28.03.1956
Sameinað þing: 52. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í D-deild Alþingistíðinda. (2467)

198. mál, kaup hlutabréfa síldarbræðslunnar h/f

Frsm. (Pétur Ottesen):

Fjvn. hefur eftir tilmælum frá ríkisstj. flutt þessa þáltill. Á fund nefndarinnar í gær komu hæstv. sjútvmrh. og hæstv. fjmrh. og lögðu þetta mál fyrir n. og óskuðu, að hún tæki það til flutnings.

Það var eins og um þá till., sem ég lýsti hér áðan, að n. gafst lítill tími til athugunar á málinu, en því fylgja hér allgóðar upplýsingar um þann tilgang, sem hér er stefnt að, og þá úrlausn, sem á að felast í þessum ráðstöfunum til tryggingar atvinnulífinu á Seyðisfirði.

Samkv. þessari till. er ríkisstj. heimilað gegn þeim tryggingum, sem hún metur gildar, að ábyrgjast fyrir Seyðisfjarðarkaupstað lán til hlutabréfakaupa í Síldarbræðslunni h/f á Seyðisfirði, enda samþykki ríkisstj. kaupverðið. Enn fremur er ríkisstj. heimilt að ábyrgjast allt að 1½ millj. kr. lán til endurbóta á síldarverksmiðjunni, ef hlutabréfakaupin takast.

Þannig hagar til á Seyðisfirði, að þaðan er gerður út einn togari, og hefur að sjálfsögðu verið stofnað til þeirrar útgerðar með það fyrir augum að efla atvinnulíf á staðnum. En nauðsynlegur þáttur í því, að svo geti orðið, var það, að komið yrði upp hraðfrystihúsi á Seyðisfirði, og annar þáttur í lausn þess máls er að sjálfsögðu sá, að jafnframt sé fyrir hendi beinamjölsverksmiðja á staðnum til þess að vinna úr fiskúrganginum. Nú er þeim málum komið svo á Seyðisfirði, að þar er langt komið að byggja hraðfrystihús, sem gert er ráð fyrir að kosti um 6 millj. kr. En það, sem á skortir í þessu sambandi, er, að þar er engin beinamjölsverksmiðja til þess að nota í sambandi við hraðfrystihúsið. Þess vegna hefur við athugun á lausn þessa máls orðið ofan á hjá forráðamönnum Seyðisfjarðarkaupstaðar, að í stað þess að byggja þar beinamjölsverksmiðju festi bæjarstjórinn kaup á þeirri síldarmjölsverksmiðju eða síldarbræðslu, sem þetta hlutafélag á Seyðisfirði á. En til þess að svo geti orðið, þarf bærinn að fá ríkisábyrgð fyrir kaupverðinu. Nú er ætlun þeirra enn fremur að stækka nokkuð þessa verksmiðju, sem þarna er fyrir. Hún getur nú unnið úr 900 málum síldar á sólarhring, en ætlunin mun vera að stækka þessa verksmiðju allt upp í það, að hún geti unnið úr helmingi meira hráefni á hverjum sólarhring, eða um 2000 málum. En til þess að svo geti orðið, er talið nauðsynlegt, að ríkisstj. ábyrgist lán, sem þarf til stækkunarinnar og nemur 1½ millj. kr. Þessi verksmiðja á svo að inna af hendi það tvöfalda hlutverk að geta brætt síld, svo sem gert hefur verið í gömlu verksmiðjunni, og einnig unnið úr fiskúrgangi.

Þannig liggur þetta mál fyrir, og ég held, að það sé ekki fyrir mig þörf á að skýra það nánar, enda eru upplýsingar um þetta mál prentaðar sem fskj. með þáltill, á þskj. 642.

Fjvn. vildi verða við þessum tilmælum ríkisstj., enda af hálfu viðkomandi ráðh. lögð allmikil áherzla á, að till. þessi yrði flutt og þetta mál fengi þá afgreiðslu, sem í till. felst. Ég vil taka það fram, að það er ekki nefnd sú upphæð, sem gert er ráð fyrir að ríkissjóður veiti ábyrgð fyrir í sambandi við kaupin, og ástæðan fyrir því, að þetta er ekki gert, er sú, að enn eru ekki hafnir samningar um kaup á verksmiðjunni. Þótti því ekki hyggilegt að vera að setja neina upphæð inn í till. að því er kaupverðið snertir eða þá ábyrgð, sem ríkisstjórninni er heimilt að veita fyrir kaupverðinu. En þess er sjálfsagt að vænta, að ríkisstj. gæti hagsmuna ríkisins í sambandi við þetta og ríkissjóður verði þannig tryggður, að ekki hljótist tjón af fyrir hann. Hins vegar er þetta talið mikilsvert atriði til þess að halda uppi atvinnu á Seyðisfirði og talin líkindi til, eftir því sem kemur fram í þessum bréfum, að þegar búið sé að koma upp hraðfrystihúsinu og fiskimjölsverksmiðju, muni útgerð á staðnum aukast, sem nú mun ekki vera mikil fram yfir það, sem togarinn leggur þar á land. En talið er, að skilyrði séu fyrir því, að útgerð geti aukizt, þegar þannig er búið að búa í haginn fyrir hana, enda er alveg sýnilegt, að það er nauðsynlegt, miðað við það mikla fé, sem búið er eða búið verður þá að binda í þessum framkvæmdum á Seyðisfirði.