27.03.1956
Sameinað þing: 50. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í D-deild Alþingistíðinda. (2460)

194. mál, lán fyrir Ólafsfjarðarkaupstað til raforkuframkvæmda

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Við þm. Eyf. höfum leyft okkur að bera fram þáltill. á þskj. 553 um heimild fyrir ríkisstj. til þess að ábyrgjast lán fyrir Ólafsfjarðarkaupstað til raforkuframkvæmda. Í þessari þáltill. er lagt til, að Alþ. álykti að heimila ríkisstj. að ábyrgjast allt að 500 þús. kr. lán, sem Ólafsfjarðarkaupstaður kann að taka til þess að greiða kostnað við endurbætur á rafveitukerfi kaupstaðarins í sambandi við tengingu kerfisins við háspennulínu frá Skeiðsfossvirkjuninni.

Í grg. fyrir till, eru ástæðurnar til þess, að hún er fram borin, teknar fram. Þar er þess getið, að í sumar komandi eigi að leggja háspennulínu frá Skeiðsfossvirkjun til Ólafsfjarðarkaupstaðar. En þá, þegar á að tengja bæjarkerfið, sem fyrir er í Ólafsfirði, við þessa háspennulínu, þarf að gera margvíslegar endurbætur á rafveitukerfi kaupstaðarins, og hefur sá kostnaður, sem af þessu mundi leiða, verið áætlaður 500–600 þús. kr.

Nú óskar bæjarstjórn Ólafsfjarðarkaupstaðar, að rafveitan verði áfram í eigu kaupstaðarins, þ. e. a. s. rafveitukerfið í kaupstaðnum, svo sem er á Sauðárkróki og Húsavík og fleiri kaupstöðum.

Það sýnist ekki mikil áhætta, þó að Alþ. samþ. þessa þáltill. Ef kaupstaðurinn á ekki að eiga rafveitukerfið innanbæjar og rafveitur ríkisins ætla sér að bæta það eins og þarf, þá mundi ríkið eða rafveiturnar þurfa að leggja fram þessa upphæð a. m. k., sem ég gat um.

Ef aftur á móti er heimilað að ganga í ábyrgð fyrir Ólafsfjarðarkaupstað fyrir þessari upphæð og hann getur fengið lán og gert þetta sjálfur, þá mundi hann að sjálfsögðu setja rafveitukerfið að veði fyrir láninu, og ef hann stæði ekki í skilum, mætti vitanlega taka það. Væri þá komin sama niðurstaða og ef rafveitur ríkisins gerðu þetta sjálfar.

Í 22. gr. raforkulaganna er svo ákveðið, að til þess að koma upp orkuverum fyrir héraðsrafveitur eigi ríkið að ábyrgjast 85% af þeim kostnaði. Ég hef orðið þess var, að sumir eru í nokkrum vafa um, hvort þörf sé á þessari till., og telja, að þetta ákvæði í 22. gr. raforkulaganna nægi í þessu efni, ríkisstj. hafi heimild án samþykkis Alþingis. En ég held, að þetta sé misskilningur, því að hér er aðeins talað um og átt við raforkuver, þ. e. aflstöðina, en ekki dreifinguna, svo að ég held, að það sé þörf á sérstakri heimild Alþ. til að ganga í slíka ábyrgð sem hér er farið fram á.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta. Málið er ákaflega ljóst og einfalt, og verða hv. þingmenn að ákveða, hvort þeir vilja samþ. að veita Ólafsfjarðarkaupstað þessa hjálp.

Ég heyri sagt, að það muni eiga að slíta Alþingi á morgun, og ég sé ekki, að nefndir hafi héðan af mikinn tíma til þess að afgreiða mál, sem til þeirra er vísað nú. Hefði þessi till. verið fyrr til umr., mundi ég að sjálfsögðu hafa stungið upp á því, að henni yrði vísað til hv. fjvn. En af því, hvernig á stendur, get ég ekki séð ástæðu til þess að stinga upp á þessu. — Ég fæ nú rétt í þessu vitneskju um það, að hv. fjvn. muni halda fund nú um miðjan daginn, og breytir það málinu nokkuð. Mun ég því leggja til, að till. verði vísað til hv. fjvn. í því trausti, að hún afgreiði till. á þessum fundi, sem hún hyggst að halda.