02.11.1955
Sameinað þing: 8. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 387 í D-deild Alþingistíðinda. (2704)

202. mál, verðlagsuppbót úr ríkissjóði

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. svörin. Þó saknaði ég þess, að í þeim væru heildartölur um það, sem gert væri ráð fyrir að koma mundi til greiðslu á þessu ári. Hæstv. ráðherra svaraði fyrirspurninni þannig að geta um þær einingarupphæðir fyrst og fremst, sem ríkisstjórnin hefði heitið útflytjendum, en hins vegar fólust ekki í svari hans upplýsingar um, — auðvitað verður það að vera áætlun fyrir þann hluta, sem eftir er af árinu, — hversu miklu mætti gera ráð fyrir að þessar upphæðir mundu nema, þannig að ekki er hægt að gera sér hugmynd um það, hvort sú tala, sem í fjárlögum stendur og er ætluð til dýrtíðarráðstafana, en hæstv. fjmrh, sagði að vísu áðan að í ættu ekki að felast neinar fjárhæðir til verðuppbóta á útflutningsvörur, mundi duga eða ekki. Ég verð því að vissu leyti að harma það, að öruggar upplýsingar skuli ekki geta legið fyrir um þessi efni, vegna þess að það hlýtur að skipta miklu máli fyrir afkomu ríkisbúsins á næsta ári, hvernig til tekst um þetta.

Sé svo sem hæstv. fjmrh. sagði í innskoti sínu áðan, að talan 57 millj. til dýrtíðarráðstafana í fjárlagafrv. eigi aðeins við uppbætur á vörur til sölu innanlands, þá er auðséð, að mjög verulegar upphæðir vantar á fjárlagafrv. eins og það liggur fyrir, ekki aðeins til greiðslu uppbóta á þær sjávarafurðir, sem hæstv. sjútvmrh. ræddi um í svari sínu, heldur enn fremur fé til greiðslu uppbóta á útfluttar landbúnaðarafurðir. Eins og ég þegar gat um áðan, hefur því verið lýst yfir í málgögnum hæstv. ríkisstj., að á þessu ári muni verða greiddar uppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir, en að því var ekki vikið í svari hæstv. ráðherra.

Ég endurtek sem sagt, að ég harma, að ekki skuli nú þegar geta legið fyrir alveg ljósar upplýsingar, þótt áætlaðar væru, um það, hversu miklum fjárhæðum þessi atriði mundu nema, því að það skiptir sannarlega mjög verulegu máli fyrir mat manna á efnahagshorfunum nú og þá ekki sízt mat manna á væntanlegri afkomu ríkissjóðs.