08.02.1956
Sameinað þing: 38. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 340 í D-deild Alþingistíðinda. (2626)

121. mál, póstflutningar með flugvélum til Austurlands

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er rétt, sem var verið að lýsa hér áðan, að fundi var ekki frestað, þegar þetta mál var til umr. hér síðast, vegna þess að það var þetta mál, sem var verið að ræða, því að þótt það sé nauðsynlegt, þá þótti miklu nauðsynlegra að halda þann fund, sem ríkisstj. hafði boðað, og láta umr. um þetta mál falla niður að sinni. Annars verð ég að segja, að hv. flm. hefur haft gott af því að fá þennan frest. Hann hefur haft tíma til þess að hugsa sig um og draga í land hæfilega mikið, því að fyrir þeim fullyrðingum, sem hann var með í fyrri ræðu sinni, fór ákaflega lítið nú, þótt hann á síðustu stundu væri að reyna að berja í brestina.

Hv. flm. neitar því alveg ákveðið, að hann hafi nokkurn tíma haldið því fram, að flugpóstur væri ekki fluttur til Austurlands, blöð og bögglar. En ég kann þá ekki að skilja mælt mál, ef það stendur ekki hér skýrum stöfum í grg., með leyfi hæstv. forseta, þar segir m. a.: „Almenn óánægja er ríkjandi á Austurlandi yfir því, að hvorki er fluttur þangað blaða- né bögglapóstur með áætlunarflugvélum.“ Og svo segir hann enn fremur: „Pósturinn neitar að taka við blöðum og bögglum með flugvélum, jafnvel þótt boðið sé aukagjald. Og vilji menn nota flugvélar til að flytja slíka hluti, þarf að flytja þá sem aðrar vörur.“ Þegar þetta stendur hér svart á hvítu, er alveg tilgangslaust fyrir hv. flm. að neita nú, að hann hafi haldið því fram, að enginn flugpóstur væri fluttur til Austurlands. En ég segi það aftur: Það er gott, þegar menn hafa vit á því að draga í land, áður en þeir eru komnir of langt. Og það er áreiðanlegt, að það verða miklar málsbætur hjá þessum hv. flm. að hafa hætt fullyrðingum ekki þó seinna en þetta. Ég hélt satt að segja, að hann mundi ekki á þessu stigi minnast á símatill. frægu, sem hann flutti hér fyrir stuttu, því að þar voru fullyrðingar líka, sem á engan hátt gátu staðizt. Þar var sagt skýrum stöfum, að það væri tæplega unnt að fá samtal við Austfirði nema hraðsamtal. En þegar aðgætt var, hvað hraðsamtölin voru mörg prósent af símtölunum, þá kom allt annað upp á teningnum. Ég hef ekki þá grg. hjá mér nú, en það liggur fyrir, að einn mánuðinn var það 19. hvert símtal, sem var hraðsamtal, einn mánuðinn 15. hvert o. s. frv.

Hitt er svo annað mál, þótt þingmenn af Austurlandi og fjórðungsþing Austfirðinga óski eftir því, að símamálin og póstmálin verði lagfærð. Það er mannlegt, og það er út af fyrir sig eðlilegt. Þótt segja megi og það sé þegar hægt að sanna, að Austfirðingar séu ekki verr á vegi staddir en aðrir landsmenn hvað þetta snertir, þeir sem fjærst eru Reykjavík, þá er eðlilegt, að óskað sé eftir umbótum. Vitanlega er æskilegt, að menn geti fengið póst, bréf, blöð og böggla, samdægurs, en það biði ekki í nokkra daga. Og það er enginn vafi á því, að póststjórnin vill vinna að því að gera þetta sem greiðast. Ég minntist á það hér síðast, þegar þetta mál var hér til umr., að það mundi kosta mikið fé, ef ætti að uppfylla þær óskir, sem lægju fyrir í þessu efni, því að það þyrfti að fjölga flugferðum til Austurlands og ýmissa annarra staða á landinu, ef ætti að senda allan póst með flugvélum. Því hefur ekki verið móti mælt, að hér um bil þriðji hluti af böggla- og blaðapósti árið 1954 var fluttur með flugvélum til Austurlands. Það kann að vera eitthvað lægra hlutfall til Neskaupstaðar, vegna þess hvað Neskaupstaður er langt frá flugvellinum, en til Austurlands í heild var það nærri 1/3 hluti. Ég hef ekki beðið um athugun á því, hvernig þetta hlutfall er miðað við Vestfirði t. d., en geri ráð fyrir því, að Vestfirðir séu í þessu efni ekki á neinn hátt betur settir en Austfirðir og að það sé alveg eins ástæða fyrir þá að gera sams konar kröfu og Austurland.

