09.11.1955
Sameinað þing: 11. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 398 í D-deild Alþingistíðinda. (2724)

80. mál, Marshallsamningurinn

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég man ekki betur en að hv. 2. þm. Reykv. bæri fram á síðasta Alþ. sams konar fyrirspurnir og hér er um að ræða. Ég hef ekki flett upp í þingtíðindunum til þess að leita að þessu, en mig minnir þetta, og ef svo er, þá verður svar mitt svipað því, sem það var í fyrra. En þetta er stutt fsp. og lítið fyrir því haft að svara þessu, svo að það kemur ekki að sök, þó að það sé endurtekið, ef menn hafa gleymt því, sem fram fór hér fyrir ári.

Það er spurt: „Hefur verið gerð breyting á þeim ákvæðum Marshallssamningsins, er heimila Bandaríkjastjórn að fá til sinna afnota 5% af andvirði óafturkræfra framlaga?“ — Og það er enn fremur spurt: „Ef slík breyting hefur verið gerð, hver er hún þá og hvenær var hún gerð og hvaða áhrif hefur hún haft?“

Ég skal vera stuttorður í svarinu, en minna á, að árið 1952 gerði Bandaríkjaþing þær breytingar á lögunum um efnahagsaðstoð, að öll þau ríki, sem hlytu gjafaframlög í dollurum, skyldu greiða 10% af jafnvirði þeirra til ráðstöfunar Bandaríkjastjórnar í stað 5% áður. Íslenzka ríkisstj. samþykkti eins og ríkisstjórnir annarra landa, sem efnahagsaðstoðar nutu, að ganga að þessum skilyrðum til áframhalds aðstoðarinnar. Þetta nýja ákvæði var látið gilda um innkaupaheimildir, sem gefnar voru út eftir 20. júní 1952 og voru samtals að upphæð 5.9 millj. dollara eða sem svarar 95.7 millj. kr. Greiðsla í hinn sérstaka reikning Bandaríkjastjórnar nemur vegna þeirra 9.6 millj. kr., en hefði numið 4.8 millj. kr. eftir eldra ákvæðinu. Er hækkun greiðslunnar af því 4.8 millj. kr. eða 1% af þeim 463 millj., sem gjafaframlögin hafa numið.

Eins og hv. þingmönnum er ef til vill kunnugt, var það alltaf á meðan Marshallaðstoðin var í gildi, að Bandaríkjaþing samþykkti fyrir hvert ár, hversu aðstoðin skyldi vera mikil, kvað á um það, með hvaða skilyrðum skyldi afhenda aðstoðina, og upphaflega var það, að 5% af gjafaframlaginu skyldi lagt á sérstakan reikning Bandaríkjastjórnar. En 1952 er ákveðið, að það skuli hækka upp í 10%. Hinum ýmsu þjóðum, sem höfðu notið gjafaframlagsins, var gefinn kostur á að fá 90% gefins í staðinn fyrir 95% áður. Íslendingar þáðu þessi 90%, sem og sjálfsagt var, og ekki áttu þeir kröfu á meiru. Ég verð að segja, að ég man ekki betur en að hv. 2. þm. Reykv. hefði á móti því, að Íslendingar tækju á móti þessari efnahagsaðstoð, á meðan hún var. Þess vegna undrast ég það nú, ef fsp. hans á að merkja það, að honum finnist, að aðstoðin hafi verið of lítil, á meðan hún var veitt, og hann telur, að hér hafi verið framin lögbrot með því, að við skyldum taka við 90%, þegar okkur var boðið það, í staðinn fyrir 95% áður.

Annars vil ég benda hv. þm. á, að í Fjármálatíðindum, maí- og júníhefti þessa árs, er gerð skýr grein fyrir efnahagsaðstoðinni frá 1948–53, í grein, sem Þórhallur Ásgeirsson hefur skrifað í þetta tímarit, og þar er ekkert undan dregið. Ég vil benda þessum hv. þm. á að lesa greinina og öðrum hv. þingmönnum, sem þetta er ekki nógu ljóst fyrir, og þá komast þeir að raun um, hvernig þessi mál eru. Hafi þetta svar mitt ekki verið tæmandi, þá er ekki annað að gera en að lesa þessa grein, því að þar er allt fram tekið, sem þetta mál varðar.