02.11.1955
Sameinað þing: 8. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 392 í D-deild Alþingistíðinda. (2714)

50. mál, bátagjaldeyrir af togarafiski

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að gera hér að umræðuefni þetta mál, sem hv. 8. landsk. fór að ræða um, en sannast sagna hafði ég fengið skýrslu um það. Að gefnu tilefni frá honum vil ég aðeins skýra frá því, eins og hann raunar gerði, að í blaðinu Frjálsri þjóð birtist mánudaginn 29. sept. 1952 grein undir fyrirsögninni: „Stórfelld fjársvik hjá sumum hraðfrystihúsanna.“ Í þessari grein var fullyrt, að hraðfrystihúsaeigendur, a. m. k. á Suðurlandi, hefðu keypt togarafisk í stórum stíl og verkað hann sem bátafisk. Eftir að þessi grein birtist, sneri atvmrn. sér til dómsmrn. og óskaði þess, að opinber rannsókn yrði látin fara fram út af þessum ummælum blaðsins. Af því tilefni fól dómsmrn. sakadómaranum í Reykjavík að rannsaka málið, og tók sakadómari málið til rannsóknar fyrir dómi miðvikudaginn 29. okt. 1952. Fyrir dóm komu meðal annarra báðir ritstjórar blaðsins Frjálsrar þjóðar, Bergur Sigurbjörnsson og Valdimar Jóhannsson, en þeir neituðu báðir að gefa upp heimildarmenn fyrir þeim orðrómi, sem þeir töldu vera uppí um þetta atriði, og frekari upplýsingar gátu þeir ekki gefið um málið. Rannsókn dómarans bar því ekki árangur, þar sem ekki var bent á neinn þann, sem upplýsingar gæti gefið um málið, og ritstjórarnir gáfu engar upplýsingar sjálfir.

Þá mætti og fyrir réttinum fiskmatsstjóri, Bergsteinn Á. Bergsteinsson, og lýsti hann yfir því, að hann hefði ekki orðið þess var, að togarafiskur væri verkaður sem bátafiskur.

Nú erum við sammála um það, þessir menn, sem hér hafa talað um þetta mál, að slík mistök eru mjög vítaverð. Þau geta ekki aðeins skaðað Ísland og íslenzka hagsmuni á þann hátt, að verri fiskur yrði seldur í stað hins betri, og ég geri það ekki að aðalatriði, því að engin gögn liggja fyrir um það, að togarafiskurinn þyrfti að vera verri, en hér væri um sviksamlegt athæfi að ræða. Ef það væri um það að ræða, þá eru menn beinlínis að ræna sér réttindum, sem þeir ekki elga, á kostnað almennings í landinu. Ég hef hins vegar engin ráð til að girða fyrir þetta, önnur en þau að láta þá aðila, sem að lögum eiga um þetta að fjalla og til þess eru settir og skipaðir, hafa sem strangast eftirlit með því, og það höfum við gert í atvmrn. Svo þegar rekur hval á okkar fjöru og koma stórfelldar fregnir um þetta og málið er tafarlaust tekið fyrir, þá rekur hvalinn út sem smásíli af fjörunni og við stöndum með tvær hendur tómar. Það er ekki ómerkari maður en hv. þm., sem segir: Ég veit um stórfelld svik. — En þegar hann er kallaður fyrir rétt, þá segir hann: Ja, ég ætla ekki að gefa neinar upplýsingar og ekki heldur sá ólygni, sem sagði mér. En verkamenn, sem vinna hjá atvinnurekendunum, eru kjarkkarlar, þeir geta gefið upplýsingarnar.

Ef þann, sem hefur svo öruggar upplýsingar, að hann stendur að baki þess, að borið er á heila stétt manna, að þeir séu stórfelldir svikarar, brestur kjark til þess að standa við það, þá kalla ég það ekki kjarklausan mann, sem þorir, þegar hann kemur fyrir rétt, að segja: Nei, minn heimildarmaður skal sýkn ganga. — Hann hefur að vísu komið þessum svikaorðróm á stað, en hann þvær hendur sínar og segir: Ég get haft bölvun af því að vera að koma upp um burgeisana, og ég kem ekki nærri málinu. En það eru fátækir verkamenn, sem eru að vinna þarna í frystihúsunum. Þeir eru kjarkkarlar, og þeir geta farið í burgeisinn og þeir geta flett ofan af honum.

Ég ætlaði að láta þetta liggja á milli hluta, því að mér fannst þetta ekki aðalefni málsins, heldur fannst mér aðalefni málsins, hvort hér væri um mistök að ræða eða ekki. En hv. þm. er svo hreykinn af þessum aðgerðum sínum, að hann kemur með það hér að fyrra bragði. Það er kjarkmaður, Kolbeinn í Dal, stendur einhvers staðar.