26.10.1955
Sameinað þing: 7. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 293 í D-deild Alþingistíðinda. (2553)

58. mál, póstferðir

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil mjög taka undir það, að þetta mál fái góðar undirtektir í þeirri hv. nefnd, sem fær það til meðferðar. Vildi ég um leið mega beina því til hv. formanns nefndarinnar, hvort hann sæi sér fært að fá upplýst, að hve miklu leyti þeirri reglu hefur ekki verið fylgt, sem mörkuð var með till. mþn. í póstmálum, að póstur skyldi fluttur út um sveitir landsins a. m. k. einu sinni í viku að sumrinu, en einu sinni í hverjum hálfum mánuði á veturna.

Mér er persónulega kunnugt um, að í því héraði, sem ég er þm. fyrir, hefur staðið í mjög miklu stímabraki um þetta mál við póststjórnina og legið m. a. fyrir umkvartanir á þessu sumri um, að sumir hverjir þessir bæir hafi ekki fengið póst svo að mánuðum skipti, þrátt fyrir þær reglur, sem settar hafa verið um þetta atriði.

Það urðu allmikil átök um þetta mál í mþn. á sínum tíma, hvort ætti ekki að gefa allri landsbyggðinni sama rétt og flytja póst vikulega um alla byggðina. Það þótti þá ekki gerlegt vegna kostnaðar. Eins og hv. 1. flm. tók fram, hefur þetta gerbreytzt síðan, samgöngur orðið allt aðrar og möguleikar til þess að dreifa póstinum miklu meiri en var þá, svo að þetta mál hefur tekið allmiklum breytingum, enda voru þá skildir eftir margir afskekktir bæir, sem ekki fengu póst fluttan heim til sín, en þyrfti vitanlega með breyttri skipan nú að undanskilja engan bæ í landinu, sem ekki ætti að fá póst fluttan eins og reglur segja fyrir um.

Þetta þótti mér rétt að láta koma fram við þessar umr., því að það er að sjálfsögðu ekki nóg að ákveða, hvernig póstur skuli fluttur, ef þeim reglum er svo ekki fylgt og menn sitja samt sem áður án þess að fá póstinn fluttan heim til sín, eins og ég veit að borið hefur allmikið á í því héraði, þar sem ég þekki til.