27.03.1956
Sameinað þing: 51. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í D-deild Alþingistíðinda. (2425)

114. mál, kjarnorkuvopn

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Ég vil ekki láta hjá líða við framhaldsumr. þessarar till. að lýsa ánægju minni yfir þeim lífsmörkum, sem hv. utanrmn. hefur nú sýnt hér með því að afgreiða loksins þessa till. og þar með frá sér eitt mál á vetrinum. Hins vegar kemst ég ekki hjá því að benda á það í þessu sambandi, hvers konar vanmetakennd kemur fram í áliti því og rökstuðningi, sem frá n. kemur í þessu efni. Þar er það notað sem aðalrökstuðningur fyrir brtt., sem n. ber fram við till., að n. sé ekki kunnugt um og hafi ekki tekizt að afla sér upplýsinga um, að aðrar þjóðir hafi samþykkt svipaða till. og hér liggur fyrir.

Ég fæ ekki séð, að það séu nokkur rök gegn því, að við samþykkjum þessa till., að aðrar þjóðir hafi ekki gert slíkt hið sama. Ég skil ekki þá vanmetakennd, sem lýsir sér í því og hefur einkennt, mótað utanríkismál okkar á undanförnum árum, að menn skuli fyrst og fremst grípa til þess að bera það á borð sem rök, að við megum ekkert aðhafast, sem aðrar þjóðir hafa ekki gert.

Það kann rétt að vera hjá hv. utanrmn., að aðrar þjóðir hafi ekki samþykkt þingsályktanir um að skora á ríkisstjórnir stórveldanna að fella niður frekari tilraunir með kjarnorkuvopn. Hitt er staðreynd, að ríkisstjórnir ýmissa þjóða, þ. á m. ríkisstjórnirnar í Ástralíu, Nýja-Sjálandi, Japan og Indlandi, hafa sent ríkisstjórnum stórveldanna þess konar ályktanir. Og það, að þjóðþingin hafa ekki fjallað um slíkar tillögur, hlýtur fyrst og fremst að stafa af því, að ríkisstjórnir þessara landa hafa haft dug í sér og manndóm til þess að gera þetta ótilneyddar. Hins vegar hefur ríkisstjórn Íslands aldrei sýnt neitt í þá átt og aldrei neinn vilja til þess.

Þetta er í annað skipti, sem till. er borin fram hér á Alþingi um þessi mál, og í bæði skiptin hafa fulltrúar ríkisstjórnarinnar í utanrmn, reynt að draga úr þessu og þvæla þessa ályktun þannig, að ekkert gagn yrði í henni og lítið vit. Að þessu sinni er þó till. utanrmn. skárri en á síðasta þingi, ég skal viðurkenna það. Og ég skal taka fram, að ég get, eins og sakir standa, fellt mig við þessa breytingu n., með þeim skilningi, að sá vettvangur, sem um er talað í brtt. nefndarinnar, sé einmitt sá vettvangur, sem felst í okkar till., og það sé sá eini vettvangur, sem þýði að ræða þessi mál á. Og ég vil vænta þess, að hæstv. ríkisstj. skilji þetta einnig þannig og snúi sér til ríkisstjórna kjarnorkuveldanna með tilmæli um það, að þær forði gervöllu mannkyni frá þeim háska, sem því stafar af tilraunum með kjarnorkuvopn og notkun kjarnorkuvopna.