Það er langt frá því, að mér sýnist ástæða fyrir póststjórnina að taka það illa upp, þótt óskað sé eftir lagfæringu og fleiri ferðum, betri samgöngum en verið hefur. Ég tel eðlilegt, að slíkar óskir séu uppi. Ég tel sjálfsagt, að bætt sé úr því eins og unnt er, um leið og sjálfsagt er, að þeir, sem óskirnar bera fram, geri sér grein fyrir erfiðleikunum á því að uppfylla kröfurnar og að það gerist ekki nema með stórkostlega auknum kostnaði. Það liggur fyrir, að flugvélarnar hafa tekið kr. 2.80 fyrir hvert kg, meðan burðargjaldið er aðeins 2 kr. Það liggur einnig fyrir, að Flugfélagið þarf að fá hækkað gjald fyrir blöð og böggla vegna aukins rekstrarkostnaðar. Og það er þá augljóst, að annaðhvort verður halli á póstinum að hækka eða burðargjöldin verða að hækka mikið, til þess að hallanum verði stillt í hóf.

Hv. þm. sagði hér áðan, að Vestmannaeyjar fengju flugpóst alltaf þegar flogið væri. Hygg ég, að það sé rétt, að því leyti sem rúm er í flugvélinni. Það er enginn vafi á því, að blöð og bögglar eru frekar skilin eftir en farþegi, sem vill komast með flugvélinni til Vestmannaeyja. Þannig er það eins til Austurlands, að ef það er rúm í vélinni, þá er póstur sendur með. En ef það er ekki rúm fyrir allan póstinn, þá er nokkuð skilið eftir. Ég sé, að hv. flm. hristir höfuðið, þegar ég segi þetta, en það er alveg óþarfa áreynsla fyrir hann, því að ég hef þetta eftir póstmeistaranum í Reykjavík, sem er sannorður maður.

Ég tel ekki ástæðu til að ræða öllu meira um þetta. Það er í sjálfu sér enginn ágreiningur á milli flm. og mín í þessu efni, eða póststjórnarinnar. Ágreiningurinn liggur ekki í öðru en því, að hv. flm. vill halda því fram, að Austfirðingar séu einhver olnbogabörn, sem búi við verri hlut en aðrir landsmenn eða landsfjórðungar. Ég held því hins vegar fram, að Austfirðingar búi ekki við verri hlut í þessu en t. d. Vestfirðir eða aðrir staðir, sem eru fjærstir Reykjavík, en ég segi, að það sé æskilegt, að hægt sé að bæta úr þessu og láta póstinn berast oftar en hann hefur stundum gert. Hins vegar hefði verið eðlilegt, að hv. flm. hefði farið viðurkenningarorðum um það, hvað úr þessu hefur verið bætt síðustu árin með því að gera fastan samning við Flugfélag Íslands um að flytja jafnmikið af pósti með flugvélum og raun ber vitni. Það er sannarlega spor í rétta átt og ekki nema 2 ár síðan þessir samningar voru gerðir og farið var að flytja póst með flugvélum nokkuð að ráði, annað en bréf lítils háttar. Það hefði verið sanngjarnt, að hv. flm. hefði farið viðurkenningarorðum um þetta stóra spor, sem hefur verið stigið í rétta átt, um leið og það er mannlegt af honum og öðrum landsmönnum að óska eftir því að fá fyllstu kröfur uppfylltar. Við skulum muna, að við erum fámennir, en búum í stóru landi, og að samgöngurnar hjá okkur eru dýrar. En þetta stendur til bóta eins og annað, og það er ekki af því, að viljann vanti til þess að hafa allt í fullkomnasta lagi, heldur af því, að fjárráð okkar eru takmörkuð og samgöngutæki hafa einnig verið takmörkuð fram að þessu.