19.01.1956
Neðri deild: 44. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 254 í B-deild Alþingistíðinda. (260)

135. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh.. upplýsir, að það sé ósköp einfaldur hlutur, sem valdi því, að fjárl. séu ekki afgreidd, það vanti þingfylgi fyrir þeim. Hvað hefur nú hæstv. fjmrh. gert til þess að afla þingfylgis? (Fjmrh.: Það barst nú í tal áðan lítillega.) En hvað hefur hann gert á undanförnum 20 dögum, sem Alþ. hefur framlengt hans heimild til þess að greiða úr ríkisféhirzlunum? Hvað hefur hann gert til þess að afla þingfylgis? Það er nú siður, að ef fjárl. hafa ekki þingfylgi hjá þeim flokkum, sem fram að því hafa staðið að ríkisstj., þá sé athugað um, hvort ekki sé hægt að mynda neina aðra ríkisstj., sem fær þar þingfylgi. Má ég spyrja hæstv. fjmrh., hvað hann hefur gert til þess að athuga slíkt? Það hafa farið fram ýmsir samningar, að því er manni er tjáð, um þess háttar möguleika, og eftir því sem mér skilst, hafa setið jafnvel samninganefndir, sem hafa fjallað um þess háttar, hvort ekki væri hægt að mynda mun betri ríkisstj. en þá, sem nú situr. Og það hefur kannske verið talið af sumum, að hæstv. fjmrh. hafi verið heldur tregur til slíkra samninga. En mér finnst þó, þegar að kassanum kemur, að hann fær ekki lengur fé í ríkissjóðinn og fær ekki einu sinni afgreidd fjárl. með sínum flokki, þó að hann vilji afgreiða fjárl., að það væri ekkert óeðlilegt, að hann tæki slíka samninga af eitthvað meiri alvöru. Hér talar hann hins vegar eins og það komi yfirleitt ekki til mála. Hann segir, að honum væri nú sem hann sjái framan í það, ef hann eigi að fara að afgreiða fjárl. með einhverjum öðrum en Sjálfstfl. Hér talar hann eins og það komi ekki til nokkurra mála, að það sé yfirleitt til í dæminu. Hvað eigum við þá að bíða lengi? Stendur málið þannig, að hæstv. fjmrh. geti ekki hugsað sér undir neinum kringumstæðum að afgreiða fjárl. með neinum öðrum en Sjálfstfl. og þess vegna verði bara að afgreiða og afgreiða frv. til laga um framlengingu á gildi laga nr. 94/1955, um bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði á árinu 1956, þangað til Sjálfstfl. þóknast að veita hæstv. fjmrh. þetta fylgi, sem hann vantar, sem er eina þingfylgið, sem hæstv. fjmrh. virðist yfirleitt geta hugsað sér? Mér sýnist hæstv. fjmrh. vera að tefla sig inn í nokkuð óþægilega klemmu. Ég sé ekki betur en að hann gefi Sjálfstfl. alveg sjálfdæmi í málinn með þessu móti.

Sjálfstfl. stöðvar sjávarútveginn og segir: Hann fer ekki af stað, fyrr en þið fallizt á að afgreiða fjárl. eins og ég vil. — Og hæstv. fjmrh. kvartar svo: Ja, ég fæ ekki að afgreiða fjárl., þó að ég gjarnan vilji það, af því að Sjálfstfl. vill ekki fallast á það. Hins vegar er Sjálfstfl. sá eini, sem ég get hugsað mér að afgreiða fjárl. með. — Þá er sjálfheldan nokkurn veginn komin. Það er svo sem alveg auðséð, hvernig þessi refskák endar. Það endar með því, að hæstv. fjmrh. auðvitað gefst upp og samþykkir að leggja þær álögur á, sem Sjálfstfl. vill, og trú mín er sú, að þær álögur mundu verða þannig á endanum, að þær mundu stórkostlega auka alla verðbólguna í landinu, verðbólguna, sem hæstv. fjmrh. segist alltaf vera að slást á móti. Kannske hækka fjárl. um einar 70–80 millj. kr., og svo á náttúrlega allt að vera verkamönnum að kenna á eftir.

