27.03.1956
Sameinað þing: 51. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í D-deild Alþingistíðinda. (2443)

19. mál, varnarsamningur við Bandaríkin

Frsm. 1. minni hl. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Þetta mál, sem nú er tekið hér til umr., hefur legið hér fyrir þinginu í næstum allan vetur; það er 19. mál þingsins, og voru tillögur um það lagðar fyrir snemma á því þingi, sem nú er að enda. Það hefur verið rætt um þetta mál nokkrum sinnum í utanrmn., eftir að málinu var vísað þangað, án þess að niðurstaða hafi fengizt, þangað til nú, að fundir voru haldnir fyrir nokkrum dögum, og komst þá nokkur skriður á málið. Þó ber afgreiðsla málsins frá n. það með sér, að hún hefur því miður ekki getað orðið sammála, heldur skiptist hún í þrjá hluta, 1, minni hl. og 2. minni hl., sem bera fram brtt., og þann þriðja, sem leggur fram rökstudda dagskrá í málinu.

Við, sem stöndum að 1. minni hl. í þessu máli, erum hv. 1. þm. Árn., hv. 1. landsk. og ég. Tillöguna, sem við leggjum fram, er að finna á þskj. 623, og þessi till. er svo stutt og svo ljós, að hún þarf ekki mikilla skýringa við. Þau rök, sem við teljum að hnígi að því, að samþykkja eigi þessa till. nú, eru aðallega þau, sem ég nú skal taka fram:

Ég vil, áður en ég minnist á þau rök, sem ég færi hér fram fyrir till., geta þess, að ég hef tvívegis ritað opinberlega um þetta mál, fyrst um áramótin og síðan nú fyrir stuttu, og fært fram í meginatriðum og nokkuð ýtarlega þau rök, sem ég færi fram hér.

Þegar við gerðumst þátttakendur í Atlantshafsbandalaginu, var það gert með skilyrðum. Eins og hv. þingmenn áreiðanlega muna, var nokkur andstaða gegn því að ganga í Atlantshafsbandalagið, og lyktaði því svo, að þrír ráðherrar fóru vestur til Bandaríkjanna, þeir Bjarni Benediktsson, Emil Jónsson og Eysteinn Jónsson, til þess að gera grein fyrir afstöðu okkar í þessu máli og setja fram ákveðin skilyrði fyrir því, að við gengjum í Atlantshafsbandalagið. Þegar Atlantshafsbandalagið var stofnað, var, eins og löngum vill verða í þessum heimi og verður sennilega lengi, nokkur styrjaldarhætta, því að eins og þingmenn muna geisaði þá styrjöld á vissum svæðum. En þrátt fyrir þessa styrjaldarhættu, sem var 1949, og einmitt kannske vegna hennar, gengum við í Atlantshafsbandalagið, en án þess að leyfa, að her settist að í landinu. Þeir ráðherrar, sem fóru vestur til Bandaríkjanna til að ræða þessi mál þar, gerðu grein fyrir þessu áliti Íslands, þessu áliti Alþingis, og birtu, þegar þeir komu, alllanga skýrslu um viðtöl sín við stjórnarvöld Bandaríkjanna, þ. á. m. utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og þessi skýrsla er birt sem greinargerð með frv. um Atlantshafsbandalagið, sem var lagt fram hér á Alþingi.

Það, sem utanríkisráðherra Bandaríkjanna féllst á, var, með leyfi hæstv. forseta, þetta, án þess að ég lesi upp greinargerð ráðherranna alla:

„Í lok viðræðnanna var því lýst yfir af hálfu Bandaríkjamanna:

1) Að ef til ófriðar kæmi, mundu bandalagsþjóðirnar óska svipaðrar aðstöðu á Íslandi og var í síðasta stríði, og það mundi algerlega vera á valdi Íslands sjálfs, hvenær sú aðstaða yrði látin í té.

