09.11.1955
Sameinað þing: 11. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 224 í D-deild Alþingistíðinda. (2440)

19. mál, varnarsamningur við Bandaríkin

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hygg, að það sé óþarft að hafa að þessu sinni langa framsöguræðu fyrir till. þessari. Á tveim undanförnum þingum höfum við Alþýðuflokksmenn borið fram till. til þál. um varnarsamninginn milli Íslands og Bandaríkjanna. Þessi till., sem hér er flutt, er efnislega í fullu samræmi við þær till., sem við höfum flutt á tveimur undanförnum þingum. Aðeins er forminu nokkuð breytt með tilliti til breytts ástands í alþjóðamálum, ef svo mætti segja.

Meginefni þessarar till. er það, að vegna breyttra aðstæðna, frá því að varnarsamningurinn var gerður milli Íslands og Bandaríkjanna fyrir hönd Norður-Atlantshafsbandalagsins árið 1951, álykti Alþingi að fela ríkisstj. í samráði við utanrmn. að hefja nú þegar undirbúning að breytingum á þeirri skipun, sem þá var upp tekin, í því skyni, að hægt verði með stuttum fyrirvara að láta varnarlið það, sem nú dvelur í landinu samkvæmt samningum, hverfa héðan. Skal því leita eftir endurskoðun á samningnum samkvæmt 7. gr. hans með það fyrir augum að fá þær breytingar gerðar á honum, sem vikið er að í einstökum tillöguliðum. Fáist viðunandi lausn varðandi þau atriði, sem í till. greinir, telja flm., að meðan ekki þyki fært vegna ástands í alþjóðamálum að láta herinn með öllu hverfa burt, sé fært að hafa varnarliðið áfram í landinu. Er í skilyrðunum lögð sérstök áherzla á, að uppsagnarfresturinn verði styttur, þannig að Alþingi geti einhliða ákveðið með stuttum fyrirvara að láta varnarliðið hverfa burt, þegar það metur ástandið í alþjóðamálum slíkt, að það sé óhætt vegna ástands í alþjóðamálum og öryggis landsins.

Þau atriði, sem sérstök áherzla er lögð á í till., eru þau, sem nú skal greina:

Í fyrsta lagi, að íslenzkir aðilar annist allar framkvæmdir, sem ákveðnar voru á grundvelli varnarsamningsins frá 1951 og enn er ólokið. Þegar þetta mál var síðast til umræðu, á síðasta þingi, skildist mér á hæstv. utanrrh., að þessu skilyrði mundi vera hægt að verða við. Hann lýsti því yfir, að Hamilton mundi verða horfið burt með allt sitt lið eigi síðar en um áramótin 1954–55. Eftir þeim upplýsingum, sem ég nú hef fengið, er Hamilton enn starfandi hér með nokkuð af erlendum verkamönnum, og nýtt félag, Nello Teer & Co., hefur einnig mikil verkefni með höndum suður á velli. Eftir því sem mér er sagt, mun láta nærri, að um 1000–1100 erlendir verkamenn séu þar að störfum hjá þessum tveimur félögum og í annarri vinnu, sem til fellur þarna á vellinum. Eftir því sem mér skildist á hæstv. utanrrh. í umr. um þetta á síðasta þingi, taldi hann, að ekki mundi til þess koma, að svo stór hópur erlendra verkamanna mundi verða hér framvegis.

Í öðru lagi var lögð á það áherzla í fyrri tillögunum og er einnig í þessari, að sá hluti Keflavíkurflugvallar, sem fyrst og fremst er ætlaður til nota í þágu varnarliðsins, verði girtur og öll umferð um hann bönnuð. Mér er sagt, að utan um gamla vallarsvæðið, eins og það fyrst var ákveðið, sé að mestu leyti sú girðing, sem snemma á dvöl þess var gerð, en ekki sé búið að gera girðingu um hið stærra svæði, sem ætlað mun að verði innan þeirra girðinga, sem hæstv. utanrrh. ræddi um við umr. um mál þetta á seinasta þingi. Og enn mun ekki lokið að gera milligirðingu á milli athafnasvæðis varnarliðsins á flugvellinum og starfssvæðis Íslendinga í sambandi við rekstur flugvallarins í heild og umferðarþjónustuna þar. Mig furðar á, að ekkert skuli hafa áunnizt í þessu efni, eftir þeim undirtektum, sem hæstv, ráðh. gaf við umr. síðast, og vænti þess, að ekkert sé því til fyrirstöðu, að fallizt verði á að setja þetta sem eitt af atriðunum í sambandi við endurskoðun og auðvelt megi telja að fá því framgengt.

