02.11.1955
Sameinað þing: 8. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 378 í D-deild Alþingistíðinda. (2684)

200. mál, aðstoð við togaraútgerðina

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Það er aðeins örstutt athugasemd. — Ég er alveg sammála hæstv. ráðh. um það, að þjóðin vill halda áfram að vinna. Um það getur engin deila verið á milli okkar, og um það fjallaði spurning mín raunverulega ekki. Þess vegna svaraði hæstv. ráðh. ekki þessari meinlausu fsp., sem hann þó tók fram í upphafi að hefði verið meinlaus, eins og var alveg rétt. Spurningin var um það: Á að líða hernum að soga til sín svo mikið vinnuafl á næsta ári, að við fáum ekki nógu marga menn á íslenzka bátaflotann eins og hann var, hvað þá viðbótina? Og ef á að líða það, er þá tryggt, að við fáum Færeyinga í staðinn?