12.03.1956
Neðri deild: 85. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 355 í D-deild Alþingistíðinda. (2658)

178. mál, innflutningur vörubifreiða

Flm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Á þskj. 448 flytjum við hv. 2. þm. N-M. till. til þál. um innflutning vörubifreiða. Er þar lagt til, að Alþingi skori á ríkisstj. að hlutast til um, að nú þegar verði veitt innflutningsleyfi fyrir eigi færri en 150–200 vörubifreiðum til þess að bæta úr brýnustu þörfum fyrir þau tæki.

Við flytjum þessa till. vegna þess, að þeir, sem sent hafa umsóknir til Innflutningsskrifstofunnar um leyfi fyrir vörubifreiðum, hafa þar enga áheyrn fengið nú um nokkurra mánaða skeið. Mun það vera samkvæmt fyrirmælum ráðherra, að Innflutningsskrifstofan hefur ekki veitt slík leyfi. Umsóknir um innflutningsleyfi fyrir vörubifreiðum munu nema nokkrum hundruðum, og margir af umsækjendum hafa brýna þörf fyrir nýjar bifreiðar fyrir vorið og sumarið, en útvegun þeirra tekur alllangan tíma, og má því ekki dragast lengur, að leyfi verði veitt.

Þrátt fyrir mikinn bifreiðainnflutning á síðasta ári voru þá ekki keyptar til landsins nema um það bil 380 vörubifreiðar, og næsta ár á undan voru innfluttar vörubifreiðar innan við 300. Má af þessu sjá, að ekki verður hjá því komizt að flytja inn nokkuð af slíkum tækjum á þessu ári til þess að mæta, a. m. k. að nokkru leyti, endurnýjunarþörfinni. Einnig má benda á það, sem nokkuð er vikið að í grg. með till., að þess er víða mikil þörf að fá stærri vagna til vöruflutninga og annarra nota en áður hafa verið í notkun, því að með því er unnt að lækka flutningskostnað verulega. Í sambandi við þetta er líka ástæða til að vekja athygli á því t. d., að það hefur mikla þýðingu fyrir vegagerð ríkisins, að takist að ná í eitthvað af nýjum bifreiðum til malarflutninga í vegi, sem séu stærri en þeir vagnar, sem víða hafa verið notaðir við vegagerðina undanfarið.

Það hafa verið ákveðnar tvær umr. um þessa till., og vil ég leggja til, að henni verði að lokinni þessari umr. vísað til síðari umr. og það mun þykja við eiga, að till. fái athugun í nefnd. Líklega ætti það helzt að vera fjhn. d., því að viðskiptamál munu yfirleitt hafa verið þar til meðferðar.