02.11.1955
Sameinað þing: 8. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 388 í D-deild Alþingistíðinda. (2709)

50. mál, bátagjaldeyrir af togarafiski

Fyrirspyrjandi (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Það er búið að spyrjast nokkuð fyrir um ýmis atriði varðandi bátagjaldeyri, en ég ætla þó að leyfa mér að spyrjast fyrir um eitt atriði enn þá.

Hin síðari ár, einkum eftir að Bretar hófu landhelgisstyrjöld við okkur Íslendinga, hefur það færzt mjög í vöxt, að togarar legðu upp afla sinn til vinnslu í hraðfrystihúsum hér innanlands. Það er ekki að efa, að sú þróun mála hefur reynzt okkur hagkvæm á marga lund og fært þjóðarheildinni verulegan ávinning. En þessi breyting, sem orðið hefur á meðferð togaraaflans, hefur að sjálfsögðu valdið því, að mörg hraðfrystihús, sem áður unnu eingöngu úr fiski, sem vélbátar öfluðu, taka nú jöfnum höndum við fiski til vinnslu úr bátum og togurum. Eins og kunnugt er, nýtur bátafiskur sérstakra fríðinda, þar sem bátagjaldeyririnn er, en rekstrarvandamál togaraútgerðarinnar hefur verið reynt að leysa með öðrum hætti.

Því er ekki að leyna, að það hefur verið uppi nokkur orðrómur um það, að sum þau hraðfrystihús, sem taka jöfnum höndum við fiski af vélbátum og togurum, gæti þess ekki alltaf sem skyldi að halda báta- og togarafiski stranglega aðgreindum, svo sem vera ber. Það fer, held ég, naumast hjá því, að einhverjir hv. alþm. hafi heyrt því fleygt manna á milli, að til séu aðilar, sem reyni að afla sér bátagjaldeyrisfríðinda fyrir fisk úr togurum með því að merkja hann sem bátafisk.

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um nauðsyn þess, að kostað sé kapps um af opinberri hálfu að fyrirbyggja slíkt. Að sjálfsögðu er nauðsynlegt að koma í veg fyrir, að einn eða annar reyni að njóta fríðinda á röngum forsendum, en auk þess er bátafiskur og togarafiskur ekki sama vörutegund, og þess vegna er með öllu heimildarlaust og ótækt að blanda þeim saman. En þar sem þessi orðrómur, sem ég gat um, er orðinn nokkuð magnaður, taldi ég rétt að hreyfa málinu hér á Alþingi, bæði til þess að heyra, hvort hæstv. ríkisstj. liti svo á, að orðrómurinn kynni að hafa við einhver rök að styðjast, svo og til að fá upplýsingar um það, á hvern hátt sé framkvæmt það eftirlit með hraðfrystihúsunum, sem verður að teljast nauðsynlegt í þessu sambandi. Ég hef því leyft mér að bera fram á þskj. 55 fyrirspurn í tveim liðum varðandi þessi atriði.