03.11.1955
Sameinað þing: 9. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 308 í D-deild Alþingistíðinda. (2581)

75. mál, skattkerfi og skattheimta

Flm. (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Á þskj. 82 flytjum við þm. Þjóðvfl., till. um skipun nefndar, sem falið sé það hlutverk að gera till. um einfaldara skattkerfi og ódýrari skattheimtu hins opinbera en nú tíðkast og undirbúa löggjöf um það efni. Er svo til ætlazt, að nefndin kanni eftir föngum allar hliðar þessa máls, en athugi þó sérstaklega, hvort ekki muni kleift að færa skattkerfið í það horf, að beinir skattar verði sem allra fæstir, jafnvel aðeins einn, ef það þætti kleift, og skattheimtan gerð sem allra einföldust. M. a. sé sá möguleiki athugaður, að hún verði gerð sameiginleg fyrir ríki, bæjar- og sveitarfélög, en síðan sé skattinum að sjálfsögðu skipt eftir ákveðnum reglum.

Þáltill. þessari fylgir ýtarleg grg., og vil ég leyfa mér að vísa til hennar um einstök atriði þessa máls. Get ég látið nægja að benda með örfáum orðum á megintilganginn, sem fyrir okkur flm. vakir með þessari þáltill.

Eftir því sem hið opinbera lætur fleiri mál til sín taka og leitast við að uppfylla fleiri þarfir þjóðfélagsþegnanna og veita þeim fullkomnari þjónustu, eftir því vex skattheimta til sameiginlegra mála. Um það verður ekki deilt, að eigi ríki og sveitarfélög að leysa sómasamlega af hendi þau margvíslegu verkefni, sem af þeim er krafizt í nútímaþjóðfélagi, þarf að afla til þess nægilegs fjár. Um hitt standa deilur og um það mun vafalaust deilt mikið í framtíðinni, með hverjum hætti eigi að afla þessa fjár, hvaða meginreglur og höfuðsjónarmið skuli gilda um skattheimtuna. Það atriði snertir að sjálfsögðu nokkuð efni þeirrar till., sem hér liggur fyrir, og má telja líklegt, að sitt sýnist hverjum í því efni. Við flm. teljum, að ekki geti annað en gott af því leitt, að þau mál séu könnuð og fram komi rökstuddar skoðanir hinna pólitísku aðila á þeim efnum í álitsgerð.

En hvað sem líður öllum ágreiningi um það, hvernig eigi að skipta skattabyrðinni niður á þjóðfélagsþegnana, virðist fyllilega tímabært að athuga, hvort skattkerfið er ekki óþarflega flókið og þungt í vöfum og skattheimtan þar af leiðandi miklu dýrari en þörf er á. Er ekki auðvelt að breyta þessu, jafnvel þótt ríkjandi sjónarmið um þunga skattbyrðarinnar á einstökum þjóðfélagsþegnum séu látin haldast í megindráttum? Ég ætla þó sízt að halda því fram, að þau séu eðlileg og réttlát. En ég hygg, að þetta sé hægt. Með samþykkt till. okkar væri því engu slegið föstu um það, að stórbreytinga sé þörf í þessu efni, þótt mín skoðun sé hins vegar sú, að þar þurfi einnig að gera róttækar breytingar. Framkvæmd till. mætti, ef svo sýndist, miða við það eitt að gera skattkerfið einfaldara og auðveldara í framkvæmd en það er nú, þótt ég teldi hins vegar eðlilegt, að jafnframt yrði kannað, á hvern hátt það yrði gert réttlátara.

