25.01.1956
Sameinað þing: 30. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 331 í D-deild Alþingistíðinda. (2621)

121. mál, póstflutningar með flugvélum til Austurlands

Flm. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér till. varðandi póstflutninga með flugvélum til Austurlands, þar sem skorað er á ríkisstj. að hlutast til um það við póstmálastjórnina, að blaða- og bögglapóstur verði framvegis fluttur með áætlunarflugvélum til Austurlands sem og annar póstflutningur. Þessi till. er flutt samkv. beiðni og samþykkt fjórðungsþings Austfirðinga, en þar koma saman fulltrúar frá kaupstöðunum á Austurlandi og sýslufélögunum og ræða sérhagsmunamál fjórðungsins og gerðu þá m. a. samþykkt í þessa átt. Póstflutningarnir til Austurlands hafa lengi verið þannig, að Austfirðingar eru almennt mjög óánægðir með þá, sérstaklega eru menn óánægðir með það, að þegar svo er komið, eins og yfir sumarmánuðina, að daglegar flugsamgöngur eru orðnar á milli höfuðstaðarins og Egilsstaða og þar með niður á alla firðina með bílasamgöngum, þá skuli ekki fást fluttur blaðapóstur með þessum ferðum. Því hefur jafnan verið borið við af póststjórninni, að hér væri um svo óhagstæðan rekstur að ræða fyrir póstinn, þar sem flugfélögin hefðu hækkað allverulega kostnaðinn við það að flytja blaðapóst, þau heimtuðu af póstinum kr. 2.80 á kg, en pósturinn fengi ekki frá blöðunum nema kr. 2.00 á kg, og af þessum ástæðum hefur póststjórnin hagað þessu þannig að leitast við að senda allan blaðapóst með bifreiðum og með skipum, en forðast, eins og hún hefur talið sig geta, að senda blöðin með flugpósti. Er ofur skiljanlegt, að Austfirðingar uni þessu illa. Það er að vísu rétt að játa það, að þarna kann að vera um einhvern vanda að ræða, hvernig eigi að komast fram hjá þessum aukakostnaði, sem þarna er um að ræða, en það er álit okkar, að það verði að leysa þann vanda á einn eða annan hátt og að það sé hægt að gera það, það sé sanngjarnt, að það sé gert, og því er nú farið fram á það, að till. þessi verði hér samþykkt.

Auk þess sem póstmálunum er áfátt í þessum efnum við Austurland, þá er þeim áfátt í mörgum öðrum greinum. Það er t. d. um þessar mundir ekki um hraðari póstgöngur en svo að ræða til stærsta bæjarins á Austurlandi, að hann verður að sætta sig við að fá blaðapóst t. d. þannig, að hann flyzt þangað aðeins á 15 daga fresti eða þar um bil. Það eru 15 blöð. sem koma í einu, og það verður að telja mjög lélegar póstsamgöngur nú um miðja 20. öld. Áður fyrr var það þó svo, að þá voru kostaðir landpóstar á milli Eskifjarðar og Norðfjarðar, bæði að sumarlagi og vetrarlagi, slíkt er vitanlega lagt niður nú, en það hefur ekki komið nein önnur þjónusta í staðinn í þessum efnum, svo að það er varla hægt að tala um, að þarna sé um framför að ræða. En í þessum efnum leggjum við aðaláherzlu á það, að hægt verði að koma því til leiðar að blaðapóstur og bögglapóstur verði almennt fluttur með flugvélum til Austurlands, en ekki framkvæmt á þann hátt, sem nú hefur verið, að þessar póstsendingar séu aðallega fluttar með bifreiðum og skipum, en það vitanlega seinkar dreifingu á þessu til mikilla muna.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að ræða þessa till. frekar að þessu sinni, en óska eftir því, að að lokinni þessari umr. verði henni vísað til fjvn.