26.10.1955
Sameinað þing: 7. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 369 í D-deild Alþingistíðinda. (2670)

32. mál, húsnæðismálastjórn

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég veit nú ekki, hve mikil] spámaður hv. 8. landsk. þm. (BergS) er, en ég hef vanið mig á það yfirleitt að tala ekki fram í tímann sem spámaður. Ég játa, að það, hvað kann að gerast á næstu mánuðum eða árum, er lokuð bók fyrir mér. En hv. 8. landsk. virðist geta talað um það með miklum myndugleika, að það sé alveg sjálfsagt, að svik verði í þessu máli, sem hér er til umræðu, í framtíðinni, þótt hann hafi aðeins með rökleysum reynt af veikum mætti að benda á, að svik hafi átt sér stað. Hv. 8. landsk. nefndi eitt atriði, sem ég varð reyndar alveg undrandi á að hann sem hagfræðingur skyldi nefna í þessu sambandi. Hann sagði, að það hefði algerlega verið svikið, að nokkur vísitölutryggð bréf fengjust á móti A-lánunum. Það stendur hér í því svari við fyrstu spurningunni, sem ég las upp og er á ábyrgð Landsbankans, að gegn þeim 26 millj. kr. af bankavaxtabréfum A-flokks á þessu ári sé þegar búið að tryggja eins og segir hér: „þegar við þessa upphæð bætist samsvarandi B-lán, sem verða a. m. k. 10.4 millj.“ Þetta eru vísitölutryggðu lánin, sem um er að ræða. Það er ekki nefnd hér önnur tala en þessi. En þetta sýnir, á hvaða hundavaði hv. 8. landsk. fer, þegar hann vill reyna að bera svik — og þau orð notaði hann í sinni ræðu — á núverandi ríkisstj. Ég nefndi þetta aðeins sem dæmi um málflutning hv. þm. Ég ætla ekki að fara að setja mig á neinn háan hest hér og segja, að það geti ekki komið fyrir, að hægt verði að finna einhver svik af minni hálfu í þessu máli eða öðrum, þegar við þau verður skilið, en ég endurtek enn, að það er ástæðulaust að vera með slíkar ásakanir nú, enda hafði hv. fyrirspyrjandi, hv. 1. landsk. (GÞG), allt annað orðalag í þessu sambandi, miklu þinglegra og eðlilegra á allan hátt. Og ég mun ekki skorast undan því, eins og ég var búinn að taka fram áður, að gefa upplýsingar um þetta mál, eftir því sem um verður beðið, þegar hæfilegur tími er liðinn frá áramótum, svo að hægt sé að gera algerlega upp, hvernig þessi mál standa.

Ég ætla ekki að fara að mikla þessi mál á neinn hátt og hef ekki gert það heldur; gerði það ekki, þegar þessi lög voru sett á síðasta Alþingi. Ég lýsti því þá yfir, að þetta væri tilraun til þess á skipulegan hátt að ákveða fé til nauðsynlegustu íbúðarhúsabygginga í landinu, þannig að nokkuð öruggt væri, að eitthvert ákveðið fjármagn rynni til þess árlega. Og ég verð að segja, að mér finnst það of mikil krafa af hinu háa Alþ. eða hv. alþm. að ætlast til þess, að strax 6 mánuðum eftir gildistöku laganna sé hægt að segja, að þetta sé allt komið í fast kerfi og að tryggt sé hvert atriði í þessu sambandi. Við fórum þá leið, ríkisstjórnin, sem við töldum þá einu réttu, að fá aðalpeningastofnun landsins, Landsbankann, til þess að gera þessa tilraun í samráði við okkur og reyna að koma þessu í fast kerfi. Ég endurtek aftur: Það er þetta, sem nú er verið að vinna að, og ég skammast mín ekki fyrir það, þó að ég geti ekki nú eftir 6 mánuði sagt með fullri vissu, hvernig þetta gengur. Það var tekið fram í umræðunum í fyrra, að hér væri um tilraun að ræða fyrst og fremst, 2 ára tilraun, því að aðstoð Landsbankans er miðuð við það eins og er, og sjálfsagt þarf að breyta þessum ákvæðum á margvíslegan hátt. Og þar vil ég hafa samráð við hið háa Alþingi og alla flokka á Alþingi að finna sem skynsamlegasta leið út úr þessum málum með þeim breytingum, sem reynslan kann að sýna, hvenær sem er, að nauðsynlegt sé að gera á þessari frumsmíð, sem hér hefur verið gerð með þessari löggjöf. En mér virðist þó allt benda til þess, að hér hafi verið farið að vissu leyti inn á rétta leið og sjálfsagt sé að bæta það, sem kynni að vera ábótavant, en alls ekki að rífa það algerlega niður.