Hæstv. fjmrh. sagði, að það væri ekki mikill vandi að ganga að því að leysa sjávarútvegsmálin, ef það væri bara gengið að öllum kröfunum. En ætli þetta endi nú ekki með því, ef hæstv. fjmrh. lokar fyrir sjálfum sér leiðinni til að semja við nokkra aðra en Sjálfstfl., að hann komist að þeirri niðurstöðu, að það verði ekki um annað að gera en að samþykkja þær kröfur, sem Sjálfstfl. gerir viðvíkjandi sjávarútveginum?

Ég er ákaflega hræddur um, að það sé engin leið í stjórnarsamstarfi að tala við Sjálfstfl. til þess að fá eitthvað út úr því, öðruvísi en að hafa það þó a. m. k. á hendinni að vera óhræddur við að gera samþykktir, sem yrðu á kostnað auðvaldsins í Reykjavík, og að Sjálfstfl. hefði það í bakhöndinni og vissi af því, að slíkt yrði gert, svo framarlega sem hann féllist ekki á þá samninga, sem verið væri að gera.

Það er hægt að leysa vandamál sjávarútvegsins með öðru en tómum nýjum álögum á þjóðina, það er hægt að leysa vandamál sjávarútvegsins með álögum á auðmannastéttina í Reykjavík.

Hæstv. fjmrh. segir, að við tölum mikið um þessi mál. Ég sé nú ekki, að það hafi verið talað mikið um þessi mál. Ég veit a. m. k., að það hefði verið talað meira og af öðrum, ef það hefði verið verkfall verkamanna hér í Reykjavík, sem hefði stöðvað allan útveginn núna, og það hefði sungið öðruvísi og kveðið þá í stjórnarherbúðunum. Og það hefði verið talað um skemmdarverk kommúnista og annað slíkt. Það hefur ekki verið talað sérstaklega mikið um þessi mál nú. Það hefur verið óskað eftir, að þau væru rædd hér á Alþ., rædd í ró, en þau hafa ekki fengizt rædd, vegna þess að það er komin sú stefna í þessum málum hjá hæstv. ríkisstj. að ætla svo að segja alltaf að afgr. öll þessi mál án Alþ., semja um þau utan við Alþ., setja eigin flokkum á þingflokksfundum stólinn fyrir dyrnar, þegar búið sé að koma sér saman í ríkisstj., og píska síðan lausnirnar í gegn á Alþ. Þetta er aðferðin, sem farið er að nota. Það er meira að segja svo, að einföldustu upplýsingar um, hvaða vandi sé þarna á höndum, eins og í sambandi við sjávarútveginn, fást ekki lagðar fyrir Alþ. eða þingmenn, ekki einu sinni upplýsingar um það fjárhagslega og efnahagslega ástand í sjávarútveginum, ekki einu sinni þær upplýsingar, sem ríkisstj. þegar hefur fengið frá sínum svokölluðu hagfræðingum. M. ö. o.: Það er reynt að gera alveg sérstakar ráðstafanir til þess, að Alþ. geti sem minnst rætt um þessi mál. Alþ. er yfirleitt meðhöndlað eins og það væri fjandmaður ríkisstj., sem hún þurfi að króa inni.

Ég vildi aðeins segja þessi orð, sem ég hef sagt hér, við þessa umr., af því að mér finnst rétt, að það komi fram sökum þess, hve erfitt er að fá þessi mál yfirleitt rædd hér, að það ríki óánægja á meðal þm. með þennan hátt á afgreiðslu mála, sem hér er hafður. Það er talað um, jafnvel stundum af hæstv. fjmrh., að álit Alþ. hjá þjóðinni sé að minnka. Má ég spyrja: Hver er það, sem treður álit Alþ. niður, eyðileggur það, ef það er ekki hæstv. ríkisstj. með því að meðhöndla það á þennan hátt? Sumum ríkisstj. hefði máske fundizt ástæða til þess að gefa út heila skýrslu til Alþ. og þjóðarinnar um ástand eins og í sjávarútvegsmálunum og hvernig viðhorfið væri. Hæstv. ríkisstj. vill hins vegar helzt meðhöndla slíkt mál sem algert leyniplagg, sem ekki einu sinni þm. geti fengið að sjá. Ég skal hins vegar taka það fram, að það er ekki vegna þess, að ég búist við, að það sé svo mikið að græða á því, sem ríkisstj. hefur fengið í hendurnar, en það væri þó a. m. k., ef maður sæi það, máske hægt að benda henni á, hvaða upplýsingar vantaði í það.