Ég þarf ekki að hafa mörg orð um hinar mörgu skattheimtuaðferðir, sem nú eru viðhafðar. Hvað eftir annað, þegar sett hafa verið lög og nýmæli um framkvæmdir, sem kosta nokkurt fé, hefur verið gripið til þess ráðs að leggja á sérstakan skatt, skatt, sem kostar í flestum tilfellum nýtt og rándýrt innheimtukerfi. Því hefur verið haldið fram þessu til réttlætingar, að kostur þess að binda skatta vissum opinberum útgjöldum sé sá, að fólk geri sér með því móti betri grein fyrir því, að aukin hlunnindi kosti fé, sem nauðsynlegt sé að afla. En þá vaknar þessi spurning: Hvar á að draga markalínurnar? Margt það, sem nú er greitt með beinum framlögum úr ríkissjóði, kostar vitanlega mikla fjármuni. Hvers vegna á t. d. að leggja á sérstakt námsbókagjald til að standa straum af einum tiltölulega litlum lið í sambandi við útgjöld til fræðslumála, en ekki neinum öðrum liðum þeirra, sem margir eru stórvægilegir? Og þegar þess er gætt, sem reynslan sýnir, að oftast nægja hinir sérstöku skattar hvergi nærri til að standa undir þeim útgjöldum, sem þeir eiga að bera uppi, þá virðist þessi röksemd vera orðin harla léttvæg. Hinn hlutinn, oft meiri hlutinn, er þá greiddur beint úr ríkissjóði. Þannig er þessu háttað um námsbókagjöldin, eins og upplýst var nýlega hér á hv. Alþ., svo er því varið um tryggingagjöld, kirkjugjöld og afnotagjöld af útvarpi, svo að nokkuð sé nefnt.

Í grg. þeirri, sem till. okkar fylgir, eru færð allmörg rök að því, að ekki muni aðeins kleift, heldur og hagkvæmt að gera alla skattheimtuna einfaldari og ódýrari en hún er nú, svo að jafnvel megi finna nothæft form til þess að leggja aðeins á einn beinan skatt, er standi undir opinberum framkvæmdum, en síðan skiptist eftir ákveðnum reglum milli ríkisins og bæjar- og sveitarfélaga. Sé þetta framkvæmanlegt, liggur í augum uppi, að það muni spara stórfé í skattheimtu og draga mjög úr ýmiss konar vafstri og skriffinnsku. Við álagningu ríkisskatta starfa nú á þriðja hundrað skattanefndir, skattstjórar og yfirskattanefndir auk ríkisskattanefndar. Við álagningu útsvara vinna rúmlega 200 hreppsnefndir og niðurjöfnunarnefndir. Skattaálagningin er víðast hvar unnin með gamaldags skrifstofuaðferðum, en nú er þó kleift að hagnýta margvíslega tækni við þau störf, enda þegar gert að nokkru t. d. hér í Reykjavík að því er útsvörin varðar. Ef horfið væri að því ráði að leggja alla beina skatta á fyrir allt landið á einum stað, mætti framkvæma skattaálagninguna með hinni fullkomnustu skrifstofuvélatækni og með þjálfuðum, séræfðum starfskröftum. Með því væri einnig tryggt betur en nú er, að menn slyppu ekki undan skatti, og eftirlit með skattaframtölum yrði að því leyti auðveldara, að launamiðar og aðrar upplýsingar væru þá saman komnar á einum stað.

Sjálfsagt má finna svo róttækri breytingu á skattakerfinu sem hér er að vikið ýmislegt til foráttu, og verður þá verkefni hinnar fyrirhuguðu nefndar að meta kosti fyrirkomulagsins og galla. En jafnvel þótt ekki verði talið heppilegt að sameina í einn skatt ríkisskattana og skatta til sveitarfélaga, þá er ég sannfærður um, að hlutlæg athugun mundi leiða í ljós, að heppilegt sé að leggja niður hina mörgu og tiltölulega smáu nefskatta, sem oft eru óhóflega dýrir í innheimtu. Og öll eru mál þessi þannig vaxin, að ekki er vanþörf á að taka þau til rækilegrar athugunar, svo sem lagt er til í þeirri till., sem við flytjum.

Hæstv. forseti hefur ákveðið tvær umr. um þessa þáltill. Það mun gert með tilliti til hugsanlegs kostnaðar við störf þeirrar nefndar, sem lagt er til að skipuð verði. En það eru einu útgjöldin, sem beint getur leitt af samþykkt þessarar till. Mér virðist, að eðli málsins samkvæmt eigi till. einna helzt heima í allshn., en ef hæstv. forseti teldi eðlilegra, að henni væri vísað til fjvn., þá get ég að sjálfsögðu á það fallizt. Ég vil beina þessu til hæstv. forseta.