09.11.1955
Sameinað þing: 11. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 407 í D-deild Alþingistíðinda. (2731)

204. mál, daggjöld landsspítalans

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Mér kemur ekki til hugar að draga í efa þær upplýsingar, sem hæstv. heilbrmrh. hefur gefið hér um vaxandi rekstrarkostnað hjá landsspítalanum. Ég þakka þær upplýsingar, og tel án efa, að þær séu réttar. En það er fleira, sem þarf að athuga í þessu máli, en það eitt.

Í fyrsta lagi er aðferðin, sem höfð er við breytingu á iðgjöldunum að þessu sinni, að minni hyggju ekki réttlætanleg. Daggjöld á sjúkrahúsum voru hækkuð í ársbyrjun samkv. ákvæðum fjárlaganna úr 70 kr. upp í 75 kr. Það var að sjálfsögðu tilkynnt öllum sjúkrasamlögum úti um land, og þeirra iðgjaldaákvarðanir fyrir árið voru við það miðaðar. Svo 5. október er ekki aðeins fyrirvaralaust, heldur eftir að breytingin á að vera komin til framkvæmda, tilkynnt, að þessar 75 kr. séu nú hækkaðar upp í 90 kr.

Ég verð að segja, að þetta kom bæði Tryggingastofnuninni og sjúkrasamlögunum algerlega á óvart. Það var talið víst, að í þessu sem öðru mætti treysta ákvæðum fjárlaganna. Mér er ekki kunnugt um neina aðra tekjuliði fjárlaganna, sem hefur verið breytt með ráðstöfun af hálfu ríkisstj., heldur en þennan eina. Og það er vissulega aðferð, sem ómögulegt er að hugsa sér að notuð verði, að tilkynna ekki aðeins fyrirvaralaust, heldur nokkrum dögum eftir að breytingin kemur til framkvæmda, stórfellda breytingu frá þeim ákvörðunum, sem Alþ. óbeinlínis hefur tekið við afgreiðslu fjárlaganna um daggjaldaupphæðir á því ári.

Nú er enn fremur, að því er virðist, á frv. til fjárl. fyrir 1956 gert ráð fyrir, að þessar 90 kr., sem nú eiga að gilda, verði hækkaðar upp í 100 kr., þannig að hækkunin á einu ári verður hvorki meira né minna en 30 kr., eða yfir 40%. Þetta eru meiri hækkanir en á flestum öðrum sviðum, sem mér er kunnugt um.

Hæstv. ráðh. sagði, að hann vildi ekki um það fullyrða, hvort ríkissjóður græddi eða tapaði reikningslega séð á þessum ráðstöfunum, en hann teldi þó, að heldur mundi ríkissjóður hagnast á þessu. Ég hef reynt að athuga þetta nokkuð, en ég kemst að allt annarri niðurstöðu. Ég hef ekki nákvæmar tölur í þessu, en þar mun ekki skeika miklu. Samkv. þeim upplýsingum, sem við í Tryggingastofnuninni höfum fengið, mun tala sjúkrarúma á öllu landinu vera í kringum 300 þús. legudaga á ári á öllum almennum sjúkrahúsum í landinu, hælin ekki talin með. Það mun láta nærri, að þessir legudagar skiptist á sjúkrasamlögin og ríkisframfærsluna þannig, að um 200 þús. legudagar séu á kostnað sjúkrasamlaganna og um 100 þús. legudagar séu á kostnað ríkisframfærslunnar.

Sé nú gert ráð fyrir því, sem mun láta nærri, að meðalhækkun daggjalda á sjúkrahúsum almennt, sem leiðir af 15 kr. hækkun á daggjaldi landsspítalans, verði um 14 kr., þá hækka útgjöld sjúkrasamlaganna vegna þessarar 15 kr. hækkunar um 28 millj. kr.

Beri ríkissjóður þennan kostnað að fimmta hluta, eins og hann nú ber kostnað sjúkrasamlaganna, hækka útgjöld hans til samlaganna um fimmta hlutann af þeirri upphæð, eða 560 þús. kr. En þar við bætist, að ríkisframfærslan greiðir til almennra sjúkrahúsa, annarra en hælanna, sem ríkissjóður rekur, fyrir 100 þús. legudaga á ári. Hækkunin á þeim lið verður því í kringum 1400 þús. kr., þannig að heildarútgjaldaauki ríkissjóðs samkv. þessu virðist vera nálægt 1680 þús. kr. á árinu 1956, miðað við þessar áætlanir.

