02.11.1955
Sameinað þing: 8. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í D-deild Alþingistíðinda. (2692)

201. mál, bátagjaldeyrir

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir glögg svör við fsp. mínum. Aðeins 2. spurningunni var, að því er ég tel, ekki svarað fullnægjandi. Hæstv. ráðh. eða þeir, sem hann hefur leitað upplýsinga hjá um þetta efni, hafa í raun réttri vikið sér undan að svara þeirri spurningu algerlega tæmandi, þ. e. spurningu minni um það, hversu mikið af þessu fé hafi þegar verið greitt. Það var aðeins sagt, að útvegsmönnum væri yfirleitt greitt jafnóðum, síðan gerð grein fyrir því, að skipverjar mundu fá um 46–48% af verðmæti hlunnindanna, en útvegsmenn afganginn, og loks gerð grein fyrir því, að sjómenn fengju sinn hluta réttindanna greiddan í hækkuðu fiskverði. En það kom ekki fram í svörum hæstv. ráðherra, hve mikið af hinum 306 millj., sem álagið hefði numið frá byrjun, hafi raunverulega þegar hafnað í vasa útvegsmanna.

Ég geri varla ráð fyrir því, að það geti verið mjög torvelt að gera þetta upp nákvæmlega. Þó hefur mér skilizt, að reikningsskil sölunefndarinnar séu og hafi alltaf verið mjög á eftir tímanum, þannig að meðal útvegsmanna hafi verið talsvert rík óánægja ríkjandi með það, hversu reikningsskilin hafi gengið seint, og er það ef til vill ástæðan til þess, að ekki eru birtar um þetta alveg glöggar upplýsingar.

Einnig vakti sérstaklega athygli mína í þessu sambandi, sem raunar var einnig rætt um hér fyrir tveimur árum á hinu háa Alþingi, hið áberandi misræmi, sem er á milli hins innheimta skírteinisgjalds til sölunefndarinnar sjálfrar og þess kostnaðar, sem af þessu hlýzt. Það fer ekki hjá því, að menn hljóti að telja þann kostnað, sem á þetta hefur fallið á undanförnum tæpum fjórum árum og nemur meira en 1½ millj. kr., vera mjög mikinn. Þessi skrifstofukostnaður hlýtur að teljast hár, þar sem hann er einvörðungu við það að annast sölu réttinda. Þarna þarf enga auglýsingastarfsemi að stunda. Þetta er hrein miðlunarstarfsemi og reikningsskilastarfsemi. Samt sem áður hefur hún kostað 1½ millj. kr., sem er allmikið fé. Hitt finnst mér gegna nokkurri furðu, að áfram skuli haldið að halda eftir af fé útvegsmanna nær þrisvar sinnum meiri upphæð en reynslan í fjögur ár er búin að sýna að skrifstofukostnaðurinn nemur, því að eftir sem áður er skírteinisgjaldið haft 1%. Það hefur samkvæmt upplýsingum hæstv. ráðh. numið á undanförnum árum 4.3 millj. kr. Þetta er síðan sagt að eigi að endurgreiða, og dreg ég ekki í efa, að það verður endurgreitt. En þetta fyrirkomulag er að sjálfsögðu mjög óeðlilegt, að haldið skuli eftir af fé útvegsmanna þrisvar sinnum hærri upphæð en fjögurra ára reynsla er búin að sýna að þörf er á til greiðslu skrifstofukostnaðarins. Látum vera, að þetta hafi verið gert í upphafi, meðan óvíst var um, hversu miklu salan mundi nema og hverju kostnaðurinn mundi nema, en nú þegar er komin á það reynsla, var þegar komin fyrir tveimur árum, þegar ég hreyfði þessu máli hér á hinu háa Alþingi, og enn er haldið uppteknum hætti.

Á þetta vildi ég benda, en fjölyrði að öðru leyti ekki um upplýsingarnar, þar eð efnisatriði þeirra á að sjálfsögðu ekki að ræða á þessum stað.