02.11.1955
Sameinað þing: 8. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 385 í D-deild Alþingistíðinda. (2702)

202. mál, verðlagsuppbót úr ríkissjóði

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. ríkisstj. um greiðslu verðuppbóta úr ríkissjóði, þ. e. hversu miklar verðuppbætur hafi verið greiddar úr ríkissjóði á vörur til sölu innanlands, það sem af er þessu ári, og hversu miklu þær muni nema á árinu, að því að talið verði.

Þessum lið fsp. hefur þegar verið svarað. Hæstv. félmrh. gaf upplýsingar um það fyrir hálfum mánuði hér á hinu háa Alþingi, að gert væri ráð fyrir því, að uppbætur á vörur til sölu innanlands muni nema um 52 millj. kr. á þessu ári.

Enn fremur hef ég leyft mér að bera fram fsp. um, hversu miklar verðuppbætur hafi verið greiddar úr ríkissjóði á útfluttar vörur, það sem af er þessu ári, og hversu miklu sé gert ráð fyrir að þær nemi samtals á árinu.

Í fjárlögum hæstv. ríkisstj. er gert ráð fyrir því, að framlög úr ríkissjóði til dýrtíðarráðstafana verði á þessu ári 57 millj. kr. Það kom því ýmsum hv. þm. eðlilega mjög á óvart, þegar hæstv. félmrh. upplýsti fyrir hálfum mánuði, að uppbætur til sölu á vörum innanlands einar saman mundu nema á þessu ári 52 millj. kr. Samkvæmt því ættu verðuppbætur á útflutningsvörur ekki að geta numið nema 5 millj. kr., ef áætlun hæstv. ríkisstj. nýlögð fram er rétt. Hversu miklu þær eiga að nema, kemur væntanlega fram í svari hæstv. forsrh. (Fjmrh.: Það er ekki gert ráð fyrir þeim í fjárlagafrv.) Neinum útflutningsuppbótum? Þessar upplýsingar frá hæstv. fjmrh. koma mér mjög á óvart, því að ég veit ekki betur en að ég hafi lesið það í blöðum stjórnarflokkanna beggja, áður en fjárlagafrv. var lagt fram, að það mætti gera ráð fyrir því, að til útflutningsuppbóta kæmi á þessu ári. Annars verður fyrirspurninni væntanlega svarað hér á eftir.