2) Að allir aðrir samningsaðilar hefðu fullan skilning á sérstöðu Íslands (þ. e. mannfæðinni á Íslandi, sem gerir svo erfitt að hafa hér her).

3) Að viðurkennt væri, að Ísland hefði engan her og ætlaði ekki að stofna her.

4) Að ekki kæmi til mála, að erlendur her eða herstöðvar yrðu á Íslandi á friðartímum. Reykjavík, 26. marz 1949.

Bjarni Benediktsson, Emil Jónsson, Eysteinn Jónsson.“

Þetta voru þau afdráttarlausu skilyrði, sem við settum fyrir því að ganga í Atlantshafsbandalagið.

En árið 1951 stóð yfir styrjöld í Kóreu, stóð þá einna hæst, og öll ríki, sem verulegum her réðu og voru í Atlantshafsbandalaginu, tóku þátt beint eða óbeint í þeirri styrjöld. Á þessum tíma var okkur sagt það af bandalagsríkjunum í Atlantshafsbandalaginu, að þau teldu svo tvísýnt um friðarhorfur, að þau gætu ekki sagt um það með neinum fyrirvara, hvort styrjöld mundi brjótast út eða ekki. Ég efast ekki um, að þeir, sem. gáfu þær skýrslur, hafa álitið sig gefa réttar skýrslur um það atriði, enda flestir sammála um, að tvísýnt væri um þessi mál í meira lagi, en eftir að þeir gáfu okkur þessa skýrslu, féllst íslenzka ríkisstjórnin á að gera hervarnarsamninginn frá 1951. Eins og samningurinn ber með sér, er hann með stuttum uppsagnarfresti, enda við það miðaður samkvæmt þeim skilmálum, sem við settum, þegar við gengum í Atlantshafsbandalagið, að hér væri ekki her, nema þegar væri yfirvofandi árásarhætta eða styrjöld, þ. e. hér væri ekki her á friðartímum. Við álitum, að þess vegna væri eðlilegt að hafa uppsagnarfrestinn stuttan, og það er svo ákveðið í 7. gr. þessa samnings, að það á að ræðast við um málin í hálft ár og síðan er hægt að segja samningnum upp með eins árs fyrirvara.

Ég ætla ekki að orðlengja frekar um ástandið 1951. En ég held, að flestir séu sammála um það nú, að ástandið hefur breytzt smátt og smátt, ófriðarhættan hefur minnkað, þó að maður geti vitanlega aldrei sagt um það með neinni vissu, hvort ófriðarhættan er mikil eða lítil. En það er ljóst, að verulega hefur dregið úr styrjaldarhættunni og það svo mjög, að forseti þess veldis, sem taldi í samtali við okkur 1951, að styrjöld gæti brotizt út með svo stuttum fyrirvara, að þeir gætu ekki komið því við að koma hingað vörnum, hefur sagt nú nýlega í blaðaviðtali, að styrjöld væri nú næstum því óhugsanleg.

Það er víst flestum ljóst og er reyndar viðurkennt af þessum veldum sjálfum, að viðureignin milli stórveldanna hefur flutzt yfir á fjármálasviðið meira en það svið, sem var áður ógnun um árás. — Það er auðsætt mál og öllum kunnugt, sem eitthvað dálítið fylgjast með, og því miður fylgist ég ekki nægilega vel með til þess að hafa hér uppi orðræður um það, en þó það mikið, að ég held, að það sé flestum ljóst, að nú er baráttan komin yfir á fjármálasviðið og er barátta um það, hvert af þessum stórveldum sitji fyrir þeirri iðnvæðingu, sem nú er að gerast í þeim löndum, sem skemmra eru komin.

