02.11.1955
Sameinað þing: 8. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 296 í D-deild Alþingistíðinda. (2558)

61. mál, bygging flugvallar við Húsavíkurkaupstað

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Hér liggja fyrir til fyrri umr. þrjár till. til þál. um byggingu flugvalla á landinu. Sú fyrsta á þskj. 27, sem hv. þm. Vestm. hefur nýlega rætt um og hefur þá sérstöðu, að þar hefur þegar verið byggður flugvöllur, sem vitað er að ekki er fullnægjandi til þess að lenda þar í hvaða vindátt sem er og því þar um að ræða mjög mikið öryggisleysi, ef ekki er bætt úr. Hefur það mál verið rætt oft hér á hv. Alþ., auk þess sem hv. fyrri flm. þeirrar till. lýsti því, hversu lélegt ástand þess flugvallar er, og hefur það mál því alveg sérstöðu í flugvallamálunum. Hinar tvær till., á þskj. 68 og 57, eru um, að Alþ. ákveði nú með þál., hvar skuli gerðir nýir flugvellir á landinu. Í því sambandi vil ég leyfa mér að benda á, að ég tel það mjög varhugaverða leið, ef Alþ. ætlar að fara að ákveða það með þál., einni í dag og annarri á morgun, hvar skuli hafizt handa um að byggja flugvelli, fyrr en liggi fyrir um það miklu nákvæmari upplýsingar og grg. en kemur fram hér á þskj. Það liggur m. a. ekkert fyrir um það, hvað þessir flugvellir komi til með að kosta, hvað langan tíma það tekur o. s. frv. Það er því alveg nauðsynlegt, að annaðhvort taki Alþ. upp í fjárlög ákveðna verulega upphæð til flugvallagerðar, og hv. fjvn., sem hv. flm. till. á þskj. 68 á sæti í, kveður þá á um, hvernig því fé skuli skipt, og hef ég út af fyrir sig ekkert á móti því, að það verði gert á líkan hátt og gert er um vegi í landinu, eða tekin sé upp veruleg heildarupphæð til flugvallagerðar og svo látið í hendur flugmálastjórninni ásamt viðkomandi hæstv. ráðh. að skipta fénu, líkt og gert er við fé til símalagninga. Þessar tvær aðferðir eru eðlilegastar og miklu eðlilegri en að það sé ákveðið með sérstökum þál., eins og hér er ætlazt til.

En ef hv. Alþingi fellst á, að þessi leið sé heppilegust, sem hér er farið fram á, þá munu að sjálfsögðu koma margar viðbótartill. við þær till., sem nú eru fram komnar, og er þá þess vænzt, að það verði tekið á þeim tillögum með sömu samúð og þeim, sem hér liggja fyrir. Ég vil í því sambandi leyfa mér að benda á, að að tilhlutun flugvallastjórnarinnar var ég með að fljúga í septembermánuði yfir allt Vesturlandið til þess að athuga flugvallastæði fyrir sjúkraflugvélar á hinum ýmsu stöðum þar, þar sem vitað er, að sá kjálki býr við allra erfiðustu flugsamgöngur af öllum hlutum landsins. Þar er svo að segja hvergi hægt að lenda nema í sjóflugvélum og þá því aðeins, að það sé sæmilega gott veður, auk þess sem aðflug er þar alls staðar mjög örðugt. Það varð samkomulag milli mín og Björns Pálssonar, sem fór þessa ferð, að á mörgum þessum stöðum, sem við skoðuðum, væri mjög hentugt að koma upp sjúkraflugvöllum, sem kostuðu litla peninga, og ég mun þar af leiðandi, ef hugsað er, að þessar till. nái fram að ganga, sem ég hef út af fyrir sig ekkert á móti, að sjálfsögðu bera fram brtt. um, að eitthvað af þeim stöðum verði einnig tekið upp sem þál. En í áframhaldi af því þótti mér rétt hvað snerti Barðastrandarsýslu að leita álits hjá viðkomandi landeigendum um það, hvort þeir vildu láta í té endurgjaldslaust land undir slíkar flugbrautir, og hef ég þegar fengið svar hjá viðkomandi aðilum, að þeir væru fúsir til að gera það. Nú segir hv. flm. hér, að það sé samkomulag við viðkomandi landeigendur í Suður-Þingeyjarsýslu, að þeir láti land undir flugvöll þann, sem þáltill. ræðir um, en hann gaf hins vegar engar upplýsingar um, hvort það land er látið ókeypis eða ekki. En ég tel það mikið atriði í þessu máli og að þeir staðir eigi þá að ganga fyrir, þar sem er, sýndur slíkur þegnskapur af héraðsbúum, að þeir vilja láta land ókeypis til flugvalla, og tel ég, að það ætti að breyta till. þannig, að það sé skilyrði fyrir því, að fé sé veitt í þessu skyni, að til sé nægilegt land ókeypis. Ég tel, að það sé röng stefna, sem sköpuð var með t. d. flugvallargerð á Egilsstöðum, að þurfa að kaupa þar land undir flugvöllinn fyrir stórkostlegar fjárhæðir, og vitanlega hlutu, eftir að flugvöllurinn var settur þar upp, öll önnur nærliggjandi lönd að stíga stórkostlega í verði. Ég mun því undir meðferð málsins bera fram brtt. um það, að fleiri staðir en Húsavík séu teknir inn, og hins vegar, að það sé gert að skilyrði, að fyrir liggi yfirlýsing um, að land sé tryggt endurgjaldslaust, og þá að þeir staðir séu látnir ganga fyrir, sem bjóða fram slík hlunnindi.