08.02.1956
Sameinað þing: 38. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 342 í D-deild Alþingistíðinda. (2627)

121. mál, póstflutningar með flugvélum til Austurlands

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég tel alveg sjálfsagt, að þessi till. fari í nefnd, og með tilliti til þess, að hún fari í n. og fái þar athugun, var það, sem ég vildi segja nokkur orð.

Eins og till. hefur verið rædd hér af þeim flm. og hæstv. ráðh., hefur hún verið rædd alveg einhliða við það, sem flm. kallar Austurland, og því hefur svo ráðherrann svarað. Og það, sem hann kallar Austurland, eru firðirnir á Austfjörðum og þó ekki allir. En sveitirnar eru ekki til. Það á að fljúga yfir þær, það á að láta þær hafa póst vikulega, þó að það fari ekki póstur um þær nema hálfsmánaðarlega frá flugstöðvunum. En það eru firðirnir, sem eiga að fá póstinn helzt daglega.

Nei, þessi till. þarf að færast út og koma fram í allt öðru formi en hún er hér. Hún þarf að koma fram frá n. aftur í því formi, að það séu athugaðar yfirleitt póstsamgöngurnar um landið. Það eru ekki Austfirðir einir, sem ekki fá póst með flugvélum. Það eru Vestfirðirnir líka. Það eru hafnir á Norðausturlandi o. s. frv. Póstsamgöngurnar um landið í heild þurfa endurskoðun alls staðar. Á stöðum, þar sem bílar fara daglega heim á hvert heimili í stórum héruðum, er ekki sendur póstur nema einu sinni eða tvisvar í viku, eftir því sem á stendur.

Póstsamgöngurnar um landið löguðust ákaflega mikið, eftir að mþn. var skipuð núna fyrir nokkrum árum, sem gerði um það allýtarlegar tillögur, sem þó eru ekki enn að öllu leyti komnar í framkvæmd. Ég man ekki, hvort hv. þm. Barð. var formaður í henni, en hann var a. m. k. einn í henni, og fleiri, sem mætti nefna, voru í henni. Þá komst gerbreyting á póstsamgöngurnar út um landið eftir tillögum þeirrar nefndar. Slíkum tökum þarf að taka póstsamgöngurnar núna aftur. Það hefur breytzt það mikið ástandið í landinu, samgöngumöguleikarnir í landinu, síðan sú nefnd sat á rökstólum, að það þarf beinlínis að endurskoða allt póstkerfið. Það eru í einstaka sýslum komnir upp kassar við afleggjarana á bæina, og geta þá komið daglega bréf til manna á heimilið með flutningabílum, sem daglega koma og taka mjólk, en þessir möguleikar eru ekki nýttir enn nærri því alls staðar. Hvaða orsök er til þess, að það ekki er gert, skal ég láta ósagt. Og t. d. fyrir austan, þegar við komum í sveitirnar, hafa náttúrlega mennirnir í Jökuldal gróflega lítið gagn af því, þó að komi bréfapóstur til þeirra niður að Egilsstöðum með flugvél og liggi þar í hálfan mánuð, þangað til landpóstur kemur upp eftir, en hann fer frá Seyðisfirði eftir komu skips að sunnan. Þeim er alveg eins gott að sumrinu, ef þeir fá hann með bílnum, sem kemur þó þrisvar sinnum í viku að Skjöldólfsstöðum, og sækja hann þangað, ef þeir vilja þá sækja hann. Aðstaðan er orðin svo gerbreytt víða um landið, að það þarf á ný að endurskipuleggja póstkerfið í heild sinni í landinu, og það er það, sem ég vil benda n. á að taka til athugunar, en ekki bara einblína á einstaka staði, sem fólk sérstaklega kvartar yfir. Það getur verið alveg eins vont og verra annars staðar, þó að ekki sé kvartað þaðan, eins og á þeim stað, þar sem kvartað er. En ástandið er orðið þannig, að það þarf í heild sinni að endurskoða á nýjan leik póstferðirnar og þær till., sem n., sem síðast starfaði í þessu, gerði og urðu til þess, að póstsamgöngurnar bötnuðu og breyttust ákaflega mikið. Það, hvernig þetta verður framkvæmt núna á hagkvæmastan hátt og þó sem ódýrast og veitt nægilegt fé til að koma pósti sem oftast á alla bæi landsins, er það, sem þarf að athuga.

Í sambandi við þetta vildi ég gjarnan fá svarað einni spurningu, sem ég veit þó ekki, hvort nokkur getur svarað hér inni. Það er ekki því að leyna, að með flugvélum, sem fljúga á einstaka staði, fara einstakir blaðabögglar, að því er maður bezt veit, án þess að það sé borgað undir þá. Ég skal nefna sem dæmi, að ekki í sumar sem leið, heldur hitt sumarið, fóru bílar suður með sjó hérna eftir Fríkirkjuveginum, og þegar ég gekk eftir honum heiman að frá mér á morgnana um áttaleytið, lágu ævinlega tveir bunkar af blöðum við stöðvunarstað, þar sem bíllinn fór um, sem hann svo tók og flutti á viðkomandi endastöðvar. Í gamla daga var það svo, að ég var einu sinni á ferðinni norðan af Akureyri með Sumarliða pósti, sem neitaði að taka bréf, af því að það var ekki frímerkt, því að það var í póstferð, sem hann var beðinn fyrir bréfið á Gröf í Víðidal og átti að fara með það suður að Stað. Undir þessa böggla, sem þarna lágu, er póstinum áreiðanlega ekki borgað, þeir voru ekki látnir þar af póstinum, og undir þá var ekki borgað. Mig langar til að fá upplýsingar um, hvernig þetta er, því að eins og þetta er núna, þá gengur þetta a. m. k. mjög misjafnt yfir blöðin, og þó að þessir strangar séu litlir að fyrirferð og taki ekki mikið pláss, þá er þó líka einhver þyngd í þeim, sem ætti að borga undir.

Þetta var nú innskot. En það, sem ég sérstaklega vildi segja með því að fara hingað upp, er þetta: Ég bið n. að athuga það, að ég tel orðið tímabært að endurskoða skipulag póstsins og póstsendinganna um allt land, hvort sem það þarf að gerast aftur á ný með mþn. eða að þingið standi enn lengi og fjvn., sem væntanlega fær málið til meðferðar, hafi það góðan tíma, að hún geti gert það. En það er ekki rétt að taka út úr einstaka hluta af landinu og vera að gefa þeim einhver sérréttindi fram yfir aðra. Ástandið er víða eins slæmt og verra en á Austfjörðum, en við þá miðast tillagan.