03.11.1955
Sameinað þing: 9. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 302 í D-deild Alþingistíðinda. (2574)

68. mál, friðunarsvæði

Flm. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Ég þarf ekki að tala langt mál fyrir þessari till., hún er ekki alveg ný hér í þinginu. Hún var flutt nákvæmlega í sama formi og hún liggur hér fyrir á síðasta þingi, en fékk ekki afgreiðslu þá og er nú flutt hér að nýju af þeim ástæðum.

Aðalefni till. er það, að gerðar verði nokkrar breytingar á þeim grunnlínupunktum, sem nú marka hið íslenzka friðunarsvæði, þannig að friðunarsvæðið rýmkist á fimm tilteknum stöðum, þ. e. á djúpmiðum Húnaflóa, á svæðinu út af Vopnafirði, á svokallaðri Mýrabugt og Meðallandsbugt og á allstóru svæði vestan við Vestmannaeyjar.

Ástæðan til þess, að þessi till. er flutt, er sú, að í fyrra gaf íslenzka ríkisstj. út sérstaka álitsgerð, sérstaka hvítbók um landhelgismálið íslenzka og skýrði þar frá því, hvern hún teldi vera rétt Íslendinga óumdeilanlegan í þessu máli. Það var í stuttu máli, að íslenzka ríkisstj. taldi sig hafa rétt til þess að draga grunnlínu, sem væri nokkru lengri en sú lengsta, sem dregin var samkvæmt þeim reglum, sem gefnar voru út 19. marz 1952, en lengsta grunnlínan samkvæmt þeim reglum var lína sú, sem dregin var fyrir Faxaflóa. En af ýmsum ástæðum, og þá fyrst og fremst þeim ástæðum, að íslenzka ríkisstj. taldi sig þurfa að móta íslenzku friðunarsvæðin með sérstöku tilliti til sambúðar Íslendinga við Breta, var þar gengið nokkru skemmra en að áliti sérfræðinga stjórnarinnar hefði verið hægt að gera með fyllsta rétti. Og nú hef ég lagt til, að þar, sem slakað var á rétti okkar, verði línunni breytt og hún færð út, þannig að sú friðun, sem ég hef um rætt, og sú, sem till. fjallar um, komi fram.

Það vita allir, að þótt Íslendingar gerðu þær tilslakanir frá rétti sínum, sem raun varð á 1952, þegar nýju friðunarákvæðin gengu í gildi, tóku Bretar samt málinu með hinni mestu fjandsemi við okkur, settu löndunarbann á íslenzkan togarafisk í Bretlandi, sem frægt er orðið að endemum, þar sem um er að ræða þjóðir, sem standa í mjög náinni efnahagslegri samvinnu og hernaðarlegri. En samt sem áður hefur íslenzka ríkisstjórnin haldið dauðahaldi í að taka ekki rétt okkar allan, eins og hún þó óumdeilanlega telur hann vera.

Nú er það almannamál og ekki um deilt, að friðun stórra svæða fyrir ágengni botnvörpuskipa sé eitt af frumskilyrðum íslenzku þjóðarinnar fyrir að geta búið í hagsæld í sínu landi. Og allar þær till. um rýmkun á landhelginni, sem lagðar eru nú fyrir hvert þing, sanna bezt, að það er af Íslendingum almennt skoðað sem eitt mesta nauðsynjamál fyrir framtíð íslenzks efnahagslífs og þar með menningarlífs, að fiskveiðisvæðin umhverfis landið liggi ekki undir örtröð erlendra botnvörpuskipa, en það eru einmitt þau, sem langdrýgstan þátt hafa átt í því að yrja upp okkar fiskimið á umliðnum árum.

