09.11.1955
Sameinað þing: 11. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 401 í D-deild Alþingistíðinda. (2726)

80. mál, Marshallsamningurinn

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég er dálítið undrandi á því, að hv. 2. þm. Reykv. skuli vera að reyna að snúa svona út úr og gefa í skyn allt aðrar meiningar en það, sem ég sagði. Allir, sem hlustuðu á mig áðan, heyrðu, að ég talaði ekki um, að lög Bandaríkjaþings skyldu gilda hér, heldur sagði ég sem var, að Bandaríkjaþing hefði gefið kost á aðstoðinni með vissum skilyrðum, og þá var það okkar að taka við gjöfinni með þessum skilyrðum eða hafna henni, en öll aðildarríkin tóku við gjöfinni eftir 1952 með þessum skilyrðum. Það er náttúrlega alger fjarstæða að tala um, að hér hafi verið brotin lög af þáverandi ríkisstjórn. Hvaða lög banna það að taka við 90% gjöf frá Bandaríkjunum? Það er ekkert í þeim lögum, sem hv. þm. vitnar í, sem bannar slíkt. Og ég vil biðja hv. þm. að vera ekki með slíkar fjarstæður hér. Ég veit alveg, hvað það er, sem hv. þm. ætlar að sýna mér. Hann ætlar að sýna mér lögin, sem segja til um það, hvernig 5% skuli varið, en þau lög nefna ekkert, hvort þetta megi vera meira eða minna. Það segir bara, að þessum 5% skuli varið á þann veg, sem ákveðið er í þessum lögum. Ég þarf ekki að lesa um þetta, ég veit, hvað það er. Eins og hv. 2. þm. Reykv. tók fram áðan í sinni fyrri ræðu, þá sagði hann, að það hefðu ekki verið nein lög um Marshallaðstoðina yfirleitt, og þess vegna er ekki um það að ræða hér, að það hafi verið brotin lög. Það er leiðinlegt, að hv. þingmaður, sem svo margt er gott um, skuli vera að reyna að belgja sig út og blekkja á þennan hátt. Ég tel, að hann ætti að vera upp úr því vaxinn.

Hv. þm. taldi, að ég hefði viljað skjóta mér undan því í fyrra að svara því, hvað upphæðin hefði verið há. Það er mesti misskilningur. Það er ekkert leyndarmál, hver upphæðin er. Og ég get upplýst hv. þm. um það, hver upphæðin er, enda þótt ég viti, að hann sé það góður í reikningi, að hann viti það. Gjafaframlagið var alls 463 millj. kr. Það var eftir 1952 95.7 millj., og það á að reikna 10% frá því. Af hinu á að reikna 5%. M. ö. o.: Það á að reikna 5% af 380 millj. og 10% af 95.7 millj., og þá getum við allir fundið út. hver upphæðin er; það mun vera nálægt 28 millj. Það hefur verið skrifað um það, eins og ég benti á, í tímarit Landsbankans og allt dregið þar fram, ekkert dregið undan. Ég ætla nú, að hv. þm. hafi fengið alveg fullkomin svör við þessum fyrirspurnum sínum.