02.11.1955
Sameinað þing: 8. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 373 í D-deild Alþingistíðinda. (2679)

200. mál, aðstoð við togaraútgerðina

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins segja örfá orð í sambandi við þá skýrslu, sem hv. 1. landsk. þm. (GÞG) hefur gefið hér í sambandi við gjaldeyrisástandið.

Það er enginn vafi á því, að ríkisstj. hefur í heild gert sér fulla grein fyrir því, hvernig aðstaða bankanna er gagnvart útlöndum og að gjaldeyrisástandið hefur versnað frá því í fyrra, ef aðeins er litið á tölurnar einar. En það er rétt, sem hæstv. forsrh. sagði hér áðan, að það eru miklu meiri útflutningsbirgðir til í landinu en á sama tíma í fyrra. Hef ég ekki nákvæmar tölur yfir það, en þegar um þetta var rætt í ágústmánuði í sumar, gizkaði fiskimálastjóri á, að það væru 80–90 millj. kr. meiri útflutningsbirgðir þá en á sama tíma 1954.

Ég geri ráð fyrir, að þetta hlutfall hafi ekki breytzt, og það er ástæða til að reikna með þessu, þegar talað er um gjaldeyrisástandið, því að þær vörubirgðir, sem við eigum í landinu, eru seljanlegar og væntanlega fara að miklu leyti fyrir áramót og svo áfram. En afskipanir og sölur hafa tafizt af ýmsum ástæðum.

Einn þátturinn í því að gera gjaldeyrisástandið verra en það var áður er það, að á þessu ári hefur orðið að leigja miklu fleiri skip en nokkru sinni fyrr. Þegar verkfallinu lauk á s. l. vori, höfðu skip Eimskipafélagsins og Sambandsins mörg legið í höfnum á þriðja mánuð. Þegar loks verkfallið var leyst, var ekki um annað að ræða en að taka leiguskip í miklu ríkari mæli en nokkru sinni fyrr, og er þessi aukning á gjaldeyriseyðslunni vegna skipaleigunnar nærri 20 millj. kr. í hörðum gjaldeyri, sem hefði verið hægt að komast hjá, ef vinnufriður hefði verið á s. l. vetri.

Í öðru lagi hafa á þessu ári og eins á s. l. ári verið veitt innflutnings- og gjaldeyrisleyfi fyrir mörgum bátum, sem núna er verið að greiða, og nemur það tugum milljóna króna. En það á ekki að vera til þess að gera aðstöðu okkar verri í framtíðinni, heldur til þess að gera okkur mögulegt að auka framleiðsluna og standa undir þeim skuldbindingum, sem við höfum bundið okkur.

Fjárfesting í landinu er meiri nú en nokkru sinni fyrr, og er að þessu unnið nú eingöngu fyrir framleiðslugjaldeyri þjóðarinnar, vegna þess að á þessu ári hafa ekki verið tekin erlend lán til þess að standa undir þessum framkvæmdum, eins og gert hefur verið oft á undanförnum árum. Verð ég að segja, að þegar á það er litið, að framleiðslan stendur undir öllum þeim framkvæmdum, sem nú er verið að vinna að, þá er gjaldeyrisástandið ekki svo slæmt. Það hefur verið talað um það að taka erlend lán til fiskveiðasjóðs og ræktunarsjóðs vegna hinna miklu framkvæmda, erlend lán vegna frystihúsabygginga, vegna aukningar bátaflotans og vegna bygginga í landbúnaðinum. Þetta hefur enn ekki verið gert á þessu ári, en tekst ef til vill á næsta ári, og mundi það þá bæta hag bankanna.

Ég vil aðeins drepa á þetta hér, til þess að menn geri sér ljóst, að mikill hluti af þeirri gjaldeyriseyðslu, sem hefur átt sér stað á þessu ári, stafar af því, að þjóðin er að auka framleiðslutækin og byggja upp, að gjaldeyriseyðslan hefur ekki eingöngu farið í neyzlu, heldur í nauðsynlegar framkvæmdir. Þótt aðstaðan, ef litið er á tölurnar einar, sé verri nú en á sama tíma í fyrra, getum við, þegar á heildina er litið og talið til þeirrar aukningar á framleiðslutækjum, sem þjóðin nú er að eignast, verið þess fullviss, að aðstaða okkar hefur batnað að því leyti til, að við höfum betri möguleika á framleiðslu nú en nokkru sinni áður. Annars er ágætt að fá svona hugleiðingu eins og hjá hv. 1. landsk. þm. hér áðan. Hann var með sams konar lestur hér í fyrra um gjaldeyrisástandið. Það er sjálfsagt, að menn hafi alltaf opin augu fyrir því, að við verðum að sigla varlega. En ég minnist ekki að hafa heyrt frá þessum hv. þm. neinar raunhæfar till. í þá átt að tryggja það, að við gætum tryggt okkar gjaldeyri eða verzlunarjöfnuð. Ég man ekki betur en ég hafi heyrt þennan ágæta þm. jafnvel taka undir það á s. l. vetri, að það væri ekkert hættulegt fyrir okkar framleiðslu eða þjóðarbúskap, þó að tilkostnaður við framleiðsluna væri aukinn svo sem raun bar vitni.

Þessi hv. þm. var áðan að tala um það, að ríkisstj. hlyti að koma nú fljótlega með tillögur til bjargar togaraútgerðinni. Ég vona, að ríkisstj. komi með till. til þess að tryggja gang togaraútgerðarinnar. En ég minnist ekki, að frá þessum hv. þm., sem talaði hér áðan, eða hans flokki hafi nokkur till. til bjargar togaraútgerðinni komið, fyrr eða seinna. Þessi flokkur átti fulltrúa í svokallaðri togaranefnd, sem hafði það hlutverk að rannsaka hag togaraútgerðarinnar árið 1954. Ég minnist ekki, að fulltrúi Alþfl. í þeirri nefnd hafi haft aðra tillögu til bjargar togaraútgerðinni en þá, sem notuð var. Kannske hefur hann enga till. gert. Það getur vel verið. En hann gerði enga tillögu aðra en þessa, og það hlýtur að hafa verið af því, að honum hefur ekki komið annað ráð betra í hug. Hafi það verið erfitt á árinu 1954 að finna heppilegri úrræði en þau, sem notuð voru, þá má einnig búast við, að það sé kannske nokkuð erfitt nú, og þarf þá jafnvel ekki hv. 1. landsk. þm., sem talaði hér áðan, að undra, þótt ekki liggi nú í dag fyrir till. frá ríkisstj. til þess að tryggja togaraútgerðina framvegis.