24.11.1955
Neðri deild: 23. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í B-deild Alþingistíðinda. (27)

12. mál, verðlagsuppbót á laun opinberra starfsmanna

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Mér sýndist nú hlaupinn æsingur í hv. þm. A-Húnv. (JPálm) líka. Á því kenndi pontan talsvert. En ég vildi aðeins segja þetta við hv. þm.: Í fyrsta lagi er það misskilningur hjá honum, að það, sem um sé að ræða við verðlagningu landbúnaðarafurða, sé aðeins að taka tillit til breytinga á kostnaði, þegar verð landbúnaðarvara er ákveðið og hækkað ár frá ári. Þar er einnig tekið tillit til breytinga á kaupgjaldi bóndans, sem miðaðar eru við þær breytingar, sem árið áður hafa orðið á kaupgjaldi launþega í bæjum, þannig að það er um að ræða nákvæmlega sams konar vísitöluverðlagsskrúfu, sem hann nefndi svo, víð ákvörðun á verði á landbúnaðarafurðum og við ákvörðun á kaupgjaldi launþega í bæjum. — Svo sagði hv. þm., að bændastéttin hefði aldrei haft neina forustu í verðbólgukapphlaupinu. Ég vil minna hv. þm. á það, ef hann kynni að vera búinn að gleyma því, að það, sem fyrst og fremst hækkaði verðlag hér á fyrstu stríðsárunum, var verðhækkun landbúnaðarafurða. Þessu ætti forustumaður í bændastétt ekki að hafa gleymt. Sú verðhækkun, sem varð á fyrstu stríðsárunum tveimur, átti að mestu leyti rót sína að rekja til hækkunar á verði innlendra afurða, og um það verður launþegum eða launþegasamtökum ekki kennt.