11.01.1956
Sameinað þing: 28. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 325 í D-deild Alþingistíðinda. (2612)

120. mál, símamál Austfirðinga

Flm. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Ég mun láta mér nægja aðeins örfá orð með þessari till. Hún fjallar um það að skora á ríkisstj. að hlutast til um, að eins fljótt og við verði komið, verði látin fara fram ýtarleg athugun á því, hvernig bæta megi símasambandið á milli Austurlands og Reykjavíkur, en eins og kunnugt er, hafa símamál okkar Austfirðinga verið um langan tíma í sérstöku ólagi. Það er ekkert um að villast, að símasambandið við Austfirði er til muna lakara en símasambandið við aðra landshluta. Það er ekki aðeins, að svo sé ástatt, að það sé langtímum saman með öllu sambandslaust og ekki hægt að halda uppi talsímasambandi á milli Austurlands og Reykjavíkur vegna bilana, sem virðast eiga sér stað á öllum árstímum, heldur er einnig um það að ræða, að þegar samband á að heita, þá er það svo lélegt og það virðist vera svo þröngt á línum, að algengast er, að menn verði að hlíta hraðsamtölum, ef þeir eiga nokkuð að komast áfram. Þó hefur í rauninni keyrt alveg um þvert bak nú á síðasta ári og síðustu tvö árin, þegar inn á öll þessi þrengsli hefur komið stórkostlega aukin símanotkun við herliðið á Langanesi, sem hefur um verulegan hluta dagsins fengið beinan forgang til notkunar á símalínunum að austan.

Austfirðingar hafa margsinnis gert umkvartanir út af þessu, og nú síðast á fjórðungsþingi Austfirðinga var gerð samþykkt um þetta mál og skorað á ríkisstjórn og skorað á alþingismenn að austan að beita sér fyrir því, að umbætur yrðu gerðar á þessum málum. Og alveg sérstaklega var farið fram á það, að á meðan ekki yrði komið á varanlegum umbótum á símakerfinu, yrði a. m. k. dregið til verulegra muna úr notkun varnarliðsins á Langanesi og eins á Stokksnesi af símalínum á milli Austurlands og Suðurlands.

Ég legg svo til, að þessari till. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjvn.