27.03.1956
Sameinað þing: 51. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 222 í D-deild Alþingistíðinda. (2431)

195. mál, biskupsstóll í Skálholti

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Við höfum leyft okkur, hv. samþingismaður minn og ég, að flytja þessa þáltill. Hún er þess efnis, að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að undirbúa og leggja fyrir næsta þing frv. um endurreisn biskupsstólsins í Skálholti.

Það er ekki mikill tími til þess að orðlengja nú um mál yfirleitt, og ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða mikið um þetta mál. Ég get látið mér nægja að vísa til þeirrar grg., sem fylgir till. Í henni kemur fram, hvað fyrir héraðsfundum og prestum í Árnesþingi vakir með endurreisn staðarins.

Þannig stendur nú á, að á þessu ári er merkisafmæli biskupsstólsins forna, og væri vel til fallið, að ákvörðun væri tekin á næsta þingi um, hvað gera skuli við þann stað.

Þessi till. afmarkar ekki verksvið ríkisstjórnarinnar í málinu. Hún hefur þess vegna óbundnar hendur um að koma með í frumvarpsformi það, sem hún telur að mætti verða til viðreisnar staðnum og prýði, og það álít ég að einmitt eigi mjög vel við. Ég treysti því, að hæstv. ríkisstj. hafi áhuga á því að bæta og fegra þennan stað, og tel ekki rétt, að með fyrirmælum frá þinginu til að byrja með verði hendur hennar bundnar um tillögur. Ég vil mega vænta þess, að hv. Alþ. vilji af sinni hálfu stuðla að því, að þessum stað verði sýndur sómi. Það hefur dregizt úr hömlu langtum lengur en vera hefði átt.

Hv. þm. N-Þ. hefur borið fram brtt. við þessa till. og vill, að það verði sett í þál., að flytja skuli biskupsstólinn frá Reykjavík að Skálholti. Eftir till. hefur ríkisstj. óbundnar hendur um þetta atriði. Ég held, að það væri æskilegast, að þetta verði látið óákvarðað og hæstv. ríkisstj. hafi þar óbundnar hendur, og vil því beina til hv. þm. N-Þ. eindreginni ósk um, að hann taki sína till. aftur. Með flutningi hennar hefur hann vakið athygli á þessu atriði, og það vil ég vona að sé nóg og hann láti sér það lynda, en fari ekki að halda henni hér fram.

Þetta mál er einfalt í því formi, sem það er borið fram, og komið að þinglausnum, svo að ég geri ekki að till. minni, að málinu sé nú vísað til n., og vil ég vona, að hv. Alþ. geti fallizt á þá ósk mína.