Það er þess vegna að mínu áliti tvímælalaust, að ástandið núna 1956 verður naumast talið meira hættuástand, án þess að fullyrt sé nokkuð annað, en 1949, þegar við gerðum samninginn um Atlantshafsbandalagið með því skilyrði, sem ég hef hér lesið upp, að hér væri ekki her á friðartímum, og töldum ekki ástæðu til 1949 og 1950 og ekki fyrr en á árinu 1951, þegar styrjöldin geisaði í Kóreu, eins og ég sagði áðan, að taka hér inn her. Og ef það er rétt, að ástandið sé a. m. k. ekki hættulegra núna 1956 og ekki útlit fyrir, að það verði á næstu árum, þó að maður geti ekki spáð verulega og alls ekki spáð fram í tímann, þá eru sömu ástæður fyrir hendi og 1949 og okkur skylt að standa við þá utanríkismálayfirlýsingu, sem við gáfum 1949. Við verðum að gera greinarmun á því, að þessir samningar, Atlantshafsbandalagið og samningurinn frá 1951, eru tveir samningar, sem að vísu eru mjög skyldir, mjög tengdir saman, en það er ekki sami samningurinn. Atlantshafssamninginn, um þátttöku í Atlantshafsbandalaginu, undirrituðum við með þeim skilyrðum, sem ég las upp hér áðan, og það þarf naumast að taka það fram, þó að það sé tekið fram hér í þáltill., að við höldum okkur við hann, en þótti þó rétt og skylt að taka það fram, að við stöndum vitanlega við þann samning. Þó að við segjum upp samningnum frá 1951 samkv. efni hans, þá stöndum við við samninginn frá 1949 út í yztu æsar, enda kæmi vitanlega annað ekki til mála, og það vil ég leggja áherzlu á. Ég var ekki hrifinn af þessum samningi, en ég yrði síðasti maður til þess að mæla með því, að við riftum einu orði í þeim samningum, — eins og samningnum um Atlantshafsbandalagið, — sem við höfum gert við aðrar þjóðir, og það er auðvelt að færa rök að því, að við riftum ekki samningnum frá 1949 að neinu leyti með því að segja upp samningnum frá 1951.

Samningurinn um Atlantshafsbandalagið er vörn vestrænna þjóða gegn árás, og við álítum hann okkur nægilegan á tímum, sem eru eins og þeir, sem voru 1949, og á tímum, sem eru eins og þeir eru nú í dag og lítur út fyrir að verði. Við það öryggi, sem í þeim samningi felst á slíkum tímum, viljum við búa án þess að hafa her. En ef það koma fyrir tímabil eins og 1951 og árin þar á eftir, teljum við rétt að taka hér inn her til þess að vera viðbúnir skyndiárás, ef styrjöld er talin alveg yfirvofandi, og við teljum ekki, að það ástand sé nú. Þess vegna ber eftir utanríkisstefnu Íslands, sem er margyfirlýst, að láta fara að undirbúa það, að herinn fari héðan og við tökum sjálfir gæzlu vallanna í okkar hendur, eins og gert er ráð fyrir í samningnum frá 1951, því að það er beinlínis gert ráð fyrir því, að herinn fari og að þá sé Íslendingum skylt að gera samninga um að gæta þessara mannvirkja og halda þeim við. Er það enn ein sönnun þess, sem að vísu þarf ekki til viðbótar því, sem áður hefur verið nefnt, að gert er ráð fyrir, að þó að samningurinn um Atlantshafsbandalagið stæði og hér stæðu þessi mannvirki, sem nú eru, kynni samningnum frá 1951 að verða sagt upp og herinn fara héðan.

Af þessum ástæðum, sem ég hef nú greint sem nokkur rök fyrir því, að ég álít, að það eigi að samþ. brtt. 1. minni hl., verð ég að lýsa því yfir, að ég er andvígur brtt. á þskj. 641. Þar stendur síðast í 1. málsgr., að eigi skuli vera erlendur her á Íslandi á friðartímum „þrátt fyrir aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu“. Þrátt fyrir þá ágalla, má ótvírætt lesa út úr orðalaginu, að við erum í Atlantshafsbandalaginu, þá skal ekki vera hér her, hvað þá ef við værum ekki í Atlantshafsbandalaginu. Hér er óbeint kveðið þannig að orði, að það er látið liggja að því að fordæma þátttöku okkar í Atlantshafsbandalaginu, enda till. sennilega borin fram í þeim tilgangi að komast fram hjá 1. málsgr. í till. okkar þremenninganna. Enn fremur er ýmislegt annað í till., sem ég sé ekki ástæðu til að eyða tíma til að rekja.

