19.10.1955
Sameinað þing: 5. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 265 í D-deild Alþingistíðinda. (2484)

25. mál, vélar og verkfæri til vega- og hafnargerða

Flm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Hér liggur fyrir till. frá mér og þeim hv. þm. A-Sk. og hv. þm. V-Ísf. um, að ríkisstj. verði falið að láta fram fara í samráði við vegamálastjóra og hafnamálastjóra athugun á því, hvernig nú sé ástatt um vélakost til vegagerða og hafnabygginga svo og hve mikils þurfi að afla til viðbótar af vélum og tækjum, til þess að hægt sé að vinna að þeim framkvæmdum um land allt með sem beztum aðferðum. Þá er enn fremur lagt til, að stjórninni verði falið að gera ráðstafanir til, að svo fljótt sem unnt er verði keypt ný tæki og vélar til vega- og hafnagerða til viðbótar þeim, sem fyrir eru, eftir því sem rannsóknin sýnir að þörf sé fyrir.

Samkvæmt frv. til fjárlaga fyrir árið 1956, sem nú liggur hér fyrir Alþingi, er gert ráð fyrir, að um 36 millj. kr. verði varið til nýbygginga og viðhalds þjóðvega, en hátt á 9. millj. til hafnabygginga á því ári. Hér er um mikið fé að ræða, og er því mjög þýðingarmikið, að vinnuaðferðir við framkvæmdirnar séu þannig, að sem mest gagn verði af fjárframlögunum.

Miklar breytingar hafa orðið á vinnuaðferðum við ýmsar framkvæmdir hér á landi að undanförnu, m. a. við þær opinberu framkvæmdir, sem hér eru nefndar. T. d. við vegagerðir eru handverkfæri og hestvagnar nú að mestu úr sögunni, en vélknúin tæki komin í staðinn. Nýju tækin, jarðýtur, skurðgröfur og vélskóflur, hafa hér valdið byltingu, og án þeirra nýju véla hefði alls ekki reynzt mögulegt að koma fram þeim umbótum í vegamálum, sem hér hafa orðið síðustu árin. En þrátt fyrir þær framfarir. sem orðið hafa í þessum efnum, er enn mikið óunnið, bæði við vega- og hafnagerðir. Enn er t. d. eftir að byggja mikið af vegum, sem teknir hafa verið í tölu þjóðvega og sýsluvega, og viðhald veganna er verkefni, sem stöðugt fer vaxandi, eftir því sem vegakerfið stækkar. Útgjöld ríkisins vegna viðhalds þjóðveganna fara stöðugt hækkandi, og þó heyrast oft kvartanir yfir því, að vegaviðhaldið sé ekki svo gott sem skyldi.

Að sjálfsögðu er engu minni þörf fyrir fullkomin tæki við framkvæmdir vegaviðhaldsins en við nýbyggingar vega, og þar er vafalaust einna brýnust þörf fyrir stærri og afkastameiri verkfæri en nú eru yfirleitt notuð. Víða mun auðvelt að koma við miklu stærri vögnum, ef til væru, við flutning á möl í vegi en nú eru notaðir, og mætti með því gera hvort tveggja, spara mikið fé og auka afköstin.

Það eitt er ekki nóg að fá vélknúin tæki í stað þeirra handverkfæra og hestvagna, sem áður var notazt við, heldur þarf einnig að afla stærri og fullkomnari véla í stað þeirra, sem nú eru notaðar, þegar þær eru fáanlegar og eftir því sem fjárhagsástæður leyfa. Fullkomnar vélar og tæki til vegagerða og hafnabygginga kosta að sjálfsögðu mikið fé, en sé unnt að kaupa slík tæki, getur það verið fjárhagslegur ávinningur, því að dýrast er að vinna með ófullkomnum áhöldum og aðferðum, sem nú mega teljast úreltar.

Það skal tekið fram, að flutning þessarar þáltill. ber ekki að skilja þannig, að með því sé gefið í skyn, að stjórnendur vegamála og hafnamála hafi vanrækt að fylgjast með nýjungum í þessum efnum. Þeir munu hafa reynt eftir föngum að afla sér nýrra tækja og hefur orðið þar verulega ágengt, eins og framfarir í þeim efnum bera vott um. En þrátt fyrir það er vafalaust þörf fyrir ný tæki til viðbótar eða önnur fullkomnari í stað þeirra, sem nú eru notuð, og því teljum við flm. till. ástæðu til þess, að gert verði yfirlit um ástandið í þeim efnum, eins og það nú er, og síðan reynt að bæta úr þeirri vöntun, sem þar kann að vera.

Ég tel ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð, en vil fara fram á það, að till. verði að lokinni þessari umr. vísað til síðari umr. og til hv. fjvn. til athugunar milli umræðna.