sambandi við geislavirk áhrif frá vetnis- og kjarnorkusprengjum í tilraunaskyni. Hvort slíkt hefur gerzt í þeim tilraunum, sem Bandaríkjamenn og Rússar hafa þegar framkvæmt með vetnissprengjur, er erfitt eða ógerlegt að sanna fyrr en að nokkuð löngum tíma liðnum, þar sem þetta gerist með þeim hætti, að áhrifin koma e. t. v. ekki að fullu fram, ef væg eru, fyrr en eftir nokkra ættliði.

Árið 1947 fékk bandarískur vísindamaður Nóbelsverðlaun í lífeðlisfræði fyrir að sanna þessi áhrif geislaverkana á lífverur. Við tilraunir sínar notaði hann bananflugur, en þær hafa þann ákjósanlega eiginleika að þróast gegnum marga ættliði á einu ári. Með því að láta flugurnar verða fyrir vægum geislaáhrifum kom í ljós, að eftir nokkra ættliði komu fram algerlega nýjar tegundir, gerólíkar forverum sínum að eðli og útliti og hrollvekjandi á allan hátt. Niðurstöður vísindamannsins staðfestu þær skoðanir, sem uppi höfðu verið í þessu efni, og þóttu svo merkar, að ástæða þótti til að sæma höfund þeirra Nóbelsverðlaunum.

Af þessu og ýmsu öðru er ljóst, að það þarf ekki kjarnorkustyrjöld til að vinna gervöllu mannkyni óbætanlegt tjón með eyðileggjandi áhrifum frá vetnis- eða kjarnorkusprengjum. Í þeim efnum duga tilraunir með þau vopn.

Það er fullljóst, að tilraunasprengingar Bandaríkjamanna í marz 1954 og Rússa í byrjun nóvember s. l. með vetnissprengjur hafa á ákveðnum svæðum haft nægilega mikil áhrif til, að það tjón hlytist af og komi í ljós á næstu árum og áratugum, sem ég hef hér lýst. Við tilraunasprengingu Bandaríkjamanna komu slík áhrif einkum fram í Japan, þar sem m. a. fiskur og drykkjarvatn varð svo geislavirkt, að bein lífshætta stafaði af, auk allrar þeirrar hættu, sem hér hefur aðallega verið gerð að umtalsefni. Við tilraunasprengingu Rússa nú í nóvember komu slík lífshættuleg áhrif m. a. í ljós í Japan og Danmörku, auk þeirra áhrifa, sem mjög alvarleg hætta er á að hafi komið fram jafnhliða, en sannist ekki fyrr en að nokkrum tíma liðnum.

Þegar vetnissprengja er sprengd hátt í lofti, eins og í Sovétríkjunum í nóv., er ógerlegt að reikna út, hvert geislavirkt ryk getur borizt né hvar geislavirkt regn eða snjór getur fallið. Það gæti alveg eins vel gerzt hér og í Japan, Danmörku eða Frakklandi, og eru raunar mjög miklar líkur á, að svo kunni að hafa verið.

Hér á landi háttar svo til, að þúsundum milljóna króna hefur verið varið til umfangsmikillar hervirkjagerðar, sem þó yrði íslenzkri þjóð að sjálfsögðu ekkert skjól né hlífð í kjarnorkustyrjöld. Íslenzka ríkið hefur auk þessa sjálft lagt fram 1 millj. kr. árlega í nokkur ár vegna ófriðarhættu, eins og það hefur verið kallað, þó að ófriðarhætta hafi ekki sannanlega vofað yfir né styrjaldir verið háðar í nálægð okkar. En þrátt fyrir þessi miklu hernaðarútgjöld hér á landi hefur engu fé verið varið til þess, sem helzt skyldi, að afla tækja til að geta varað þjóðina við lífshættulegum áhrifum frá geislavirku regni, og eru slík tæki þó mjög ódýr, a. m. k. ef miðað er við þá miklu fjármuni, sem varið hefur verið í hernaðarþarfir hér á landi síðustu árin.

