26.10.1955
Sameinað þing: 7. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 292 í D-deild Alþingistíðinda. (2552)

58. mál, póstferðir

Flm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég flyt hér ásamt hv. þm. Dal. till. á þskj. 64 um fjölgun póstferða. Þar er lagt til, að ríkisstjórninni verði falið að hlutast til um, að póstferðum verði fjölgað um þau héruð, þar sem ferðirnar eru nú strjálastar, svo að póstur verði fluttur um allar byggðir eigi sjaldnar en vikulega árið um kring.

Póstflutningum um landið er hagað með ýmsu móti, og landsmenn eru mjög misjafnlega settir í þeim efnum. Í þeim sveitum, þar sem daglegir mjólkurflutningar eru frá flestum eða öllum heimilum til mjólkurbúa, eins og til dæmis á Suðurlandsundirlendinu, í Borgarfirði og í Eyjafirði og jafnvel víðar, mun póstur venjulega vera sendur með mjólkurflutningabifreiðunum, og má því telja, að fólk á þeim svæðum búi við sæmilega greiðar og góðar póstferðir. En í öðrum sveitum er þetta með allt öðrum hætti. Þar er póstferðum víða hagað þannig, að aukapóstar ganga frá aðalpóststöðvum vikulega að sumrinu, en aðeins hálfsmánaðarlega að vetrinum. Svo strjálar póstferðir mega teljast óviðunandi nú á tímum, og er till. flutt í þeim tilgangi að fá nokkra úrbót í þessu efni.

Á síðari árum hafa orðið miklar breytingar í samgöngumálum hér á landi, eins og á mörgum öðrum sviðum. Nú ferðast menn í bifreið á einum degi þá vegalengd, sem ekki var farin á skemmri tíma en einni viku fyrir fáum áratugum. En sé farið í flugvél, tekur ferðalagið margfalt skemmri tíma. Það er í miklu ósamræmi við þennan hraða, þennan ferðahraða nútímans, að póstferðir eru ekki oftar en á 2 vikna fresti suma tíma árs í hinum ýmsu héruðum, og það er vissulega ekki til mikils mælzt að óska eftir vikulegum ferðum, eins og hér er gert. Að sjálfsögðu kostar það póstsjóð nokkur útgjöld að fjölga ferðunum svo sem hér er lagt til, en hér er svo í hóf stillt tilmælum um fjölgun ferðanna, að kostnaðurinn mun ekki verða það mikill, sem af þessu hlýzt, að ekki sé vel viðráðanlegt.

Ég vil gera það að till. minni, að till. þessari verði að lokinni þessari umr. vísað til síðari umr. og til hv. fjvn. Væntum við flm. þess, að till. fái þar skjóta afgreiðslu, svo að hin nýja skipan geti sem fyrst komizt á, ef á þetta verður fallizt, því að einmitt nú er nálægt veturnóttum, og um það leyti hefur ferðunum verið fækkað í ýmsum héruðum, eins og ég hef þegar skýrt frá.