31.01.1956
Sameinað þing: 35. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í D-deild Alþingistíðinda. (2479)

147. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Í tilefni af þeim ummælum, sem hv. 4. þm. Reykv. (HG) lét hér falla, um leið og hann lýsti stuðningi Alþfl, við vantrauststill., vil ég segja það, að mig furðaði á þeim ummælum. Ef takast á að koma í veg fyrir þær álögur, sem hafa verið bornar hér fram og útlit er fyrir að eigi að samþykkja hér á Alþ., ef takast á að koma í veg fyrir það, að þetta verði gert, ef takast á að koma í veg fyrir það, að hundruð milljóna króna álögum sé nú með samþykkt á mjög stuttum tíma hér á Alþ. velt yfir á almenning í landinu, þá verður að gera það með því að fella ríkisstj. Ég vil mega vænta þess, að hv. 4. þm. Reykv. beri ekki þann hug til íslenzkrar alþýðu, að hann vilji láta núverandi ríkisstj. og hennar stuðningslið samþykkja þessar álögur á íslenzka alþýðu, sem hér liggja fyrir, og reyna svo að velta henni og komast þá væntanlega með flokki sínum í stjórn til þess að innheimta þessar álögur af almenningi.