Ég endurtek, að þetta eru að sjálfsögðu ekki réttar tölur, en þar mun ekki skeika miklu. Á móti því kemur svo hækkunin á daggjöldum landsspítalans, sem hefur um 60 þús. legudaga á ári. Sú hækkun nemur 900 þús. kr., einnig miðað við 15 krónurnar, og á fæðingardeildinni um 25 þús. kr. En frá fæðingardeildartekjuaukanum má draga 2/3, því að bæjarsjóður Reykjavíkur stendur undir rekstri hennar að 2/3 hlutum, þannig að heildartekjuauki landsspítalans af þessum ráðstöfunum verður innan við eina millj. kr.

Mér skilst því, að það láti mjög nærri, að útgjöld ríkissjóðs vegna þessara ráðstafana, eingöngu að því er snertir greiðslu vegna sjúkrahúsmálanna, muni aukast um rösklega 600 þús. kr., sem útgjöldin verða meiri en tekjurnar. Þessa upphæð má að sjálfsögðu lækka nokkuð með því að hækka einnig daggjöldin á hælum ríkissjóðs. Fyrir ríkissjóð, sem greiðir 4/5 af kostnaði, skiptir þetta engu máli, tekjur og gjöld vaxa þar jafnt. En sveitarfélögin greiða fimmta hluta af legukostnaði sjúklinga, og þess vegna mundi fimmti hlutinn af þeirri hækkun, við skulum segja, að hún yrði 20% eins og á landsspítalanum, koma á sveitarfélögin. Sú upphæð, 300–400 þús. kr., mætti því dragast, ef þessi leið væri farin, frá þeim 600 þús. kr., sem ég áðan nefndi, og mundi þá ekki skeika meiru en 300–400 þús. kr., sem útgjaldaaukningin yrði meiri en tekjuaukningin. En þá yrðu líka færðar yfir á sveitarfélögin a. m. k. 500–600 þús. kr. af sjúkrahúskostnaðinum í gegnum hækkun daggjaldanna.

Ég skal fullkomlega játa, að ekki er sanngjarnt að ætla sjúkrahúsum, sem eru rekin af sveitar- og bæjarfélögum eða einstökum félagssamtökum, að bera mjög mikinn halla á rekstrinum. En það hefur alltaf verið gengið út frá því, að nokkur hluti af eðlilegum halla sjúkrahúsanna, sem stafaði af dvöl héraðsmanna á sjúkrahúsunum, væri greiddur úr bæjarsjóði, en ekki með daggjöldum. Og upp í einmitt þann halla hefur Alþ. ákveðið að ríkissjóður skuli greiða 10 eða 20 kr. á legudag eftir því, hve mikla þjónustu sjúkrahúsin láta í té.

Hins vegar verð ég að leggja mjög áherzlu á, að það er ákaflega varhugavert, að ríkisstj. gangi á undan í þessum hækkunum og hvetji þar með önnur sjúkrahús til þess að fylgja fast á eftir, þar sem augljóst er, að slík hækkun sem þessi — og ég hef hér aðeins reiknað með 15 krónunum — hlýtur að leiða til beinnar útgjaldaaukningar fyrir ríkissjóðinn sjálfan.

Ég vildi því mega vænta þess, að hæstv. ríkisstj. athugaði þetta mál nákvæmlega, áður en fjárlög verða afgreidd og ákveðin daggjöld fyrir ríkisspítalana á næsta ári.

Enn er ónefnd önnur hlið þessa máls, sem vissulega skiptir miklu máli. Samkv. bréfi, sem ég hef fengið frá Hagstofu Íslands, mun vísitala framfærslukostnaðar og líka kauplagsvísitalan hækka um 0.86 stig vegna 8 kr. hækkunar á samlagsiðgjöldum hér í Reykjavík. 0.86 stiga hækkun þýðir rösklega fimm af þúsundi í hækkun á kaupi. Það þýðir, að hjón með 3200 kr. mánaðartekjur í Reykjavík fá hækkun á launum sínum sem nemur 16 kr. eða nákvæmlega því sama og iðgjaldahækkun hjónanna nemur. Hins vegar fær einhleypingurinn, sem lendir ekki í nema 8 króna iðgjaldahækkun, einnig 16 kr. launahækkun, og þeir, sem hafa hærri laun, fá miklu meiri launahækkun, þar sem vísitölutakmörkunin kemur ekki til. 0.5% launahækkun, sem leiðir beint af iðgjaldahækkuninni, þýðir, að ofan á hverjar 20 millj., sem ríkissjóður greiðir í laun, kemur bein hækkun af þessum sökum um a. m. k. rösklega 100 þús. kr., og geta þá þeir, sem fróðir eru, reiknað út, hvaða útgjaldaauki kemur eingöngu á ríkissjóð vegna hækkaðra launagreiðslna vegna þessara ráðstafana.

Þessar upplýsingar þótti mér rétt að kæmu hér fram í sambandi við fyrirspurnarsvörin.