02.11.1955
Sameinað þing: 8. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 389 í D-deild Alþingistíðinda. (2710)

50. mál, bátagjaldeyrir af togarafiski

Forsrh. (Ólafur Thors):

Hv. 8. þm. Reykv. (GilsG) hefur borið fram fyrirspurnir á þskj. 55 og nú gert grein fyrir þeim.

Spurt er: „Hefur þess orðið vart, að fiskur af togurum, sem unninn er í hraðfrystihúsum, hafi verið kallaður bátafiskur í því skyni að öðlast fyrir hann uppbætur samkvæmt ákvæðum um bátagjaldeyri?“

Svarið er: Fyrst þegar farið var að veita gjaldeyrisuppbót á bátafisk, var fiskmatsstjóra falið að sjá um, að fiskmatsmenn fylgdust með því, að bátafiski væri haldið algerlega aðgreindum frá öðrum fiski á hverri verkunarstöð. Fiskmatsstjóri taldi þá á þessu engin vandkvæði. Þessa yfirlýsingu hefur fiskmatsstjóri oft endurtekið og nú síðast í bréfi til rn., dags. 24. f. m., eftir að þessi fyrirspurn, sem hér er til umr., kom fram á Alþingi.

Þá er spurt í öðru lagi: „Hvaða eftirlit er haft með því af opinberri hálfu, að hraðfrystihús haldi fiski af bátum og togurum stranglega aðgreindum ?“

Svarið er: Í hverju hraðfrystihúsi starfa eiðsvarnir fiskmatsmenn, sem fylgjast með framleiðslunni og gefa vottorð um, hvað af framleiðslunni sé bátafiskur og hvað togarafiskur. Eru þessir matsmenn skyldaðir til að halda dagbók, og skal þar skráð, hvað af innvegnu hráefni er bátafiskur og hvað togarafiskur. Það á þess vegna að vera auðvelt að fylgjast með því, hvernig fiskur af bátum og togurum skiptist í hverju hraðfrystihúsi. Yfirfiskmatsmennirnir hafa hver í sínu umdæmi skyldu til að fylgjast með þessu og þá einnig með því, að dagbækur séu rétt færðar.

Ég vænti, að hv. fyrirspyrjandi telji þessum fyrirspurnum svarað með þessum skýringum og sjái, að það er, eftir því sem föng standa til, reynt að tryggja, að ekkert sviksamlegt athæfi sé í frammi haft. Ég fyrir mitt leyti hef heldur engar grunsemdir í þeim efnum.