Hæstv. fjmrh. sagði hér áðan, að hefði sjútvmrh. verið hér við, hefði hann máske gefið upplýsingar, sem ég hefði spurt um, eða svarað. En má ég spyrja: Er alveg óhugsandi, að hæstv. fjmrh. geti gefið þær upplýsingar fyrir hans hönd? Enn sem komið er sitja þeir þó saman í ríkisstj. Enn sem komið er býst ég við, að sjávarútvegsmálin séu þó rædd í ríkisstj. í heild, og ef lausn þeirra er sett sem skilyrði fyrir afgreiðslu fjárl., þá býst ég við, að hæstv. fjmrh. hljóti að vera nokkuð kunnugt um, hvernig ástandið sé í þessum efnum. Fyrst hæstv. forsrh. hefur kosið að hafa þann hátt á að vera ekki viðstaddur og ætla ekki að leita þingfylgis fyrir þessu lagafrv., sem hér liggur fyrir, sjálfur, þá hefði þess vegna verið viðkunnanlegt, að hæstv. fjmrh. hefði nú gefið okkur upplýsingar fyrir hans hönd. En ég býst svo sem við, að það verði hafður sá háttur á, að það verði varizt allra frétta, þangað til búið sé að koma sér saman um álögurnar, og þegar búið sé að koma sér saman um álögurnar, þá verði sagt hér á Alþ.: Já, nú liggur á, allur flotinn er búinn að liggja í 20 daga, 30 daga, þjóðin tapar 3–4 millj. kr. á dag, og það er þó líklega enginn þm. hér, sem ætlar að fara að tefja málið á því að fara að spyrja um, hvort þetta sé eini hátturinn, sem hægt sé að leysa málið á? — Og það skyldu þó aldrei koma fyrirsagnir í blöðunum, ef hér yrðu haldnar ræður um 80 millj. kr. álögur á þjóðina, að það hefði verið hægt að leysa málið öðruvísi, að það væri verið að tefja fyrir því, að flotinn kæmist út? Ég hef a. m. k. stundum lifað það, að það hafi legið svo á, að það hafi verið bókstaflega talað um hvern klukkutíma, sem liði, og jafnvel komið stórar fyrirsagnir í blöðunum, þegar mál hefur staðið hér í þinginu einn dag eða tvo: Kommúnistar beita málþófi á Alþ. til þess að hindra, að sjávarútvegurinn gangi.

Hér erum við búnir að bíða, nú er 19. jan., nú er farið fram á að framlengja fjárl. til 1. febr. og það er enn þá ekki hægt að fá að ræða þau mál, sem snerta það, hvort fjárl. yfirleitt verði afgreidd. Hæstv. fjmrh. hefur upplýst, að Sjálfstfl. geri lausn sjávarútvegsmálanna að skilyrði fyrir þingfylgi við fjárlögin. Er það nú nokkuð að undra, þó að þm. þess vegna komi með fyrirspurnir um þessi mál? Ég veit, að hæstv. fjmrh. ætlast til þess, að við líka í stjórnarandstöðunni séum góðu börnin og hjálpum nú þessu máli í gegn, í fyrsta lagi með því að lofa því að komast klakklaust í gegnum þrjár umr. hér á þingi á einum degi, eins og þeir eru vanir að gera við svona mál, í öðru lagi með því að tefja þau ekki í nefnd, í þriðja lagi með því að nota ekki okkar rétt til þess að tala um þau einu sinni eins og við gætum. M. ö. o.: Hann ætlast til þess, að við veitum honum þingfylgi um þetta mál, það gerðum við fyrir jólin, og það munum við vafalaust gera enn, á sama tíma sem hann lýsir því yfir, að það vanti þingfylgi fyrir fjárl. En minna mátti það ekki vera en að við létum hæstv. ríkisstj. heyra það, þegar hún fer fram á afgreiðslu þessa máls, að þetta stjórnleysi í landinu getur ekki gengið. Það er minnst að veita henni heimild til þess að greiða án fjárl. 2 millj. kr. úr ríkissjóði, en að láta henni haldast uppi að kasta 3–4 millj. kr. í sjóinn hvern dag, það er hart. Við hefðum ekkert séð eftir því að veita hæstv. fjmrh. þessa heimild, sem hann fer fram á, en að hæstv. ríkisstj. skuli ekki hafa getað bjargað hinum verðmætunum, sýnir, að hún ætti að vera farin frá.