02.12.1955
Sameinað þing: 19. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í D-deild Alþingistíðinda. (2532)

52. mál, flugvallargerð í Norðfirði

Flm. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Með till. þessari er gert ráð fyrir, að efnt verði til flugvallargerðar í Norðfirði. Ég sé ekki ástæðu til að hafa hér að þessu sinni mörg orð um till., heldur vísa til þeirrar grg., sem henni fylgir. En aðalatriði málsins er það, að Neskaupstaður, sem er fjölmennasta byggðin á Austurlandi, er nú, eins og málum er komið, að mestu kominn út úr flugsamgöngum þar eystra. Fram að þessu hefur verið haldið uppi reglulegum flugsamgöngum til Norðfjarðar með sjóflugvélum, en á þessu ári varð sú breyting á, að slíkar samgöngur voru lagðar niður. Er nú eingöngu stuðzt við landflug til Egilsstaðaflugvallar, og að því leyti sem Norðfirðingar vilja notfæra sér flugið, þá verða þeir að komast að Egilsstaðaflugvelli eða þaðan og til Norðfjarðar, en milli Neskaupstaðar og Egilsstaða er tveggja tíma ferð í bíl, og þessi leið er ekki bílfær nema 3–4 mánuði á hverju ári, svo að segja má, að Neskaupstaður sé að mestu leyti kominn út úr flugsamgöngum, eins og nú er komið. Það er því vitanlega mjög brýn þörf á því, að hafizt verði handa um allan undirbúning að flugvallargerð í Norðfirði, en talið er af sérfróðum mönnum, að þar sé hægt að gera flugvöll með eðlilegum eða viðráðanlegum tilkostnaði.

Ég vísa svo að öðru leyti til þeirrar grg., sem fylgir till., og óska eftir því, að að lokinni þessari umr. verði till. vísað til fjvn.