Nú er það sannað, að eftir vetnissprengjutilraun Rússa í nóvember s. l. féll svo geislavirkt regn í Danmörku, að lífshættulegt hefði verið, ef Danir hefðu neytt þess. En talið var, að það hefði ekki komið að sök, þar sem þeir notuðu ekki regnvatn sem neyzluvatn. Hér á landi er það hins vegar staðreynd, að regnvatn er víða notað sem neyzluvatn. Má þar til nefna Vestmannaeyjar og fjölda sveitabæja, þar sem vatnsból eru ár og lækir, sem fyllast regnvatni í rigningatíð. Er því greinilegt, að með okkar þjóð er mjög mikill voði á ferðum, ef algert sinnuleysi ríkir í þessum efnum og ekki tekst að koma í veg fyrir áframhaldandi tilraunir með vetnissprengjur og kjarnorkuvopn. Af fréttum, sem nú berast um þau efni, er ljóst, að Bretar hyggjast framkvæma tilraunir með kjarnorkuvopn á næstunni, og grunur leikur á, að Bandaríkin hyggist einnig sprengja öflugri vetnissprengju en vitað er að til þessa hafi verið sprengd. Færi svo, væri það sízt að ófyrirsynju, þó að menn grunaði, að Rússar teldu sér þá nauðsyn að sprengja enn geigvænlegri sprengju til að sýna yfirburði í hinu kalda stríði. Gæti þetta svo haldið þannig áfram koll af kolli, unz geislavirk áhrif andrúmsloftsins hefðu aukizt svo, að öllu lífi væri voðinn vís. Þessi hætta er nú lýðum ljós, og þess vegna hafa margar þjóðir, eins og t. d. Japanir, Indverjar, Ný-Sjálendingar o. fl., skorað á stórveldin að hætta þessum hættulega leik og freista þess að komast að samkomulagi um bann við frekari tilraunum með vetnissprengjur og önnur kjarnorkuvopn.

Nú nýlega hafa æðstu menn Sovétríkjanna og Bandaríkjanna, hvorir í sínu lagi, lýst yfir því, að þeir væru reiðubúnir að hefja viðræður um slíkt bann. Er því nokkur von til þess, að það mætti takast, ef allar þær þjóðir, sem eingöngu stendur ógn af þessum tilraunum, leggjast á eitt um að knýja slíkar viðræður fram og eru nægilega samtaka um að krefjast þess, að frekari tilraunum með þessi vopn verði hætt. — Það er þess vegna, sem þessi till. er flutt. Hún er flutt í þeirri von, að Alþingi Íslendinga sjái ástæðu til að skipa íslenzkri þjóð við hlið þeirra þjóða, sem vilja leitast við að afstýra því, að mannkynið tortími sjálfu sér með gálauslegri meðferð á svigalævi kjarnorkunnar.

Ég tel ekki ástæðu til að mæla öllu fleiri orð fyrir þessari till., en vil í framhaldi af því, sem ég hef sagt, vísa til grg., sem fylgir till. á þskj. 149. Í niðurlagi þeirrar grg. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er skoðun flutningsmanna þessarar þáltill., að sérhverjum einstaklingi og sérhverri þjóð, sem sér og skilur þessar uggvænlegu staðreyndir, beri að gera, meðan tími er til, allt það sem hægt er til að koma í veg fyrir þá ógn, sem gervöllu mannkyni er búin af óvarlegri meðferð þeirrar ægiorku, sem nú hefur verið leyst úr læðingi. Þess vegna er tillagan flutt. Okkur er að sjálfsögðu ljóst, að rödd íslenzkrar þjóðar er ekki hávær né vilji hennar og óskir mikils metnar hjá kjarnorkustórveldunum. En þótt svo sé, er það ekki nægileg ástæða til að hafast ekkert að, þegar aðrar þjóðir, stórar og smáar, og einstaklingar annarra þjóða leggja sitt lóð á vogarskálarnar, létt eða þungt eftir atvikum, til að reyna að hafa áhrif á þau hamstola öfl, sem leika sér nú með þann eld, sem vitað er að gert getur að engu í ragnarökum alla menningu og framtíð mannkyns á vorri jörð.

Það lætur enginn undir höfuð leggjast að inna það af hendi, sem hann er skyldugur að gera, af þeirri ástæðu einni, að hann telji það fyrir fram mundu verða til minna gagns en hann gjarnan vildi. Og við lítum svo á, að íslenzkri þjóð beri fyrst og fremst skylda til að skipa sér við hlið þeirra, er vilja miðla málum, efla frið og reyna að stöðva það háskalega örlagatafl, sem nú er teflt um heill og líf allra þjóða. Hlutur íslenzkrar þjóðar í samfélagi þjóðanna verður naumast með öðru móti stærri né merkari gerr.“

Ég sé ekki ástæðu til að fara þess á leit við hæstv. forseta, að þessari umr. verði frestað og till. vísað til n., en ef hæstv. forseti skyldi hins vegar telja það eðlilega málsmeðferð, þá sætti ég mig að sjálfsögðu við það.