Viðkomandi dagskránni vil ég segja það, að af þeim rökum, sem ég hef talið fram fyrir því að samþ. þá till., sem við þremenningarnir berum fram, leiðir af sjálfu sér, að ég álít eðlilegt að greiða atkv. gegn dagskránni.

Það er hægt að setja fram endalaust spurningar af sama tagi og liggja fyrir í þessari dagskrá, og ef við byrjum á að gera það, er hægt að halda því lengi áfram. Vitanlega komumst við ekkert áfram með að framfylgja þeirri stefnu, sem við höfum markað okkur í utanríkismálum, mörkuðum okkur 1949, og reyndar 1951, að hafa hér her, þegar árásarhætta væri yfirvofandi, ef við ætlum stöðugt að spyrjast fyrir um það, hvað aðrir álíta um þessi mál, enda er það beinlínis tekið fram í forsendunum fyrir samningnum frá 1949, að Ísland ráði því að sjálfsögðu algerlega sjálft, hvenær það veiti þessa aðstöðu, og að það komi ekki til mála, að hér sé her á friðartímum. Við getum ekki ráðið því sjálfir, ef við myndum okkur ekki skoðun um það sjálfir, það leiðir af hlutarins eðli. Án þess að ég fullyrði nokkuð um það, að þeir hernaðaraðilar, sem hér eiga hlut að máli, gefi ekki réttar upplýsingar, þá leiðir það alveg af sjálfu sér, að þeir gefa a. m. k. alltaf varfærnislegar upplýsingar og þeir eru ákaflega seinir á sér að gefa þær upplýsingar eða þau svör, að nú sé öllu óhætt í heiminum og það sé alveg óhætt, við skulum bara rólegir krefjast þess, að herinn fari héðan burt. Ég gæti trúað, að það yrði dálítill dráttur á því, því að af eðlilegum ástæðum þurfa þeir kannske mest á því að halda núna, báðir aðilar, að halda uppi áhuga í sínu liði, einmitt þegar friðarhorfurnar aukast, og þess vegna verða þeir undir öllum kringumstæðum að vera mjög varfærnir í að gefa út yfirlýsingar í þá átt, að nú sé öllu óhætt. Ég er því ákaflega hræddur um, að það yrði nokkuð langur dráttur á því, að við fengjum slíkar yfirlýsingar, og við gætum seint staðið við okkar utanríkisstefnu, sem við mörkuðum 1949, ef við ætlum að bíða eftir þeim yfirlýsingum.

Ég skal svo ekki orðlengja frekar um þetta mál. En ég held satt að segja, að ef við athugum þetta mál ofan í kjölinn og frá hvaða hlið sem við rannsökum það og athugum það í samræmi við þær upplýsingar, sem við höfum nú um friðarhorfur, þá sé eðlilegt og það eina eðlilega að stíga þetta skref núna. Og vil ég vekja athygli á því, að ef við stígum ekki þetta skref núna, eins og nú horfir, þá er það breyting á þeirri utanríkismálastefnu, sem við lýstum yfir 1949 og raunar lýstum yfir, þegar við gengum í Sameinuðu þjóðirnar, því að sjálfsagt muna menn eftir því, að við gengum í Sameinuðu þjóðirnar einnig með því skilorði, að hér mætti aldrei fara her yfir land nema með okkar samþykki á friðartímum.

Ég legg svo til, að brtt. 1. minni hl. verði samþykkt.