27.03.1956
Sameinað þing: 51. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í D-deild Alþingistíðinda. (2432)

195. mál, biskupsstóll í Skálholti

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 2. þm. N-M. að bera fram brtt. við þá till., sem fyrir liggur á þskj. 557, um endurreisn biskupsstóls í Skálholti. Það, sem við leggjum til, er, að í staðinn fyrir að undirbúa og leggja fyrir næsta þing frv. um endurreisn biskupsstóls í Skálholti komi: að undirbúa og leggja fyrir næsta þing frv. um flutning biskupsstóls frá Reykjavík að Skálholti.

Það getur vel verið, að það sé þetta, sem fyrir flm. till. vakir, en okkur þótti rétt, að þetta væri skýrar fram tekið en gert er í till. eins og hún liggur fyrir.

Það er skoðun okkar og sjálfsagt margra annarra, að þannig verði vegur Skálholts mestur, að sá biskupsstóll, sem nú er, verði þangað fluttur. Eigi hins vegar að vera í framtíðinni tveir biskupsstólar á Íslandi, annar í Skálholti og hinn annars staðar, ber tvímælalaust að stefna að því, að það verði hinir fornu biskupsstólar í Skálholti og á Hólum. Enga nauðsyn ber til þess, eins og nú háttar, að biskup sitji í Reykjavík, þó að það þætti fyrir 150 árum, á niðurlægingartíma þjóðarinnar, rétt að flytja biskupsstólinn þangað frá Skálholti.

Hv. 1. flm., hv. 1. þm. Árn., beindi því til okkar flm., hvort við vildum ekki taka þessa brtt. aftur og láta okkur nægja, að fram kæmi sú bending til ríkisstj., sem í því fælist, að hún hefði komið fram. Við höfum ekki haft ráðrúm enn til þess að ræða um það atriði.