Það mætti kannske segja, að þessi till. gangi svo skammt, að það sé varla vert að gefa sérstakan gaum að henni. Og vissulega er mikið til í því, að till. þyrfti að vera miklu víðtækari, eða þær samþykktir og ráðstafanir, sem íslenzk stjórnarvöld gerðu, þyrftu að vera miklu víðtækari en þessi till. gefur tilefni til. Það þyrfti, eins og raunar liggur hér fyrir í frv., að friða íslenzka landgrunnið. En ég sem tillögumaður þessar till. vil viðurkenna það að stórfelldar ráðstafanir, sem hafa í för með sér breytingar á öllum þeim meginreglum, sem í gildi eru, þarfnast undirbúnings af hálfu ríkisstjórnarinnar. Sá undirbúningur hefur ekki verið framkvæmdur enn, og það má svo sem vel vera, að það þurfi nýja og eitthvað skárri ríkisstjórn en nú situr til þess að framkvæma slíkan undirbúning nokkru sinni. En hitt er staðreynd, að þær breytingar, sem farið er fram á í þessari till., er hægt að gera hvaða dag sem er, auglýsa þær og láta þær ganga í gildi með hæfilegum auglýsingarfyrirvara.

Þegar þessi till. var til meðferðar hér á Alþingi í fyrravetur og kom nokkrum sinnum til umr. í hv. allshn. Sþ., var það fyrir tilmæli ríkisstj., að till. var látin liggja og ekki afgreidd, enda gaf ríkisstj. ótvírætt í skyn, að hún hefði í undirbúningi aðgerðir í íslenzku landhelgismálunum. Ég sem tillögumaður féllst þá á það, að þessi till. biði. En þar sem ég sé enn ekkert bóla á því, að ríkisstj. ætli að grípa til neinna aðgerða í málinu eða undirbúi þær og hún hefur ekkert upplýst hér á Alþingi, sem gefur tilefni til þess að ætla, að neinn kraftur sé í því máli eða að málið sé yfirleitt vakandi að kallazt geti, þá leyfi ég mér að endurflytja þessa till. og vænti þess, að Alþingi samþykki hana og telji ástæðulaust að gefa nokkuð eftir af því, sem örugglega er okkar réttur, enda þótt aðrar leiðir kunni að vera í athugun um að breyta þeim meginreglum, sem í gildi eru.

Það er sjálfsagt að geta þess, að í framsöguræðu minni fyrir þessari till. á s. l. þingi vék ég að því, að þótt hvítbók ríkisstj. um landhelgismálið geti ekki annarra staða, þar sem hægt hefði verið að rýmka til á þeim friðunarsvæðum, sem nú gilda, heldur en þeirra, sem till. felur í sér, þá sé ég ekki annað en að samkvæmt þeim meginreglum, sem þar eru gefnar, væri einnig hægt að rýmka nokkuð um núgildandi ákvæði á svæðinu fyrir austanverðu Norðurlandi, þ. e. a. s. það væri hægt að draga beina grunnlínu frá Siglunesi í Rauðanúp og síðan friðunarlínu 4 sjómílum utar, og mundi þá mestur hluti af Grímseyjarsundi og allstór hluti af okkar gamla síldveiðisvæði, sem nú er utan landhelgislínunnar, falla inn undir friðunarsvæðin. Um þetta fluttu nokkrir norðanþingmenn brtt. við till. mína á þinginu í fyrra. Tel ég þeirra till. að sjálfsögðu réttmæta og votta henni stuðning minn, en ég hef ekki tekið hana upp í mína till. enn, þar eð ég hef einungis haldið mig við það, að það sé óverjandi af Alþingi að láta hjá líða að gera þegar í stað ráðstafanir til þess, að við helguðum okkur öll þau fiskveiðisvæði og hefðum þau innan friðunarlínu, sem við eigum rétt til samkvæmt því, sem yfirlýst er af íslenzkum stjórnarvöldum og sérfræðingum stjórnarinnar í þeim efnum.

Ég tel eðlilegt, þar sem ákveðin hefur verið ein umr. um þessa till., að áður en umr. lýkur, verði henni frestað og málinu vísað til nefndar, og leyfi ég mér að leggja til, að hv. allshn. verði fengið málið til meðferðar.