Þá er í 3. lið gert ráð fyrir, að ríkisstj. hefji þegar undirbúning að því, að Íslendingar taki í sínar hendur rekstur, viðhald og gæzlu þeirra mannvirkja, sem byggð hafa verið eða óbyggð eru á grundvelli varnarsamningsins frá 1951. Enn vantar mikið á að sjálfsögðu, að menn séu fullþjálfaðir til þessara starfa. Ég minnist þess, að á síðasta þingi voru bornar fram till. í þessa átt af þingmönnum bæði Sjálfstfl. og Framsfl., þess efnis, að Íslendingar tækju í sínar hendur þjónustu og starfsemi radarstöðvanna, sem nú er verið að fullgera viða um landið. Ég vildi því mega vænta þess, að einnig þingmenn stjórnarflokkanna gætu á það fallizt, að nú þegar yrði hafizt handa um að flytja umsjá, gæzlu og varðveizlu þessara mannvirkja og starfrækslu þeirra í hendur íslenzkra manna, án þess að nokkuð sé þar um hernaðarþjálfun eða annað slíkt að ræða. Að sjálfsögðu er þess að vænta, að kostnaðurinn við viðhald þessara mannvirkja vegna Norður-Atlantshafsbandalagsins verði borinn og um það semjist við þá, sem þar eru aðilar að málinu, sem er að sjálfsögðu Norður-Atlantshafsbandalagið fyrst og fremst.

4. liður till. gengur í þá átt, að þegar svo er komið, að Íslendingar hafa þjálfað menn til að taka að sér gæzlu og varðveizlu þessara mannvirkja eða fengið útlenda sérfræðinga í sína þjónustu — ekki í þjónustu hersins — til þess að annast þessi störf, þá geti Alþingi hvenær sem er með sex mánaða fyrirvara sagt samningnum upp, ef það metur ástandið þannig, að það telji það réttmætt.

Þetta eru meginatriði till. og hin sömu og voru í till. þeim, sem við höfum flutt á tveimur undanförnum þingum. En til viðbótar er það sett hér í þessa till., að Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hefjast þegar handa um ráðstafanir í því skyni að tryggja atvinnuskilyrði þeirra manna, sem nú vinna að framkvæmdum samkv. varnarsamningnum, þegar þeim lýkur. Eins og ástandið er nú í alþjóðamálum, verður því ekki neitað, að fremur stefnir í friðvænlega átt en undanfarið hefur verið, og ástandið er allt annað nú en það var 1951, þegar þessi samningur var gerður. Menn kann að greina á um það, hvernig þróunin verði á næsta tímabili, en ég vek athygli á því, að samkvæmt þessari till. er gert ráð fyrir, að sex mánuðir verði notaðir til að reyna að fá fram breytingar á samningnum, náist ekki viðunandi árangur af þeim tilraunum, þá skuli segja samningnum upp, og þá eru enn eftir tólf mánuðir, þar til samningurinn fellur úr gildi. Setjum svo, að þessi till. yrði samþ. og miðað yrði við áramótin næstu, þá yrði þó ekki fyrr en á miðju ári 1957, sem herinn væri skyldur að hverfa úr landi. Ég geri mér vonir um, að á þeim tíma verði nokkuð greinilega séð, hver þróunin verður í alþjóðamálum, hvort áframhaldandi stefnir til friðvænlegra horfs eða hvort það snýst við og horfir frekar í átt til sundurlyndis, átaka og ófriðar. Eftir því verðum við Íslendingar að sjálfsögðu að haga okkur á þeim tíma, þegar þar að kemur. Hitt hygg ég að við getum öll verið sammála um, að sú hætta, sem rætt var um með nokkrum rökum 1951 að vera kynni á því, að til skyndiárásar kæmi, virðist ekki fyrir hendi nú. Það má hiklaust fullyrða, að eins og ástandið er nú í alþjóðamálum og ef það breytist ekki til hins verra, þá þurfi ekki að óttast skyndiárás, sem öllum komi á óvart. Viðbúnaður, sem þyrfti undir slíkt, og breytingar hlytu að taka nokkurn tíma, þannig að hægt væri að átta sig á málunum, áður en til slíks kæmi. Enn fremur er þess að gæta, að radarstöðvarnar verða væntanlega fullgerðar nú bráðlega og þar með upplýsingaþjónusta í sambandi við þetta í miklu fullkomnara lagi en hægt var að gera ráð fyrir, þegar samningurinn var gerður 1951.

Ég vænti því, að hæstv. ríkisstj. og flokkar hennar geti nú að þessu sinni fallizt á að afgreiða þessa till., leita eftir því við Norður-Atlantshafsbandalagsráðið, hvort ekki sé eðlilegt að taka upp breytta skipun í þessu efni vegna breytts ástands í alþjóðamálum.

Nú stendur svo sérstaklega á, að hæstv. utanrrh. er form. NATO að þessu sinni. Hann hefur því alveg sérstaklega góða aðstöðu til þess að gera samstarfsmönnum sínum í ráðinu grein fyrir sérstöðu og afstöðu Íslendinga í þessu máli og hverjar óskir þeir hafi fram að bera. Aldrei hefur því verið jafngóð aðstaða til þess með samkomulagi við aðrar þjóðir Atlantshafsbandalagsins að fá fram þær breytingar á samningnum, sem við Íslendingar teljum nauðsynlegar, og það í fullu vinfengi við þessar bandalagsþjóðir okkar. Ég vil því sem sagt mega vænta þess, að þessi till. fái nú afgreiðslu að þessu sinni hér í þinginu og að hæstv. ríkisstj. og flokkar hennar fallist á, að málið verði tekið upp á þeim grundvelli, sem í þessari till. segir, við ráð Atlantshafsbandalagsins og aðra þá aðila, sem að þessum málum standa.

Ég vil leyfa mér að gera það að till. minni, að þessari umr. verði frestað, þegar menn hafa lokið ræðum sínum hér, og málinu vísað til utanrmn.